Nýliðaval NFL er einn af skemmtilegustu viðburðum ársins í lífi hvers NFL áhugamanns. Þar mætast vonir og vonbrigði, hið fyrirsjáanlega og hið óvænta, góðar ákvarðanir og slæmar ákvarðanir. Valið er flugeldasýning leikmanna og félagsliða, framkvæmdastjóra og eigenda, blaðamanna og sjónvarpsmanna.
Nýliðaval NFL hefur verið haldið slitlaust síðan árið 1936 en til að setja það í samhengi þá byrjaði spænska borgarastyrjöldin sama ár. Hitler, Mussolini og Japanir mynduðu bandalag og BBC sýndi fyrstu beinu sjónvarpsútsendinguna frá London.
Klekkjum er beitt, reykský skapast og spennan byggist. Mikið er í húfi því ef þú nærð að strengja saman þrjú góð ár af nýliðavali ertu að öllum líkindum kominn með hörku hóp í hendurnar. Það er alls ekki sjálfgefið að velja leikmenn sem koma til með að skila árangri. Einn besti útherji áratugarins, Antonio Brown, var valinn númer 195 árið 2010. Richard Sherman, besti cornerback seinustu 10 ára var tekinn í 5. umferð nýliðavalsins 2011. Þó svo að þú veljir í topp 10 ár eftir ár, þá er alls ekki víst að þú vinnir í lottóinu.
Það er það sem gerir nýliðaval NFL svo ótrúlega skemmtilegt. Liðið þitt gæti verið að velja næstu stórstjörnu NFL, með hverju einasta pikki.
Ég hef lagt á mig mikla vinnu í að safna upplýsingum um nýafstaðinn áratug af nýliðvali NFL deildarinnar. Upphaflega byrjaði þetta sem einföld spurning: Hvaða lið eru best að drafta?
Eftir það fóru pælingarnar að hrannast upp og lá beinast við að taka saman áratuginn 2010-2019 til að tryggja nægilega marktæka úrtaksstærð. Þegar uppi var staðið voru það sjö spurningar sem ég vildi svara:
- Hvaða lið hafa verið best að drafta?
- Hvaða lið hafa verið verst að drafta?
- Hvaða lið hafa valið oftast/sjaldnast?
- Hve margir leikmenn í hverri leikstöðu hafa verið valdir?
- Í hvaða umferðum hafa þessar leikstöður helst verið valdar?
- Hvaða lið hafa oftast “hitt” með fyrsta valrétti?
- Hvaða lið hafa oftast “hitt” með lægri valréttum (4-7)?
Formúlan
Leikmenn sem valdir voru í lok áratugarins vigta ekki jafnmikið og þeir leikmenn sem voru valdir snemma á áratugnum, en þeir hafa auðvitað einn hlut framyfir nýjustu leikmennina: framleiðslu yfir tíma. Það er erfitt að átta sig á því hve góður Patrick Mahomes mun verða en hann gæti allt eins meiðst illa á næsta tímabili og aldrei spilað fótbolta aftur.
Ég verðmat sex þætti sem ákvörðuðu hvaða leikmenn teldust sem vel heppnaðir valréttir. Flest stig fengust fyrir efsta þáttinn og fæst fyrir neðsta:
- Fjöldi valdra leikmanna sem hafa hlotið MVP, OPOY eða DPOY heiðurinn
- Fjöldi valdra leikmanna sem hafa hlotið All Pro nafnbótina
- Samtals All Pro tímabil leikmanna fyrir draftlið sitt
- Fjöldi valdra leikmanna sem hafa verið valdir í Pro-Bowl
- Samtals Pro-Bowl tímabil leikmanna fyrir draftlið sitt
- Samtals fjöldi leiktímabila þessara leikmanna (AP, Pro-Bowl) fyrir draftlið sitt
Hvaða lið hafa verið best að drafta?

Það voru fjögur lið sem báru höfuð og herðar yfir restina af NFL deildinni þegar kom að því að velja leikmenn seinasta áratuginn. Cowboys, Chiefs, Steelers og Seahawks. Þrátt fyrir að tróna á toppi listans hafa Cowboys ekki komist uppúr deildarumferð úrslitakeppninnar en þeir hafa komist þangað þrisvar sinnum á síðustu 10 árum. Chiefs og Seahawks hafa bæði orðið meistarar en Steelers á næstbesta sigurhlutfall (94-39-1) deildarkeppninnar síðan 2010.
Hvaða lið hafa verið verst að drafta?

