Nú fer hver að verða síðastur að opinbera einstaklingsverðlauna spánna sína. Opnunarleikur tímabilsins er afstaðinn og framundan er fyrsti fótbolta sunnudagur ársins. Hér fyrir neðan er spá Leikdags, mínus endurkomu leikmaður ársins en þau verðlaun hlýtur Alex Smith að fá.

Það hlýtur að koma að því að Russell Wilson vinni verðlaunin. Patrick Mahomes er einnig afskaplega líklegur til að taka þau í annað sinn en hver veit nema Dak Prescott eða Kyler Murray blandi sér í baráttuna.

Michael Thomas vann verðlaunin í fyrra en Christian McCaffrey hefði líklega tekið þau öll önnur ár en Thomas sló eftirminnilega gripmet deildarinnar sem tryggði honum sigurinn. Saquon Barkley mun eiga álíka tímabil og CMC átti í fyrra og það nægir til að landa sóknarverðlaununum.

T.J. Watt gerði tilkall til varnarverðlaunanna í fyrra með frábærri frammistöðu en Stephon Gilmore átti hreint út sagt sögulega sterkt tímabil, því miður fyrir Watt. T.J. bætir í í ár, tekur titilinn og fetar í fótspor stóra bróður.

Hvað þarf Kliff Kingsbury að gera til að vinna þjálfaraverðlaunin? Enda í öðru sæti vesturriðils NFC? Komast í úrslitakeppnina? Ég hugsa að ef Arizona Cardinals ná þriðja sæti riðilsins með 9 eða 10 sigra, þá mun Kingsbury gera tilkall til titilsins.

Það var mjög freistandi að velja Joe Burrow hérna en það var of auðvelt. Jerry Jeudy virðist vera tilbúinn til að rekja upp NFL varnir strax á sínu fyrsta tímabili. Courtland Sutton spilar mögulega ekki fyrsta leik tímabilsins en það gæti gefið Jeudy flugstart.

Það er í raun enginn augljós kandídati til að veita Chase Young samkeppni um þessi verðlaun því strákurinn er algjört skrímsli og það kæmi ekki á óvart ef hann næði að leika eftir frammistöðu Nick Bosa á seinasta tímabili.