Bótavalréttir (e. compensatory picks) eru tilraun deildarinnar til að bæta liðum það upp að missa góða, samningslausa leikmenn frá sér fyrir ekki neitt. Árið 1962 gekk útherjinn R.C. Owens til liðs við Baltimore Colts frá San Francisco 49ers eftir að samningur hans rann út hjá Niners. Vic Morabito, þáverandi eigandi félagsins, varð ekki par sáttur við þá niðurstöðu og útfrá þessu atviki fór deildin að leita leiða til að bæta liðum upp leikmannamissi. Frá 1920 var helsta baráttumál leikmannanna að fá meira frelsi á markaði því þeir vildu hafa eitthvað með það að segja hvar þeir spiluðu og hve lengi. Eigendurnir áttu liðin og þar af leiðandi deildina og þeir vildu alls ekki missa sínu bestu leikmenn því var regluverk deildarinnar sett þannig upp til að hefta félagsskipta möguleika leikmanna.
En í kjölfar Owens félagsskiptanna voru gerðar ýmsar breytingar, þar á meðal voru bótavalréttir kynntir til sögunnar. Ef liðin gætu ekki komist að einhversskonar bótasamkomulagi (valréttir, reiðufé eða leikmenn) þá kom það í hlut Pete Rozelle, þáverandi framkvæmdastjóra deildarinnar, að ákveða bæturnar.
Embed from Getty ImagesPaul Tagliabue (vinstri) og Pete Rozelle (hægri) fyrir Ofurskálarviðureign New York Giants og Buffalo Bills árið 1991.
Frá 1963 til 1976 var “Rozelle reglan” svokallaða í gildi en árið 1977 setti deildin upp staðlað regluverk sem ákvarðaði bætur fyrir lið sem misstu góða leikmenn sína frá sér fyrir ekki neitt. Bæturnar urðu nú aðeins í formi valrétta en gæði þeirra fór eftir reynslu leikmannanna og nýju samningsupphæðarinnar.
Árið 1997 var fyrsta árið sem bótavalréttirnir gátu í besta falli verið 3. umferðar valréttir (bættust aftan á 3. umferðina) en fram að því gátu þeir allt eins verið í 1. umferð nýlivalsins. Fyrirkomulagið eins og við þekkjum það í dag hefur því verið í gildi frá 1997 en formúlan sem ákvarðar bótavalréttina fyrir liðin eru háleynileg og hefur því aldrei verið gerð opinber. Það er þó ekkert svakalega erfitt að ráða í hana og menn eru svona nánast með það á hreinu hvernig þessi aðgerð fer fram.
Frá 1997 hafa Baltimore Ravens (57), New England Patriots (44) og Green Bay Packers (43) verið öflugustu bótavalrétta sérfræðingarnir en bótavalréttaleikurinn snýst um að sækja fáa (enga) verðmæta samningslausa leikmenn á frjálsa leikmannamarkaðinum og leyfa þínum góðum (ekki öllum auðvitað) samningslausu leikmönnum að labba og fá spikaða samninga annarsstaðar.
Hinum megin við borðið sitja New Orleans Saints (12), Cleveland Browns (12) og New York Jets (13). Saints höfðu ekki fengið bótavalrétt síðan 2011 áður en þeir fengu úthlutað þrjá valrétti í ár, tvo í 3. umferð og einn í sjöttu.
Bestu bótavalréttirnir síðasta áratugar
Frá 2010 hefur þónokkur fjöldi leikmanna komið inn í deildina með ofangreindum bótavalréttum. Flestir þessara leikmanna hefðu verið valdir inn í deildina án bótavalrétta fyrirbærisins en hér eru leikmenn sem hafa þjónað sem fínustu byrjunarliðsmenn eða rulluspilarar í deildinni frá nýliðavalsdegi sínum.
- Marshall Newhouse – Green Bay Packers (2010)
- Pernell McPhee – Baltimore Ravens (2011)
- Mike Daniels – Green Bay Packers (2012)
- Kyle Juszczyk – Baltimore Ravens (2013)
- Rick Wagner – Baltimore Ravens (2013)
- Ryan Jensen – Baltimore Ravens (2013)
- Denzelle Good – Indianapolis Colts (2015)
- Graham Glasgow – Detroit Lions (2016)
- Blake Martinez Green Bay Packers (2016)
- Jonnu Smith – Tennessee Titans (2017)
- Trey Hendrickson – New Orleans Saints (2017)
- James Connor – Pittsburgh Steelers (2017)
- Darius Slayton – New York Giants (2019)
Það kemur kannski ekki á óvart að megnið af þessum leikmönnum hér að ofan eru valdir af þeim liðum sem hafa fengið flesta bótavalrétti frá 1997: Baltimore Ravens og Green Bay Packers. Það er hinsvegar áhugavert að sjá að enginn leikmannanna var valinn af New England Patriots.
Það eru þrír bótavalréttir sem standa uppúr sem algjörlega frábærir. Tveir þeirra eru úr 2016 nýliðavalinu og sá seinasti úr árinu eftir. Það voru Dallas Cowboys, Denver Broncos og Green Bay Packers (en ekki hverjir?) sem áttu þá. Þetta eru leikmennirnir sem prýða forsíðumyndina hér að ofan:
- Leikstjórnandinn Dak Prescott
- Miðvörðurinn Justin Simmons
- Hlauparinn Aaron Jones
Dak Prescott var tekinn í 4. umferð nýliðavalsins árið 2016 og hefur verið byrjunarliðsleikstjórnandi Dallas Cowboys frá fyrsta degi. Úrslitaskrá liðsins með Prescott undir senter er 42-27 en hann er með 66% sendingaheppnun á ferlinum, 106 snertimarkssendingar, 40 tapaðar og 7,7 jarda pr kasttilraun. Hann skrifaði nýverið undir risasamning við félagið sem hljóðaði upp á 4 ár og 160 milljónir dollara.
Justin Simmons var tekinn í 3. umferð sama nýliðavals frá Boston College. Simmons hefur verið einn besti frjálsi miðvörður deildarinnar síðastliðin tvö tímabil og var á meðal annars kosinn í Pro Bowl leikinn í fyrra. Hann hefur ekki misst af varnarsnappi í þrjú ár og var nýverið franchise taggaður annað árið í röð og skrifaði síðan undir 4-ára $61M samning sem gerir hann að launahæsta miðverði deildarinnar.
Aaron Jones var tekinn í 5. umferð nýliðavalsins árið 2017 en hann glímdi við meiðsli fyrstu tvö tímabilin sín í deildinni og deildust sóknarsnöppin á milli hans Jamaal Williams og Ty Montgomery fyrstu árin. Árið 2019 sprakk maðurinn síðan gjörsamlega út, eignaði sér stöðuna og skilaði 1558 blönduðum jördum og leiddi deildina (ásamt C. McCaffrey) með 19 snertimörk. Jones fékk fjögurra ára framlengingu fyrir stuttu að verðmæti 48 milljón bandaríkjadala svo hlauparinn knái verður a.m.k. eitthvað áfram í Green Bay.