Biðin er nú loks á enda. Opnunarleikur NFL deildarinnar árið 2020 verður flautaður á laust eftir miðnætti þegar Kansas City Chiefs taka á móti Houston Texans.
Patrick Mahomes gegn Deshaun Watson; tveir nýríkir og framandi leikstjórnendur sem eru á skömmum tíma orðnir andlit deildarinnar.
Seinasta viðureign liðanna var í úrslitakeppninni á síðasta tímabili og er greypt í minni NFL aðdáenda. Eldfimur leikur þar sem Texans komust í 24-0 á augabragði. Svo var eins og Patrick Mahomes hafi verið settur í samband, því hann leikstýrði ævintýralegri endurkomu sem tryggði liðinu áframhaldandi þátttöku í úrslitakeppninni og sendi Watson og félaga heim á sama tíma.
Seinast þegar Kansas City opnuðu NFL deildina skoruðu þeir 42 stig í sigri gegn New England Patriots árið 2017. Þetta verður hinsvegar í fyrsta skiptið sem Houston Texans spila opnunarleik deildarinnar og leitast eftir flugstarti til að slá á efasemdaraddir kosmósins.
Í fyrra mættust Green Bay Packers og Chicago Bears í moldleiðinlegum leik sem endaði 10-3 fyrir Packers. Líklegra er að við fáum flugeldasýningu í þessari viðureign, þó ekki nema frá öðru liðinu.
Gleðilegan leikdag, öll sömul.