Yfirleitt er talað um góða leikstjórnendur sem andlit félagsliða en bestu dæmin eru Tom Brady hjá New England Patriots, Drew Brees hjá New Oreans Saints, Dan Marino hjá Miami Dolphins og þar fram eftir götunum. Hinsvegar má nefna það að Von Miller hjá Denver Broncos og Aaron Donald hjá Los Angeles Rams hafa verið andlit varnarliðs sinna liða í allonokkur ár svo varnarmenn geta líka eignað sér svona yfirgripsmiklar vinsældir. Í þessari seríu langar mig til þess að draga fram ný andlit NFL liða, báðum megin boltans. Ég hafði hugsað mér að þessir leikmenn gætu orðið andlit liða sinna næsta áratuginn svo til gamans útilokaði ég alla 25 ára og eldri.
Andlit AFC North liðanna næstu 10 árin!
Hérna reikna ég með því að leikmenn sem valdir eru sóknar- og varnarandlit liðanna verði nánast út ferilinn hjá sama liðinu. Allar leikstöður koma til greina í valinu en markmiðið er að draga fram unga og efnilega leikmenn sem gætu þjónað hlutverki sendiherra liðanna um ókomin ár.
Chicago Bears

Frá Decatur Staleys til Chicago Staleys til Chicago Bears, státar félagið af 100 ára sögu. Bears er eitt af upphaflegu fótboltaliðunum og naut mikillar velgengni á öðrum áratug tilvistar félagsins. Sóknarmegin var hlauparinn Walter Payton aðalmaður liðsins í 14 ár en á undan honum var leikstjórnandinn Sid Luckman andlit Chicago Bears sóknarinnar. Í dag er virkilega fátt um fína drætti sóknarlega hjá Chicago liðinu og stóð valið á milli nýliðans Darnell Mooney og annars árs hlauparans David Montgomery. Darnell Mooney hefur sýnt fínar rispur það sem af er vetri og möguleiki er á því að þarna sé framtíðarútherji fundinn. Hann fær því útnefninguna sóknarandlit Chicago Bears næstu 10 árin.
Varnarlega má nefna Bill George sem andlit varnar Bears frá 1952, við honum tók Dick Butkus, síðar Mike Singletary svo Brian Urlacher og nú Khalil Mack. Chicago Bears hafa undanfarin ár verið með eina af bestu vörnum NFL deildarinnar og komu helst tveir leikmenn til greina sem andlit varnar Chicago Bears næstu 10 árin. Það eru línuvörðurinn Roquan Smith og bakvörðurinn og nýliðinn Jaylon Johnson. Ég valdi Jaylon Johnson til að taka við keflinu af Khalil Mack þar sem bakvarðarstaðan er yfirleitt talin mikilvægari heldur en línuvarðarstaðan.
Detroit Lions

Sigursælasti leikstjórnandi Detroit Lions frá upphafi er Bobby Layne. Layne vann þrjá meistaratitla í fjórum tilraunum á þeim sjö árum sem hann spilaði fyrir Lions. Rúmum þrjátíu árum síðar sjáum við hlaupagoðsögnina Barry Sanders taka við keflinu sem andlit félagsins. Tíu árum eftir tíma Sanders kemur Calvin “Megatron” Johnson fram á sjónarsviðið og á svipuðum tíma tekur Matthew nokkur Stafford leikstjórnandastöðuna föstum tökum og hefur haldið þeim allt fram til þessa dags. Nú eru tveir ungir og efnilegir sóknarleikmenn í röðum Detroit Lions sem gætu tekið við keflinu. Það eru þeir T.J. Hockenson og D’Andre Swift. Ég ætla að útnefna innherjann T.J. Hockenson sóknarandlit Detroit Lions næstu 10 árin. Frábær innherji sem á bara eftir að verða betri og mikilvægari liðinu.
Jeff Okudah var valinn þriðji í seinasta nýliðavali af Detroit Lions og vonar félagið að hann nái að feta í fótspor annarra frábærra bakvarða sem spiluðu með félaginu frá 1959-1977 – þeirra Dick LeBeau og Lem Barney. Detroit Lions goðsögnin og línuvörðurinn Joe Schmidt spilaði í hjarta Lions varnarinnar frá 1953-1965 og var 10x valinn í Pro Bowl, 8x All-Pro og tvöfaldur NFL meistari. Á seinni tímum var Ndamukong Suh aðaltröllið á varnarlínu Lions en hann var valinn 4x í Pro Bowl og 3x valinn All-Pro á þeim fimm árum sem hann spilaði fyrir félagið. Jeff Okudah fær því titilinn varnarandlit Detroit Lions næstu 10 árin.
Green Bay Packers

