Það er komið að því. Kraftröðunin sem mun annaðhvort gera menn að snillingum eða bjánum. Eða hvorutveggja!
Í fyrra tróndu Baltimore Ravens á toppi listans sem besta lið að mati undirritaðs, með Kansas City Chiefs á hælunum. Dallas Cowboys vermdu 5. sætið en sú pæling gekk aldeilis ekki upp. Vissulega meiddist Dak Prescott snemma á tímabilinu sem gerði í kjölfarið út um alla möguleika liðsins.
Ríkjandi Ofurskálarmeistararnir frá Tampa Bay voru í 8. sæti en stærstu mistökin voru að hafa Philadelphia Eagles í 9. sæti en Miami Dolphins í því tuttugastaogáttunda.
Nú er komið að því að láta vitleysuna flakka! Seinasta kraftröðun kom út í mars og endurspegla tölurnar í sviganum breytingu liða frá þeirri útgáfu.
1. Tampa Bay Buccaneers (-)
Langbesti hópurinn. Frá A-Ö.
2. Cleveland Browns (+4)
Rosalega sterk innkoma Kevin Stefanski hefur hleypt allskonar geðveiki í Cleveland borg og Browns eru hreint út sagt með þvílíkt öfluga liðsheild, þar sem varla er veikan blett að finna.
3. Kansas City Chiefs (-)
Tvö lið sterkari en Chiefs? Já. Chiefs tríóið (Mahomes, Kelce, Hill) er það besta í deildinni en sóknarlínan er glæný og vörnin hefur lítið sem ekkert bætt sig frá því í fyrra. Engu að síður verða Chiefs alltaf í Ofurskálarumræðunni með Patrick Mahomes undir senter.
4. Buffalo Bills (-2)
Josh Allen er búinn að fá greitt og nú hefst raunverulega Ofurskálarpressan. Lifandi tímar í Buffalo, dömur og herrar!
5. Los Angeles Rams (-1)
Besta varnarliðið í deildinni í fyrra hefur nú uppfært leikstjórnandastöðuna sína. Innkoma Matt Stafford mun opna áður læsta kafla í sóknarbiblíu Sean McVay. Fullt stím.
6. Green Bay Packers (+1)
Aaron Rodgers tekur allavega eitt ár enn og það þýðir að Packers verða málefnalegir í vetur. Nýr varnarþjálfari liðsins, Joe Barry, nær vonandi að hrista upp í þessari meðalvörn.
7. Baltimore Ravens (+1)
Gríðarlega vel þjálfað lið og heilsteyptur hópur að venju undir John Harbaugh. Greg Roman þarf að trekkja Lamar Jackson og kastleik liðsins upp á áður óséð plan. Biddu fyrir þér ef það tekst.
8. New England Patriots (+4)
Patriots verða fjári sterkir í vetur, bókaðu það. Frábært sérlið, alltaf sterk vörn og uppfærð sóknarvop með frábæra sóknarlínu fyrir framan sig. Cam Newton og Mac Jones sigla þessu vonandi saman í vetur og stuðningsmenn liðsins geta tekið gleði sína á ný.
9. San Francisco 49ers (-4)
Kyle Shanahan þarf að kippa stólnum undan Jimmy Garoppolo og krýna nýjan kóng í San Francisco borg. Trey Lance þarf að fá sénsinn, frá fyrsta snappi. Nick Bosa kemur vonandi beittur til baka en temprum samt væntingarnar til hans.
10. Los Angeles Chargers (+11)
Spútnik lið ársins. Justin Herbert gæti gert tilkall til MVP verðlaunanna í ár og þjálfari liðsins, Brandon Staley, er líklegastur til að vinna þjálfaraverðlaun deildarinnar að mati veðbanka. Staley sér til þess að Chargers vörnin verði í efri þriðjungi deildarinnar.
11. Tennessee Titans (-1)
Titans verða með eitt besta sóknarlið deildarinnar ef nýr sóknarþjálfari liðsins, Todd Downing, verður ekki fyrir. Ryan Tannehill, Derrick Henry, A.J. Brown og Julio Jones mynda óárennilegustu fernu deildarinnar. Spurningarmerkin eru staðsett varnar- og sérliðsmegin.
12. Seattle Seahawks (-3)
Það kæmi mér ekki á óvart ef þetta verður árið þar sem sjóhaukunum fatast flugið. Russell Wilson átti í útistæðum við forsvarsmenn félagsins í sumar og nú er hann aftur orðinn súr því félagið vill ekki gefa vinstri tæklaranum Duane Brown nýjan samning fyrir tímabilið. Þetta gæti sprungið í andlitið á Pete gamla Carroll.
13. Washington Football Team (+6)
Washington liðið færist upp um sex sæti á milli útgáfa. Með hinn seiðuga undir senter, glæsilegt vopnabúr og fína línu verður fótboltaliðið ágætt sóknarmegin en aðalstyrkleiki liðsins er í varnarlínunni. Með sterka vörn og fína sókn er NFC East titillinn innan seilingar.
14. Dallas Cowboys (+6)
Líkt og riðilsbræður sínir frá Washington, þá taka Dallas kipp í þessari útgáfu kraftröðuninar. Helsta spurningin snýr að Dak Prescott og hans heilsu. Mun hann ná sér 100% í vetur? Sóknarlega er liðið sneisafullt en öll augu verða á Dan Quinn, nýja varnarþjálfaranum, og hvort hann geti stoppað blæðinguna og saumað sárið saman.
