Það er yfirleitt talað um að sóknarkerfi teljist árangursríkt ef það nái:
- 45% af nauðsynlegum jördum á fyrstu tilraun
- 60% af nauðsynlegum jördum á annarri tilraun
- endurnýjun á þriðju eða fjórðu tilraun
Í fyrra (vikur 1-17) voru keyrð 1,701 sóknarkerfi á þriðju tilraun og stutt (1-3 jardar) og 61% þeirra náðu endurnýjun samkvæmt Sharp Football Stats. Af 769 hlaupatilraunum voru 518, eða 67%, þeirra árangursríkar. Af 932 sendingatilraunum voru 516, eða 55%, þeirra árangursríkar. Hlaupatilraunir hafa, frá 2016 (lengra ná ekki upplýsingarnar), verið mikið líklegri til árangurs heldur en sendingin í þessum aðstæðum en samt heldur meirihluti liða áfram að treysta meira á sendingakerfi á þessum tímapunktum.
Þrátt fyrir að meðal sendingatilraunin á seinasta tímabili hafi skilað 6,3 jördum gegn 4,3 hlaupajördum að meðaltali, virðast hlaupakerfin á þriðju tilraun og stutt enn lifa góðu lífi þrátt fyrir minni notkun. En það er kannski einmitt vegna þess að lið reyna töluvert fleiri sendingakerfi að varnir eru farnar að búast við þeim sem skilur þær eftir berskjaldaðar gegn hlaupinu.
Hlaupakerfi
Það voru sex lið sem keyrðu fleiri hlaupakerfi á þriðju tilraun og stutt heldur en sendingakerfi. Í röð eftir fjölda hlaupatilrauna:
- Baltimore Ravens: 36 kerfi, 25 árangursrík: 69%
- Seattle Seahawks: 35 kerfi, 23 árangursrík: 66%
- New England Patriots: 30 kerfi, 21 árangursrík: 70%
- Indianapolis Colts: 29 kerfi, 22 árangursríkt: 76%
- Los Angeles Chargers: 28 kerfi, 18 árangursrík: 64%
- New Orleans Saints: 27 kerfi, 18 árangursrík: 67%
- San Francisco 49ers: 27 kerfi, 18 árangursrík: 67%
Það kemur kannski ekki mikið á óvart að Tennessee Titans með Derrick Henry fremstan í flokki hafi leitt öll lið í árangri hlaupakerfa á þriðju tilraun og stutt. Titans og Henry keyrðu 18 hlaupakerfi á seinasta keppnistímabili og náðu endurnýjun 15 sinnum sem reiknast sem 83% árangur og skildi engan undra. Derrick Henry, sem er byggður eins og varnarendi, sótti 73 endurnýjanir í fyrra en aðeins Chris Carson (75) og Ezekiel Elliott (78) sóttu fleiri endurnýjanir fyrir lið sín.
Næst komu lið Dallas Cowboys, Miami Dolphins og Arizona Cardinals með 79% árangurshlutfall.
Sendingakerfi
Ekkert lið reyndi fleiri sendingakerfi á þriðju tilraun og stutt en Oakland (Las Vegas) Raiders og Derek Carr. 41 sendingatilraun, 23 heppnaðar og 56% árangur. Næst komu lið Houston Texans (40) og Denver Broncos (40).
Skilvirkustu liðin voru:
- Buffalo Bills: 17 kerfi, 12 heppnuð: 71% árangur
- Baltimore Ravens: 13 kerfi, 9 heppnuð: 69% árangur
- Philadelphia Eagles: 38 kerfi, 26 heppnuð: 68% árangur
- New Orleans Saints: 26 kerfi, 17 heppnuð: 65% árangur
- Atlanta Falcons: 26 kerfi, 17 heppnuð: 65% árangur
Það kemur á óvart að Buffalo Bills hafi verið skilvirkasta liðið í fyrra þegar kom að því að senda boltann á þriðju tilraun og stutt. Josh Allen er allt annað en nákvæmur kastari en hlaupa ógnin sem stafar af honum opnar fyrir sendinguna og Brian Daboll virðist hafa náð sem mestu út úr því.
Samanlagður árangur
Þegar skoðað er samanlagðan árangur liða í fyrra á þriðju tilraun og stutt sést að 18 af 32 liðum eru undir meðaltali deildarinnar: 61% árangur. Aðeins tvö lið toppa 70% árangur og tvö lið sitja undir 50% árangri.
Embed from Getty ImagesSkilvirkustu liðin:
- Philadelphia Eagles: 71% árangur á þriðju tilraun og stutt
- Atlanta Falcons: 70% árangur
- Baltimore Ravens: 69% árangur
- Indianapolis Colts: 69% árangur
Óskilvirkustu liðin:
- Denver Broncos: 54% árangur
- Chicago Bears: 51% árangur
- Washington Football Team: 49% árangur
- Pittsburgh Steelers: 44% árangur
Pittsburgh Steelers lentu 43 sinnum á þriðju tilraun og stutt en náðu einungis 19 sinnum að sækja sér endurnýjun, hvort sem það var með hlaupi eða sendingu. Það eru þó góðar líkur á að Pittsburgh nái að klifra töfluna með Ben Roethlisberger í bílstjórasætinu en það er ljóst að hann þarf nokkra leiki til að hrista af sér ryðið. Árangur Steelers á þriðju tilraun og stutt er afrakstur þeirra Mason Rudolph og Devlin Hodges sem voru gjörsamlega skelfilegir í fyrra en hlaupararnir James Conner og Jaylen Samuels náðu heldur ekki að gera sér mat úr aðstæðum.