Nú þegar feitustu bitarnir hafa verið klófestir og helstu smáatriði samninga komin upp á borð er gaman að velta því fyrir sér hvaða riðlar hafa bætt sig mest og hverjir þeirra tekið afturförum. Það er hið eilífa lögmál sjávar og tungls sem stýrir flóði og fjöru og það sama á við í NFL-deildinni.
Nú hefur leikstjórnandinn beitti, Tom Brady, fært sig um set eftir tuttugu feit ár hjá New England Patriots. Öll stórveldi falla á endanum en við höfum séð hvernig vald San Antonio Spurs í NBA-deildinni hefur hægt og rólega dvínað eftir að Tim Duncan, Tony Parker og Manu Ginobili lögðu skóna á hilluna. Það er ekki ósennilegt að það sama sé í gangi í Boston, þó Föðurlandssinnar neiti a trúa því.
Til að bera saman riðlana ætla ég að skoða helstu viðskipti innan þeirra, þá leikmenn sem hafa komið og þá leikmenn sem hafa farið ásamt því að meta gildi þeirra til að skera úr um sigurvegara og tapara. Það er vert að taka fram að nokkur stór nöfn hafa skipt um lið innan sama riðils svo þeir leikmenn eru ekki teknir með inn í myndina.
Ég hafði ætlað mér að bíða þar til Jadeveon Clowney myndi semja við lið en lítið virðist vera að ganga á þeim bænum.
Þessir riðlar styrktu sig mest:
AFC West

Þrátt fyrir rólegheitin hjá Chiefs sátu hin liðin þrjú ekki auðum höndum í leikmannaglugganum. Helstu viðbætur AFC West riðilsins má sjá vinstra megin en helstu brotthvörf eru hægra megin. Eins og sést hér að ofan yfirgáfu mjög fáir öflugir leikmenn riðilinn. Leikstjórnandinn Philip Rivers er eini leikmaðurinn sem myndi teljast til alvöru spilara. Enn gæti svo farið að Cam Newton eða Jameis Winston endi í LA en hingað til hefur AFC West styrkt sig mest í NFL.
AFC North

Næst kemur AFC North riðillinn en þónokkuð margir byrjunarliðsmenn annarra liða skrifuðu undir hjá liðum í þessum riðli. Innkomandi leikmenn voru þó ekki jafn öflugir og í AFC West en þessi riðill var einnig fyrir meiri blóðtöku. Javon Hargrave mun ekki hrella leikstjórnanda AFC North lengur en hann heldur yfir til NFC East sem eru einmitt næstir á blaði.
NFC East

Eagles eiga þrjú öflugustu viðskiptin í NFC East en þeir fengu útvörðinn útsmogna Darius Slay sem toppar þennan lista nýrra leikmanna í Austur-NFC. Til móts kemur að Byron Jones fór frá Dallas austur til Miami en Cowboys menn urðu fyrir mikilli blóðtöku í þessum glugga en Robert Quinn samdi við Chicago til fimm ára. Hinsvegar tryggði Jerry Jones, eigandi Dallas, að Dak Prescott og Amari Cooper muni koma til með að spila áfram í NFC East (þó það verði í ekki nema ár til viðbótar)
Þessir riðlar veiktust mest:
NFC North

Úff. NFC North beið afgerandi afhroð í þessari samantekt en það átti sér stað einhver fjöldaflótti og ekki bættust við neinir snillingar. Eitt er víst að gæði riðilsins fóru útum (leikmanna)gluggann í mánuðinum og er riðillinn nú auðveldlega orðinn ómerkilegasti riðill NFL deildarinnar þrátt fyrir að tvö lið hafi komist í úrlistakeppnina í vetur. Packers halda velli en restin er í hrópandi frjálsfalli.
AFC South

Þrátt fyrir tvær risa viðbætur og aðra nokkuð góða (Joe Schobert til Jacksonville) tapaði AFC South miklum gæðum. DeAndre Hopkins, Calais Campbell, Jurrell Casey og A.J. Bouye var skipt burtu fyrir monopoly valrétti og öflugasti neftæklarinn (e. nose tackle), D.J. Reader, flúði Houston en óvíst er hvort betra sé að vera í Cincinnati. Foles hvarf á braut eftir korter í Flórída en hann getur skilið strandfötin og handklæðið eftir í Jacksonville og skipt þeim út fyrir skotheld vesti á fjölskylduna – velkominn til Chicago.
AFC East

Jets, Bills og Dolphins hljóta að hafa tekið heljarstökk afturábak (af litlu bretti, fyrir frægðina) þegar staðfest var að Tom Brady myndi ekki spila fyrir New England aftur. Tom Brady samdi við Tampa Bay og þó riðillinn hafi ekki misst mikið (og í raun bætt við sig tveimur hörku spilurum) þá vegur besti leikstjórnandi allra tíma helvíti þungt en sú vigt skilar þeim hingað. Robby Anderson er annar leikmaður sem kvaddi en hann er öflugur útherji sem mun passa vel inn í sóknarleik Carolina og Matt Rhule.