Saga Green Bay Packers nær aftur til ársins 1921 en þetta sögufræga félag hefur undanfarið ekki þurft að hafa miklar áhyggjur af sóknarleiðtogum. Aðdáendur klúbbsins horfðu seinast á liðið sitt án Brett Favre eða Aaron Rodgers árið 1991. Fyrir það leiddu Bart Starr og Arnie Herber liðið til meistaratitla. Það er hinsvegar mikil óvissa um framhaldið hjá Packers. Rodgers spilar ekki að eilífu en það eru nokkrir ungir leikmenn sem gætu orðið framtíðar andlit Green Bay. Þrátt fyrir að hafa ekki spilað eitt snapp á sínu fyrsta ári í deildinni, valdi ég Jordan Love til að vera sóknarandlit Packers næstu 10 árin.
Það væri nánast hægt að nefna alla vörn Packers á sjöunda áratug seinustu aldar en þar voru menn á borð við Henry Jordan, Ray Nitschke, Willie Davis, Herb Adderley og Willie Wood. Allir rötuðu þeir í frægðahöll NFL. Ef við færum okkur nær aldamótunum sjáum við stólpa eins og LeRoy Butler og Reggie White sem spilaði sex tímabil með Packers á seinni hluta ferilsins. Charles Woodson, bakvörðurinn öflugi, spilaði sjö af sínum átján tímabilum með Green Bay (06-12) og var hreint út sagt magnaður. Woodson stal 38 sendingum á þeim tíma, skoraði 9 snertimörk og varðist 99 sendingum. Jaire Alexander, bakvörður Packers, fær nú tækifæri á að feta í fótspor Woodson sem andlit varnar Green Bay Packers næstu 10 árin.
Minnesota Vikings

Vikings eiga tvo frábæra sóknarlínumenn í frægðahöll NFL, þá Mick Tingelhoff og Randall McDaniel. Hvort þeir hafi talist andlit sóknarinnar á sínum tíma er ansi ólíklegt þar sem leikstjórnandinn Fran Tarkenton spilaði með Tingelhoff og útherjinn Chris Carter með McDaniel. Á seinni tímum hafa Daunte Culpepper, Randy Moss og Adrian Peterson verið sendiherrar félagsins útá við en nú gæti ofurstjarna verið fædd í röðum Minnesota. Justin Jefferson hefur alla burði til að taka yfir sókn félagsins og verða andlit hennar næstu 10 árin.
Danielle Hunter er núverandi andlit varnar Minnesota Vikings en hann er aðeins of gamall fyrir þessa æfingu. Vörn Vikings hefur undanfarið verið leidd áfram af Everson Griffen og Jared Allen sem kom frá Chiefs árið 2008. Allen spilaði sex tímabil með Vikings og var valinn í Pro Bowl 4x og All-Pro 3x. Ástæður þess má léttilega rekja til þeirrar staðreyndar að Allen átti 85,5 leikstjórnenda fellur á þeim tíma. Það er því miður fyrir Minnesota engin augljós kandídat varnarmegin til að hrifsa til sín athygli og brjótast fram á sjónarsviðið næstu tíu árin. Bakvörðurinn Jeff Gladney gæti þó orðið sá leikmaður en hann hefur fengið að spila mikið á sínu fyrsta tímabili í deildinni.