Í fyrra sáum við Tom Brady breyta til og skipta um lið í fyrsta sinn á ferlinum. Brady skrifaði undir $50M samning til tveggja ára hjá Tampa Bay Buccaneers. Philip Rivers færði sig sömuleiðis frá liðinu sem valdi hann á sínum tíma og skrifaði undir 1-árs $25M samning hjá Indianapolis Colts.
Þrátt fyrir þessar stóru fréttir innihélt leikmannamarkaðurinn ekki margar stjörnur heldur fengum við að sjá meira af miðlungsleikmönnum færa sig um set. Byron Jones fékk stærsta samninginn í dollurum talið en á eftir honum komu Robert Quinn og Teddy Bridgewater.
Það er hinsvegar útlit fyrir að það að markaðurinn á næsta ári verði töluvert spikaðri. Lið hafa þó enn fullt leyfi til að framlengja við leikmenn sína ef frátaldir eru þeir leikmenn sem voru franchise taggaðir í fyrra (framlengingarfresturinn rann út 15. júlí 2020). Þeir leikmenn gætu þó átt hættu á því að vera klukkaðir aftur af liði sínu. Þess vegna gæti þessi listi orðið úreltur fljótt ef lið fara að opna á samningaviðræður við leikmennina.
Einnig er mikilvægt að átta sig á því að launaþak liða mun líklega skreppa saman næstu árin en ekki þenja út eins og þróunin hefur verið. Heimsfaraldur setur ýmislegt úr skorðum.
Fyrr í vikunni skrifaði Ronnie Stanley, vinstri sóknartæklari Ravens, undir framlengingu en hann var á sínu seinasta samningsári hjá félaginu. Stanley var einn þeirra leikmann sem ég ætlaði að nefna í þessari grein.
Sóknarleikmenn
Dak Prescott, QB – Dallas Cowboys. Prescott var franchise taggaður af Jerry Jones fyrr á árinu en samningsviðræður um framlengingu sigldu í strand um svipað leyti og fresturinn rann út 15. júlí. Meiðsli Dak Prescott gætu sett strik í reikninginn en líklegt þykir þó að leikstjórnandinn muni koma til með að skrifa undir nýjan samning við félagið sem valdi hann í fjórðu umferð nýliðavalsins 2016.
David Bakhtiari, LT – Green Bay Packers. Bakhtiari hefur verið einn besti vinstri tæklarinn seinustu ár en hans sérgrein er sendingavernd. Green Bay hafa verið öflugir það sem af er vetri og erfitt er að sjá Briant Gutekunst leyfa þessum gæðaleikmanni að valsa inná frjálsa leikmannamarkaðinn í mars.
Trent Williams, LT – San Francisco 49ers. San Francisco 49ers fengu Williams í skiptum við Washington í apríl síðastliðnum fyrir 5. umferðar (2020) og 3. umferðar (2021) valrétti. John Lynch, framkvæmdastjóri 49ers, vissi mætavel að vinstri tæklarinn öflugi ætti aðeins eitt ár eftir af samningi sínum en nú verður að koma í ljós hvort liðið muni framlengja við hann áður en samningurinn rennur út. Líklega verður þetta þó bara árs leiga á frábærum tæklara þar sem kostnaðurinn endar á að vera aðeins 3. umferðar valréttur þar sem 49ers fá að öllum líkindum 4. umferðar eða 5. umferðar comp valrétt skrifi Williams undir samning við annað lið í mars.
Chris Godwin, WR – Tampa Bay Buccaneers. Það verður að teljast ansi líklegt að Tampa Bay afgreiði þetta mál fyrr en seinna. Godwin átti stórkostlegt tímabil í fyrra og sýndi og sannaði að hann á heima inná topp 10 lista yfir bestu útherja deildarinnar. Hinsvegar verða Shaq Barrett og Lavonte David líka samningslausir í mars svo líklega þarf Jason Licht að velja og hafna í ljósi þess að launaþakið mun að öllum líkindum dragast eitthvað saman á næstu árum.
