Yfirleitt er talað um góða leikstjórnendur sem andlit félagsliða en bestu dæmin eru Tom Brady hjá New England Patriots, Drew Brees hjá New Oreans Saints, Dan Marino hjá Miami Dolphins og þar fram eftir götunum. Hinsvegar má nefna það að Von Miller hjá Denver Broncos og Aaron Donald hjá Los Angeles Rams hafa verið andlit varnarliðs sinna liða í allonokkur ár svo varnarmenn geta líka eignað sér svona yfirgripsmiklar vinsældir. Í þessari seríu langar mig til þess að draga fram ný andlit NFL liða, báðum megin boltans. Ég hafði hugsað mér að þessir leikmenn gætu orðið andlit liða sinna næsta áratuginn svo til gamans útilokaði ég alla 25 ára og eldri.
Hérna reikna ég með því að leikmenn sem valdir eru sóknar- og varnarandlit liðanna verði nánast út ferilinn hjá sama liðinu. Allar leikstöður koma til greina í valinu en markmiðið er að draga fram unga og efnilega leikmenn sem gætu þjónað hlutverki sendiherra liðanna um ókomin ár.
Baltimore Ravens

Saga félagsins nær aðeins aftur til 1996 þegar félagið bættist við NFL landslagið og sóknarlega hefur Joe Flacco verið andlit Baltimore Ravens. Varnarmegin við boltann þekkjum við best Ray Lewis, Terrell Suggs og Ed Reed sem allir voru hluti af gríðarlega sterkri vörn. Í dag er öldin önnur. Liðið hefur fjarlægt Joe Flacco af svæðinu og skipt inná í hans stað Lamar Jackson. Jackson er allt það sem að Flacco var ekki: hreyfanlegur leikstjórnandi með svala orku. Jackson verður 24 ára í janúar og augljóslega vel ég hann sem sóknarandlit Ravens næstu 10 árin.
Varnarmegin við boltann er valið ekki svo augljóst. Það eru aðallega tveir leikmenn sem koma til greina þar en það eru bakvörðurinn Marlon Humphrey og nýliðinn Patrick Queen. Humphrey er á sínu fjórða ári með liðinu og hefur spilað vel frá sínu nýliðatímabili en hann er rétt rúmlega 24 ára gamall. Ég ætla hinsvegar að gefa Patrick Queen nafnbótina varnarandlit Ravens næstu 10 árin vegna þess hve ungur (21) og efnilegur hann er.
Cincinnati Bengals

Tígrísdýrin frá Cincinnati, Ohio hafa verið meðlimir NFL deildarinnar frá árinu 1968. Andlit félagsins hafa verið allnokkur í gegnum árin en leikstjórnendurnir Ken Anderson og Boomer Esiason voru kannski skærustu stjörnurnar sóknarlega. Tæklarinn Anthony Munoz spilaði með báðum þessum leikstjórnendum og hélt þeim uppréttum. Einn sá allra besti til að spila stöðuna. Í seinni tíð höfum við séð útherjann skrautlega, Chad Johnson, fá heilmikla athygli en það er ekkert launungamál að andlit Bengals sóknarmegin næstu 10 árin er leikstjórnandinn Joe Burrow. Fyrsta pikkið í seinasta nýliðavali verður 24 ára gamall í byrjun desember og stenst því kröfur.
Varnarmegin hefur Geno Atkins verið andlit Bengals undanfarinn áratug en í barnæsku félagsins voru varnarbakkarnir Lemar Parrish og Ken Riley ásamt línuverðinum Reggie Williams helstu leiðtogarnir en þeir Riley og Williams spiluðu allan sinn feril fyrir Cincinnati Bengals. Það eru ákveðin kynslóðaskipti í gangi í vörn Bengals í dag en þeir voru duglegir að fá til sín leikmenn á leikmannamarkaðinum fyrr á árinu og því ekki nægilega sterkt uppeldisstarf í gangi. Það er í raun bara Jessie Bates III sem kemur til greina sem varnarandlit Bengals næstu 10 árin. Bates hefur átt frábært tímabil í ár en hann er á sínu þriðja ári í deildinni.
Cleveland Browns

Cleveland Browns hafa verið til síðan 1946 en þeirra stærsta stjarna var leikstjórnandinn Otto Graham sem var andlit félagsins til ársins 1955. Þá var komið að hlauparanum og goðsögninni Jim Brown að taka við kyndlinum. Það gerði hann frá 1957-1965. Í seinni tíð hefður Joe Thomas, vinstri tæklari liðsins á árunum 2007-2017, verið þeirra langbesti leikmaður. Þar sem Baker Mayfield er of gamall til að vera gjaldgengur (fyrir utan staðreyndina að hann er ekki nógu góður) liggur í augum uppi að hlauparinn Nick Chubb hljóti heiðurinn að vera andlit sóknarliðs Browns næstu tíu árin.
Varnarmegin er garðurinn ekki eins gróinn en Hanford Dixon, Jim Houston og Clay Matthews spiluðu allir lengi vel fyrir Browns á árunum 1960-1996 og gætu hafa talist andlit varnarinnar yfir þau 36 árin. Í dag er nokkuð ljóst að þann heiður mun Myles Garrett hreppa skuldlaust. Garrett er enn 24 ára gamall en hann verður 25 í lok desember. Hann er eitraður af horninu og verður andlit varnar Browns næstu 10 árin.
Pittsburgh Steelers

Nú hefur Ben Roethlisberger verið andlit Pittsburgh Steelers í rúman áratug og augljóslega er sá tími að renna sitt skeið. Fyrir tíma Big Ben var Terry Bradshaw og Franco Harris andlit sóknarinnar en miðað við leikmannahóp Steelers í dag er nokkuð ljóst að ég verð að gefa Chase Claypool nafnbótina sóknarandlit Pittsburgh Steelers næstu 10 árin. Útherjinn hefur byrjað NFL feril sinn af krafti en með þessa líkamlegu burði eru allir vegir færir.
Það hefa alla tíð verið frábærir varnarleikmenn í röðum Pittsburgh Steelers eins og til dæmis Joe Greene, Jack Ham, Jack Lambert, Mel Blount og Rod Woodson. Í seinni tíð höfum við fengið að fylgjast með James Harrison og Troy Polumalu og nú undanfarið Cameron Heyward og T.J. Watt. Watt er of gamall (26) til að teljast með í þessari æfingu og því ætla ég að gefa Minkah Fitzpatrick sénsinn á að vera varnarandlit Pittsburgh Steelers næstu 10 árin.
Aðeins tíminn mun sannreyna þessar pælingar en nýjir ungir leikmenn bætast við á hverju ári með möguleika á að hrifsa til sín vinsældir og sendiherra-pælingar. Sum lið eiga líka 25 og 26 ára leikmenn sem eru ofurstjörnur og gætu endað á að spila í 10 ár í viðbót en eru ekki gjaldgengir í þessar pælingar. Þetta er auðvitað bara til gamans gert!