Fyrir ekki svo löngu síðan fékk ég Hjalta Einarsson til að rýna í Saints liðið sitt, stöðu þeirra undir launaþakinu, samningslausa leikmenn og óskir og drauma varðandi nýliðavalið. Næstur í röðinni er Jacksonville Jaguars stuðningsmaðurinn Loftur Kristjánsson. Hann gekk strax í málið og hér fyrir neðan eru svör hans við mínum spurningum.
Hvaða áhrif hefur lækkandi launaþak á Jacksonville?
Ekkert lið er í betri málum þegar kemur að því að fá sér nýja leikmenn þegar deildarárið byrjar á nýjan leik þann 17. mars næstkomandi heldur en Jacksonville Jaguars. Liðið er $86 milljónum undir launaþakinu eins og er sem er það mesta hjá öllum liðum deildarinnar. Einnig á liðið 11 valrétti í nýliðavalinu eins og er, þar á meðal þann fyrsta, þó svo eigi enn eftir að útdeila viðbótarvalréttum í lok umferða 4 til 7. Þessir 11 valréttir eru það mesta í deildinni en næstir koma Minnesota Vikings með 10 valrétti. Jaguars eiga tvo valrétti í fyrstu umferð og líka tvo í annarri umferð, samtals fjóra af fyrstu 45 valréttunum. Einnig eiga þeir valrétt í þriðju umferð, tvo í fjórðu, tvo í fimmtu, engan í sjöttu og tvo í sjöundu. Það verður því nóg af hlutum sem munu breytast hjá Jaguars þegar þessir viðburðir verða yfirstaðnir.
Lækkandi launþak ársins 2021 hefur engin neikvæð áhrif fyrir Jaguars þar sem þeir eru eins og áður sagði með mestan pening til að spila með. Lækkunin mun eflaust hafa jákvæð áhrif ef eitthvað er á liðið. Þegar önnur lið fara að losa sig við leikmenn og mörg hver verða í miklum vandræðum með launaþakið og geta ekki boðið í marga leikmenn þá verða Jaguars eitt fárra liða sem getur boðið leikmönnum eitthvað í líkindum við það sem þeir vilja. Það verður því fróðlegt að sjá hvernig Jaguars spila úr sínum spilum og hvar áherslurnar verða.
Ekki er líklegt að liðið þurfi að breyta mörgum samningum hjá sér. Það er einna helst vörðurinn Andrew Norwell sem er líklegur kandidat í það að missa starfið sitt hjá liðinu. Hann mun telja $15 milljónir af launaþakinu sem er það mesta hjá liðinu. Hann á tvö ár eftir af samningi sínum en liðið getur sparað $9 milljónir af launaþakinu ef það riftir samningi við Norwell eða skiptir honum til annars liðs fyrir 1. júní. Ég tel ekki líklegt að þeir leysi hann undan samningi heldur frekar reyni að skipta honum annað fyrir valrétt seint í nýliðavalinu. Aðrir leikmenn liðsins þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að lenda í því að missa starfið sökum samningsins síns, það væri helst frekar vegna frammistöðu sem sú yrði raunin.
Embed from Getty ImagesHverjir eru helstu leikmennirnir sem eru að verða samningslausir og hvernig sérðu Jaguars taka á þeim málum?
Af þeim leikmönnum Jaguars sem eru að renna út af samning er enginn sem er algjört möst að semja aftur við. Leikmenn sem eru að renna út á samning eru m.a. útherjarnir Keelan Cole, Chris Conley og Dede Westbrook, innherjinn Tyler Eifert og varnarlínumennirnir Abry Jones og Dawuane Smoot. Mér þætti líklegt að Smoot muni fá annan samning því hann getur nýst sem breiddar leikmaður á varnarlínunni auk þess að hann er 26 ára og svo fær eflaust einn af útherjunum aftur samning. Ég væri helst til í Cole þar en ég myndi ekkert gráta það þó enginn þeirra fái aftur samning.
Hvaða leikmenn eða leikstöður myndir þú forgangsraða á frjálsa leikmannamarkaðinum?