Kenny Golladay, WR – Detroit Lions. Golladay er einn af þeim leikmönnum á þessum lista sem ég tel ólíklegan til að fá framlengingu hjá sínu félagi. Detroit Lions eru hinsvegar með þá trú að þeir geti gert atlögu að úrslitakeppnissæti svo þeir eru ekki að fara að skipta sínum besta sóknarleikmanni í burtu en munu að öllum líkindum fá glæsilegt comp pikk fyrir að leyfa honum að labba í mars.
Allen Robinson, WR – Chicago Bears. Robinson er annar leikmaður sem ég sé ekki framlengja hjá félaginu sínu. Chicago Bears gáfu Tarik Cohen á dögunum framlengingun sem margir klóruðu sér í höfðinu yfir. Allen Robinson á skilið að spila með góðum leikstjórnanda svo líklega leitar hann á önnur mið.
JuJu Smith-Schuster, WR – Pittsburgh Steelers. Enn annar leikmaður sem mun að öllum líkindum spila fyrir annað lið. Við höfum séð útherjana Antonio Brown og Emmanuel Sanders yfirgefa herbúðir liðsins ásamt hlauparanum Le’Veon Bell. Steelers eiga til nokkra unga og efnilega útherja (Claypool, Johnson & Washington) svo ólíklegt þykir að þeir borgi Smith-Schuster hátt í þær $17M árlega sem hann mun líklega krefjast.
Aaron Jones, RB – Green Bay Packers. Aaron Jones hefur þurft að horfa upp á árgangsbræður sína (McCaffrey, Kamara, Cook & Mixon) fá veglega nýja samninga á meðan framtíð hans er enn óráðin. Brian Gutekunst valdi hlauparann A.J. Dillon í 2. umferð seinasta nýliðavals sem hægt er að túlka á þá leið að framtíð Jones sé ekki í Green Bay.
Phillip Lindsay, RB – Dener Broncos. John Elway gaf Melvin Gordon 2-ára $8M samning fyrir tímabilið þegar fjölmargir stuðningsmenn félagsins bjuggust við því að Lindsay fengi framlengingu fyrir frammistöðu sína undanfarin tvö ár. Phillip Lindsay er uppalinn í Denver og er í miklu uppáhaldi hjá aðdáendum liðsins en óvíst er hvort Elway sé reiðubúinn að borga honum í takt við frammistöðu hans á vellinum.
Chris Carson, RB – Seattle Seahawks. Carson er virkilega mikilvægur sókn Seahawks en hann er ótrúlega harður af sér og setur tóninn fyrir allt liðið með harðgerri nálgun sinni á leikinn. Carson var valinn í 7. umferð nýliðavalsins árið 2017 og Spotrac metur markaðsvirði hans sem $9M á ári. Hvort Seahawks séu tilbúnir að borga honum það er svo annað mál.
Jonnu Smith, TE – Tennessee Titans. Ágætis innherji sem skapaði sér nafn í fyrra með spútnik liði Mike Vrabel. Hefur farið vel af stað í ár og er kominn með 5 snertimörk í 6 leikjum.
Hunter Henry, TE – Los Angeles Chargers. Tom Telesco klukkaði Hunter Henry með franchise tagginu eftir seinasta tímabil. Henry hefur verið að glíma við meiðsli allan sinn NFL feril og hefur ekki staðið undir væntingum það sem af er.
Varnarleikmenn
Shaq Barrett, EDGE – Tampa Bay Buccaneers. Barrett var franchise taggaður í fyrra en það hlýtur að vera í hæsta forgangi Tampa Bay að framlengja við skyndiliðann. Góðir varnarendar sem trufla leikstjórnendur eru eins og eðalmálmar og regla númer eitt er að láta slíkan ekki renna úr greipum þér.