Það kemur kannski ekki mikið á óvart að Jacksonville Jaguars og New York Jets steiniliggi á botni þessa lista en það er áhugavert að hvorugt New York liðanna hafa átt góðu gengi að fagna í nýliðalottóinu. Raiders flúðu Oakland og eru nú opinberlega orðnir Las Vegas Raiders en spurningin er hvort þeir nái að veðja á réttu hestana í næstu dröftum. New England Patriots koma á óvart og sitja í 22. sæti listans en þeir hafa komist í úrslitakeppnina öll 10 árin og unnið Ofurskálina þrisvar sinnum.
Hvaða lið hafa valið oftast/sjaldnast?

Meðal valrétta fjöldi á lið per ár voru 80,5 en það er fróðlegt að sjá hve árangursríkir Saints-menn hafa verið í draftinu miðað við að eiga fæst bingóspjöld í Vinabæ. Reiknað með í þessar tölur eru að sjálfsögðu öll compensatory draft pick sem og valréttir notaðir í supplementary NFL draftinu.
Hvaða áhrif hefur fjöldi tilrauna á stigagjöfina fyrir ofan? Engin. En hér fyrir neðan er skilti sem tekur það með inn í dæmið og lið rönkuð eftir PPP (points per pick, sem er hugtak sem undirritaður coinaði snemma í morgun). PPP, eða stig per valrétt, er auðvitað bara heildarstigafjöldi liðanna deildur niður á fjölda valrétta og þá fáum við út annað svar við spurningunni: Hvaða lið eru best að drafta?
PPP

Ríkjandi Ofurskálarmeistarar Kansas City Chiefs tróna á toppinum og hástökkvarar listans eru Bears sem hoppuðu upp um 10 sæti. Chargers koma næstir með jöö sæta bætingu.

Hérna sjáum við að 49ers eiga mesta fallið en ég vil benda á að þessi listi er á engan hátt fullkominn en er þó skemmtileg pæling og eitt er víst: Jaguars eru lélegastir að velja nýliða og í harðri samkeppni við þá eru Þoturnar frá Nýju-Jórvík.
Hve margir leikmenn í hverri leikstöðu hafa verið valdir?
Alls hafa verið valdir 2576 leikmenn á seinasta áratug inn í NFL deildina. Defensive backs skipa 20% valdra leikmanna á því tímabili en einhverra hluta vegna er ekki nægilega mikil áhersla á að flokka defensive backs í cornerback og safeties þannig hérna eru þeir allir undir defensive backs. Nose tackles og defensive tackles eru hér að neðan einnig undir sama DT-hattinum.
Þess má geta að 18 sparkarar, 17 punterar og 23 fullbacks hafa verið valdir í nýliðavalinu á seinustu 10 árum en það tók því eiginlega ekki að setja það inn á ritið hér að neðan.

Í hvaða umferðum hafa þessar leikstöður helst verið valdar?
„Þú draftar ekki tight end í topp 10“
„Aldrei taka running back í fyrstu umferð“
Margir segja margt um sumt en hvað er rétt? Hvað segja seinustu 10 ár okkur um hegðun þeirra sem taka ákvarðanir fyrir klúbbana á draftdegi? Hvernig forgangsraða General Managerar leikstöðunum? Við vitum að oftar en ekki er leikstjórnendur teknir ofarlega í fyrstu umferð en í hvaða umferð eru flestir guards eða centers valdir? Súluritið að ofan gaf okkur góða mynd af því hversu margir leikmenn í leikstöðunum hafa verið valdir, en nú skoðum við spjöld sem sýna hvenær vinsælt er að drafta leikstöðurnar.

Af þeim 119 leikstjórnendum sem hafa verið valdir voru 25.2% þeirra teknir í fyrstu umferð. Það var engin leikstaða jafn vinsæl og QBs í fyrstu umferð.

Það var vinsælla að velja útherja og hlaupara í seinni hluta nýliðavala en aðeins tíu hlauparar heyrðu nafn sitt kallað í fyrstu umferðum seinasta áratugs. Saquon Barkley var tekinn númer tvö árið 2018, Trent Richardson var valinn þriðji árið 2012 og Leonard Fournette fór fjórði árið 2017.

