Spurningin í titli pistilsins gefur í skyn að einfalt svar fáist við því hvort staðsetning NFL félaga hafi það mikið vægi að það sé, með góðu móti, hægt að gefa norðlægum félögum forskot gegn suðlægari andstæðingum sínum í því langhlaupi sem Ofurskálartitillinn er.
NFL félög eru öll sköpuð mismunandi og á allskonar tímum. Houston Texans er nýjasta félag NFL landslagsins en liðið bættist við NFL deildina árið 2002. Baltimore Ravens komu inn árið 1996 og Carolina Panthers og Jacksonville Jaguars árinu á undan. Næst má nefna Tampa Bay Buccaners og Seattle Seahawks sem bættust við árið 1976. Það þarf því að skilgreina tímabil sem endurspeglar það mengi liða sem prýða NFL landslagið í dag til að skekkja ekki mælinguna og þar af leiðandi kippa fótunum undan tilgátunni.
Þar sem 18 árin sem eru frá innleiðingu Houston Texans eru heldur skammur tími ákvað ég að miða tímabilið við innkomu Panthers og Jaguars í deildina, árið 1995. Sá tímarammi telur 25 Ofurskálaleiki og gefur örlítið dýpra sýni.
Sem færir okkur að tilgátunni sjálfri. Titillinn segir ekki alla söguna. Ég fór nefnilega að spá hvort þeir leikstjórnendur og lið sem lifa, æfa og spila við kaldari aðstæður séu líklegri til þess að vinna Ofurskálina – en úrslitaleikurinn er spilaður um hávetur. Vissulega er Ofurskálarleikurinn nánast alltaf spilaður í suðrænu fylki eða innandyra á norðlægum velli en aðstæður í leiknum sjálfum var alls ekki mikilvægur þáttur í pælingunni.
Augu mín beindust helst að því hvort kuldinn skapi harðgerari leikmenn og lið sem verða verri aðstæðum vön og þrói með sér þykkari skráp. Þó svo að kuldi sé ekki ýkja stór þáttur í Ofurskálarleiknum sjálfum þarf að komast þangað og þar ætti að skapast gott forskot fyrir norðlægari liðin – á leiðinni í úrslitaleikinn. Miami Dolphins verða ekkert spenntir að keppa gegn Buffalo Bills í Buffalo um miðjan janúar en Bills liðið væri líklega ekkert á móti því að spila í Miami ylnum í úrslitakeppninni. Í þeim 13 heimaleikjum í úrslitakeppninni sem Buffalo Bills liðið hefur spilað í sögu sinni er liðið 10-3, þar á meðal með 2-0 úrslitaskrá gegn Miami Dolphins (Marino gegn Kelly).
Embed from Getty ImagesÞað er hægt að nefna heimavallaráhrif og aðdáendamismun, gæði þjálfarateyma og leikmanna sem mikilvægari þætti en hitastig en allir þessir þættir eru hluti af flókinni formúlu Ofurskálarsigurvegara og ég vildi með þessari einföldu rannsókn gefa aðstæðum árið í kring meiri gaum.
En er staðsetningu liða jafnt skipt niður á norð- og suðlægar slóðir í Bandaríkjunum? Nokkurn veginn, já.
Las Vegas Raiders og Los Angeles Rams heita Oakland Raiders og St. Louis Rams hér vegna þess að þar voru þessi lið staðsett, að mestu, innan tímarammans. Það eru fleiri lið staðsett á norðurslóðum Bandaríkjanna heldur en suðurslóðum og ef við drægjum línu í þvert yfir landakort af Bandaríkjumum þá fengjum við 19 norðlæg lið og 13 suðlæg lið en það er ekki það sem við viljum. En ef við flokkum eftir meðalhita?

Niðurstaðan er sú sama. 19 lið eru staðsett á kalda skalanum og 13 á þeim heita. 40% deildarinnar eru því suðræn félög og 60% hennar eru norðlæg. Það þarf því að gera ráð fyrir því strax í upphafi að fleiri Ofurskálartitlar hljóti að vera í eigu félaga á kalda skalanum.
Niðurstöður
Það er ákaflega áhugavert að skoða skiptingu Ofurskálartitla síðustu 25 ára en 88% þeirra, eða 22, eru í eigu norðlægari liða. Aðeins 3 þeirra eru í eigu suðrænu félaganna.

Þegar tímaramminn er spenntur aftur til upphafs Ofurskálarleiksins (tímabilið 1966) þá er munurinn ekki jafn dramatískur. Af þeim 53 titlum sem keppt hefur verið um frá 1966 eru 17 þeirra (32%) í eigu suðlægari liða og 36 (68%) í eigu norðlægari keppinauta þeirra. NFL deildin innihélt 15 lið (þar af 4 suðræn) tímabilið 1966 en ári seinna voru þau orðin 16 (þar af 5 suðræn) svo skipting suðlægra og norðlægra liða var ekki eins jöfn og hún er í dag.
Þrátt fyrir misskiptingu liða eftir verður- og hitafari þá er nokkuð ljóst að titlaskipting síðustu 25 ára bendir til þess að norðlægari liðin hafi heljarinnar forskot á suðlægari keppinauta sína. En þegar við lítum á heildarmyndina (alla 53 sigurvegarana) þá er ekki erfitt að sjá að titlaskiptingin (32% vs. 68%) er í takt við veður- og hitafarsskiptingu (38% vs. 62%) félaganna og því varla hægt að benda á kaldari og erfiðari aðstæður liða og leikmanna sé jafn óyfirstíganlegur þáttur og hann virðist vera undanfarin 25 ár.
Það er þó útlit fyrir að norðlægu liðin séu heilt yfir örlítið líklegri til þess að vinna Ofurskálina en við skulum ekki gleyma því að NFL samanstóð nánast alfarið af norðlægum liðum fyrstu áratugina svo þessu lið hafa haft forskot á þau suðlægu lið sem bættust svo hægt og rólega við NFL flóruna.
Það er hið minnsta komin pressa á suðlægu liðin að fara hlaða í titla því seinustu 25 ár líta alls ekki vel út fyrir ylviðrisliðin.