Bud Dupree, EDGE – Pittsburgh Steelers. Dupree er ansi líklegur til að lenda á opna markaðnum í mars en það styttist í að Steelers þurfi að framlengja T.J. Watt og ólíklegt er að þeir geti kastað háum fjármunum í báða leikmennina.
Lavonte David, LB – Tampa Bay Buccaneers. Einn vanmetnasti leikmaður NFL deildarinnar undanfarin 7-8 ár. Myndar besta línuvarðarparið í deildinni með Devin White. Leiðtogi varnarinnar sem slæmt væri að missa úr klefanum. Verður spennandi að sjá hvernig málin þróast á milli þessara aðila.
Leonard Williams, IDL – New York Giants. New York Jets og New York Giants höfðu aldrei í sögunni skipst á leikmönnum eða valréttum fyrr en Jets sendu Leonard Williams yfir til Giants fyrir ári síðan. Williams og Giants náðu ekki samkomulagi um framlengingu og því franchise tögguðu Giants leikmanninn. Líklegt þykir að Giants reyni að halda Williams en hann myndar nokkuð sterka varnarlínu ásamt Dexter Lawrence og Dalvin Tomlinson (sem er einnig að verða samningslaus).
Yannick Ngakoue, EDGE – Baltimore Ravens. Ngakoue gekkst nýverið til liðs við Baltimore eftir stutt stopp hjá Minnesota. Helsti veikleiki Ravens varnarinnar hefur verið að skapa pressu á leikstjórnendur og fær Ngakoue tækifæri til að sýna og sanna sig að nýju í von um að drífa upp markaðsvirði sitt.
Justin Simmons, FS – Denver Broncos. Justin Simmons og John Elway reyndu og reyndu að ná saman í sumar en tókst þó ekki. Simmons spilaði frábærlega í vörn Denver í fyrra og hefur farið vel af stað í vetur. Simmons er dáður af stuðningsmönnum liðsins sem allir vilja sjá leikmanninn fá nýjan samning.
Jadeveon Clowney, EDGE – Tennessee Titans. Clowney hefur ekki riðið feitum hesti á varnarlínu Mike Vrabel síðan hann samdi til eins árs við Tennessee Titans. Hann var virkilega lengi sitjandi á leikmannamarkaðinum og virtist lengi vel eins og ekkert lið væri tilbúið að borga það sem umboðsmaður hans setti upp. Hann hefur ekki sýnt neitt til að réttlæta fjárhæðirnar sem hann þráir.
Patrick Peterson, CB – Arizona Cardinals. Peterson er leikmaður sem ég gæti séð reyna að sækja sér hring áður en það verður of seint. Patrick Peterson er enn ágætur bakvörður sem gæti lagt hönd á plóg hjá sigurstranglegu liði.
Marcus Williams, FS – New Orleans Saints. Marcus Williams átti stórfenglegt tímabil í fyrra en hefur farið hægt af stað í vetur. Hvort frammistaðan hafi byrjað að hiksta eftir að Vonn Bell yfirgaf félagið og Malcolm Jenkins mætti á svæðið er erfitt að segja en Williams er einn af bestu ungu miðvörðum deildarinnar. Þessi gæti fengið myndarlega borgað.
Matt Judon, EDGE – Baltimore Ravens. Fékk franchise taggið í fyrra. Líklega verður hann leitandi sér að nýju liði í mars.
Anthony Harris, FS – Minnesota Vikings. Var líka franchise taggaður í fyrra. Ólíklegt að Vikings semji aftur við hann.
Keanu Neal, SS – Atlanta Falcons. Atlanta Falcons eru í launaþakshelvíti og allar líkur eru á því að Neal söðli um sig í mars.
Richard Sherman, CB – San Francisco 49ers. Það verður áhugavert að fylgjast með gangi mála hjá Richard Sherman. Það styttist í að hann brenni út, maðurinn er orðinn 32 ára og er bakvörður. Tikk tokk.