Sóknartæklarar eru vinsæl vara í fyrstu umferðunum og fara efnilegir vinstri tæklarar alltaf mjög snemma. Sjaldgæfasta ákvörðun 2010-2019 var að velja innherja í fyrstu umferð. 6,1% valdra innherja voru teknir í fyrstu umferð en tveir fóru í fyrstu umferð síðasta nýliðavals – T.J. Hockenson númer 8 til Detroit Lions og Noah Fant númer 20 til Denver Broncos.

Hinar stöðurnar á sóknarlínunni hafa hingað til haft minni forgang en tæklararnir en verðirnir eru helvíti sterkir í umferðum 3-6.

Bestu varnarlínuleikmenn háskólaboltans fara snemma og í kippum en síðan róast þetta aðeins og í enda draftanna kaupa flestir framkvæmdastjórar lottómiðana sína.

Defensive backs stöðurnar eru jafnastar enda spannar heitið í raun 4-5 leikstöður. Þeir eru valdir jafnt og þétt í hverju drafti en linebackers fara helst í umferðum 4-7.
Hvaða lið hafa oftast “hitt” með fyrsta valrétti?
Dallas Cowboys hafa hitt sjö sinnum á tíu árum. Dez Bryant, Tyron Smith, Travis Frederick, Zack Martin, Byron Jones, Ezekiel Elliott og Leighton Vander Esch. Árin sem ekki gekk að drafta Pro-Bowler eða All Pro leikmann voru 2012, 2017 og 2019.
Á eftir Cowboys koma Chiefs, Vikings og Chargers með sex fyrstu umferðar valrétti sem hafa hitt í mark.
Hjá Chiefs voru það Eric Berry, Dontari Poe, Eric Fisher, Dee Ford, Marcus Peters og Patrick Mahomes.
Hjá Vikings: Matt Kalil, Harrison Smith, Xavier Rhodes, Cordarrelle Patterson, Anthony Barr og Teddy Bridgewater.
Hjá Chargers: Ryan Mathews, Melvin Ingram, Jason Verrett, Melvin Gordon, Joey Bosa og Derwin James.
Já, Jason Verrett er á þessum lista. Kauði hefur náð að spila nánast eitt heilt tímabil og var þá valinn í Pro-Bowl.
Hvaða lið hafa oftast “hitt” með lægri valréttum (4-7)?
Seattle Seahawks hafa hitt fjórum sinnum með sínum lægri pikkum. Kam Chancellor, K.J. Wright, Richard Sherman og Michael Dickson (punter) voru þau pikk.
Chicago Bears hafa einnig hitt fjórum sinnum en þeirra leikmenn eru Charles Leno, Jordan Howard, Eddie Jackson og Tarik Cohen.
Að lokum
Af liðunum í topp 10 er aðeins eitt lið (SD/LA Rams) sem átti ekki jákvætt sigurhlutfall á seinasta áratug en 6 af liðunum 10 komust í Ofurskálarleikinn en aðeins tvö þeirra urðu meistarar (Seattle ’13 og Chiefs ’19). Patriots sitja á langbesta deildarkeppnis sigurhlutfalli seinustu 10 ára en þeim tókst ekki að skora mjög hátt á draft listanum. Þrátt fyrir það völdu þeir nokkra flotta leikmenn sem ekki reiknuðust með í stigagjöfinni: Jimmy G, Malcom Brown, Trey Flowers, Shaq Mason og Joe Thuney.
Þetta er alls ekki fullkomin leið til að átta sig á hvaða lið eru búin að drafta best á nýliðnum áratug en þetta er heldur ekki tilraun til þess að búa til fullkomna formúlu til að ákvarða það. Þessi aðferð gefur hinsvegar ágætis mynd af raunveruleikanum en auðvitað skipta leikmenn sem hafa ekki, einhverra hluta vegna, verið kosnir inn í Pro-Bowl eða All Pro liðin líka máli þegar kemur að því að vega og meta þessa hluti. Það er bara ekkert einfalt við að verðmeta þá leikmenn og því var bara best að sleppa þeim alfarið.