15. Indianapolis Colts (-2)
Það er erfitt að sjá þetta Colts lið fyrir sér vinna AFC South riðilinn og hvað þá ef Carson Wentz og Quenton Nelson verða tæpir fyrstu vikurnar af tímabilinu. Wentz þarf að hysja upp bæði brækur og sokka ef þetta lið ætlar sér að blanda sér í úrslitakeppnisbaráttuna. Ef Wentz verður ekki góður, þá verður þetta algjör hörmung í Indianapolis.
16. New Orleans Saints (-5)
Nú er komið að Jameis Winston að sanna sig í þessari deild. Línurnar hjá Saints eru frábærar og gætu skilað liðinu nálægt 50% sigurhlutfalli.
17. Denver Broncos (+1)
Gríðarlega vel mannað lið sem þarf að svara allskonar spurningum varðandi leikstjórnandastöðuna sína. Verður það Drew Lock eða Teddy Bridgewater sem eigna sér QB1 stöðuna? Fái liðið meðalmennsku frá sínum leikstjórnanda þá fer liðið hæglega inn í úrslitakeppnina.
18. Minnesota Vikings (-3)
Með óbólusetta anti-vax leiðtoga verða Vikings happa-glappa í vetur. Lendi þeir í minnsta covid veseni, gæti tímabilið hrunið eins og spilaborg. Ein besta sóknin á landinu í fyrra hefur kjötað upp varnarlínuna sem býður Danielle Hunter og Michael Pierce velkomna aftur eftir hjásetu í fyrra.
19. Pittsburgh Steelers (-2)
Pittsburgh hafa líklega aldrei verið rankaðir svona lágt á síðunni áður. Vörnin verður áfram aðalsmerki liðsins, Roethlisberger verður vonandi heilli og betri, útherjadeildin er sterk en sóknarlínan lítur skelfilega út. Standi hún ekki pligtina, þá verður úrslitakeppnin fjarlægur draumur. Nái hún að koma öllum á óvart, þá gætu þeir laumað sér inní úrslitakeppnina. Liðið á erfiðasta leikjaprógramm deildarinnar.
20. Arizona Cardinals (-6)
Hér falla Cardinals niður um sex sæti, þrátt fyrir að hafa styrk báðar línurnar sínar og línuvarðaherbergið. Ástæðan er Kliff Kingsbury. Hann er, því miður, súr gúrka. Deandre Hopkins var að hóta því að hætta, A.J. Green er bitlaus og hlaupaleikurinn gæti vafist fyrir þeim.
21. Miami Dolphins (-5)
Enn á ný er ég ekki bjartsýnn á Dolphins. Þeir falla hér niður um fimm sæti en ég set spurningamerki við báðar línurnar þeirra og hlaupasveitina. Nú þarf Tua að sýna hvað í honum býr en ég er hræddur um að hann þurfi eitt ár enn áður en við getum virkilega sagt af eða á.
22. Chicago Bears (+6)
Bears fá heljinnar fótstig í þessari útgáfu en ég er iðulega mjög svartsýnn á gengi liðsins. Matt Nagy hreyfir lítið við mér og ég reikna með að hann noti Andy Dalton alltof mikið í vetur. Justin Fields þarf að fá öll þau snöpp sem hann ræður við. Þetta er framtíðarásinn, afhverju ertu að blanda rauða rifflinum í þetta? Vörnin verður sterk en ég hef áhyggjur af sóknarlínunni.
23. New York Giants (-1)
Saquon Barkley snýr aftur en sóknarlínan er enn sú versta í deildinni. Vörnin mun halda þeim inn í leikjum í vetur.
24. Las Vegas Raiders (-1)
Derek Carr og Darren Waller bera liðið á herðum sér enn eitt tímabilið en ekki búast við miklu af vörninni.
25. Carolina Panthers (-1)
Sam Darnold verður vonandi skárri en Bridgewater var í fyrra. Panthers verða sýnd veiði en ekki gefin í vetur. Taka væntanlega einhverjum framförum.
26. Atlanta Falcons (-)
Nýr GM, nýr aðalþjálfari og þjálfarateymi. Enginn Julio Jones. Calvin Ridley og Kyle Pitts eru framtíð Falcons sem verður líklega ekki björt fyrr en eftir þetta tímabil.
27. Jacksonville Jaguars (-2)
Biðin tekur loks enda. Trevor Lawrence mun spila sinn fyrsta NFL leik bráðlega. Því miður verður það aðalsögulínan í vetur í Jacksonville. Þetta mun taka tíma. Urban Meyer nær varla að snúa prógramminu við á 0,1.
28. Cincinnati Bengals (+1)
Bengals eru enn með slappa sóknarlínu og ósannfærandi vörn. Það munu koma inn nokkrar flottar sóknarklippur á Twitter af Burrow, Higgins og Chase en þessi hundur er bara gelt en ekkert bit.
29. Philadelphia Eagles (-2)
Ég held að Jalen Hurts muni taka góðum framförum og við munum koma til með að sjá flotta fernu í Hurts, Sanders, Smith og Reagor. Varnar- og sóknarlínur liðsins eru sterkar svo það er alveg smá séns að Eagles stríði liðum framan af tímabili en ég sé þá ekki fyrir mér halda því út.
30. Detroit Lions (+1)
Lions verða spennandi lið til að fylgjast með í byrjun tímabils. Aðallega útaf Dan Campbell, þjálfara liðsins, en einnig verður fróðlegt að sjá hvernig Jared Goff vegnar á nýjum stað. Það vantar hinsvegar fullt af varahlutum í þetta lið.
31. New York Jets (-1)
Ekki strax. Kannski seinna.
32. Houston Texans (-)
Með fyrsta valréttinum í 2022 nýliðavali NFL deildarinnar…..