Fyrir um ári síðan voru Arizona að sigla inn í nýliðavalið eftir að hafa endað tímabilið 3-13 en Steve Wilks, þáverandi þjálfari liðsins, var látinn taka pokann sinn undir lok desember mánaðar eftir eitt ár sem aðalþjálfari liðsins. Stuttu seinna réði Steve Keim, framkvæmdastjóri klúbbsins, fyrrverandi þjálfara Patrick Mahomes hjá Texas Tech, Kliff Kingsbury.
Árinu áður höfðu Arizona skipt á valréttum við Raiders til að færa sig frá 15. pikki nýliðavalsins upp í það tíunda til þess að velja leikstjórnandann Josh Rosen frá UCLA. Nokkrum mánuðum seinna sagði Kliff Kingsbury, þjálfari Texas Tech, í viðtali að hann hefði fylgst með Kyler Murray frá því á öðru ári í framhaldsskóla (high school) og að hann myndi taka hann með fyrsta valréttinum fengi hann tækifæri til. Rúmum tveimur mánuðum seinna er Kingsbury orðinn aðalþjálfari Arizona Cardinals sem eiga fyrsta valréttinn í 2019 nýliðvalinu.
Arizona völdu síðan auðvitað Kyler Murray með fyrsta valréttinum og degi seinna var Rosen skipt til Miami fyrir valrétt í annarri umferð það ár og fimmtu umferðar valrétt í ár.
Arizona voru neðstir eða neðarlega í nánast öllum tölfræði flokkum undir Steve Wilks en einu sigurleikirnir komu gegn Green Bay og San Francisco (x2). Josh Rosen spilaði 14 leiki og byrjaði 13 þeirra, kastaði 2278 jarda og átti 11 snertimarkssendingar gegn 14 stolnum sendingum.
Það ríkti mikil eftirvænting í NFL samfélaginu fyrir samstarfi Kingsbury og Murray en air raid afbrigðið af spread sókninni sem Kingsbury keyrir hefur notið mikilla vinsælda í háskólaboltanum en ekki náð fótfestu í NFL deildinni. Air raid sókn Kingsbury er sendingamiðaður sóknarleikur sem notar 3-4 grípara sem dreifa sér þvert á völlinn til að þvinga vörnina til að verja alla breidd vallarins sem og lengd hans. Leikstjórnandi tekur oftast við snöppum úr haglabyssunni en samkvæmt Warren Sharp tóku Arizona haglabyssusnöpp í 87% tilfella í vetur.
Það er oft talað um að spread sóknin noti sendinguna til að setja upp sendinguna en Arizona var samt fyrir miðju þegar skoðað er sendingahlutföll deildarinnar – með 58.3% gegn 41.6% hlaupahlutfalli. Það er því ekki hægt að segja að air raid sókn Kingsbury sé dæmigerð en hlaupaleikurinn hjá Cardinals var ótrúlega skemmtilegur og árangursríkur. Arizona hlupu 396 sinnum sem skilaði þeim 1990 jördum. Þegar skoðaðir eru jardar fyrir snertingu (YBC) voru lærisveinar Kingsbury númer þrjú í deildinni með 1289 jarda – aðeins á eftir Baltimore og San Francisco.
Arizona notuðu 10 personnel liða oftast eða í 31% tilfella. 10 personnel er leikmannaplan sem notar 1 hlaupara en engan innherja og sendingavarslan telur aðeins fimm leikmenn. Til að setja þessa tíðni 10 personnel í samhengi kom Seattle næst með 8% tíðni (89 skipti gegn 303 hjá Cardinals). Aðeins Minnesota (24%) notuðu sjaldnar hefðbundna leikmannaplanið 11 personnel (einn hlaupari og einn innherji) en það var standardinn í deildinni í vetur og stillti Kingsbury því plani upp í aðeins 37% tilfella.
Hlaupaleikur Arizona tókst á loft eftir að Steve Keim bætti hlauparanum Kenyan Drake við hóp liðsins en Drake spilaði 8 leiki með Cardinals, hljóp 643 jarda (1286 m.v. 16 leiki) og skoraði 8 snertimörk. Kyler Murray skilaði, eins og búist var við, rúmum 500 jördum í 94 tilraunum. Frammistaða Drake hefur gefið Keim og félögum tilefni til að skoða það alvarlega að framlengja við hlauparann sem náði ekki að framleiða hjá Miami fyrr á tímabilinu. Drake er 26 ára, samningslaus og metinn á um $5.5M árlega af Spotrac.
Cardinals eru auðvitað enn að súpa seiðið af seinasta hlaupara samning sem þeir gerðu en David Johnson á tvö ár og $26M eftir af þeim samningi og hefur ekki náð að viðhalda þeirri framleiðslu sem leiddi Arizona til að framlengja við hann.
2019 tímabilið hjá Arizona var mikil framför frá 2018 og mikil tilhlökkun í stuðningsmönnum liðsins fyrir næstu árum en stærsti sigurinn kom gegn Seattle í næst seinasta leik tímabilsins. Sigurhlutfallið var 5-10-1 og fjórða sætið í sterkri NFC West deildinni.