Þegar kemur að frjálsa leikmannamarkaðinum þá er ég spenntastur fyrir því að fá tvo fyrrum Jaguars leikmenn aftur „heim“. Sá fyrri er Allen Robinson, útherji Bears, og hinn er Yannick Ngakoue, edge hjá Ravens. Ég tel reyndar engar líkur á að Ngakoue myndi fara aftur til Jaguars því hann átti í útistöðum við Tony Khan, son eigandans og yfirmann tæknimála hjá liðinu. Ef erjur Ngakoue hefði verið við þjálfara teymið eða framkvæmdarstjórann þá gæti maður séð hann líta á Jaguars sem áfangastað því það er búið að skipta því öllu út. Robinson væri hinsvegar mjög spennandi kostur. Það voru mikil mistök að láta hann fara þegar nýliðasamningurinn hans rann út eftir 2017 tímabilið. Hann er búinn að vera einn besti útherji deildarinnar undanfarin ár og það væri flott fyrir Jaguars og Trevor Lawrence, sem að öllum líkindum verður valinn fyrstur í lok apríl, að hafa Robinson sem aðal útherjann.
Fyrir utan þessa tvo fyrrum leikmenn Jaguars þá ætti liðið að leita í efstu hillu að liðsstyrk af þeim leikmönnum sem eru lausir. Sóknarlínan er sá staður sem er sennilegast mikilvægast að uppfæra og þar sem það er líklegt að Cam Robinson verði ekki lengur byrjunarliðsmaður lengst til vinstri á línunni verður spennandi að sjá hvort að þeir reyni að ná til sín Trent Williams frá 49ers. Williams verður 33 ára þegar tímabilið hefst en hann á eflaust nokkur góð ár eftir og eins og Andrew Whitworth hefur sýnt geta sóknarlínumenn spilað þó fertugsafmælið nálgist. Williams hefur í þrígang verið efstur hjá PFF hvað einkunn fyrir sóknarlínutæklara varðar, þar á meðal á síðast tímabili. Að gefa Williams stóran fjögurra ára samning er eflaust ekki það vitlausasta í heimi, sérstaklega ef hann er settur þannig upp að auðvelt sé að losna úr honum eftir þrjú ár ef Williams stendur ekki undir væntingum. Einnig gætu aðrir útherjar en Robinson verið spennandi kostir en helst ber að nefna Chris Godwin hjá Buccaneers og Kenny Golladay hjá Lions. Einnig hefur nafn Curtis Samuel hjá Panthers verið nefnt vegna tengsla hans við Urban Meyer frá tíma þeirra saman hjá The Ohio State University.
Embed from Getty ImagesJaguars gætu einnig verið grimmir að næla sér í einn til tvo bakverði. Það er víst ekki mikið af topp leikmönnum í þeirri stöðu í nýliðavalinu en hinsvegar er haugur af þeim með lausan samning og því gott að ná í þekkta stærð. Á lista PFF yfir bestu leikmennina sem eru í boði eru 8 bakverðir á topp 50 listanum og 20 á topp 100 þannig að úrvalið er gott. Jason Verrett er meiðslapési en ef hann er heill hefur hann yfirleitt verið stórkostlegur. Patrick Peterson er búinn að vera lengi að en gæti verið sterkur leiðtogi inn í klefann og átt ennþá nokkur tímabil eftir á háum standard. Erfitt að segja hvað þeir gera þegar úrvalið er svona mikið en ég myndi alltaf hallast að því að reyna að taka leikmann í yngri kantinum sem getur verið þarna til lengri tíma.
Hvað viltu sjá frá þínum mönnum í nýliðvalinu?
Þegar kemur að nýliðavalinu þá stendur það og fellur auðvitað með fyrsta valréttinum sem hlýtur að vera Trevor Lawrence, QB frá Clemson. Ef það gerist ekki þarf ég sennilega að hætta að styðja þetta lið! Hvað þeir gera síðan með hina 10 valréttina sem þeir eiga eins og er verður fróðlegt að sjá. Einn félagi minn vill sjá þá taka eingöngu sóknarlínumenn til að þeir verði vissir um að þeir fái allaveganna einhvern góðan! Það er eitthvað til í þessu en ef þeir nota amk. einn af næstu þremur valréttum á eftir þeim fyrsta í sóknarlínuleikmann þá verð ég sáttur. Heilt yfir hvað nýliðavalið varðar þá er ég harður á því að taka alltaf besta leikmanninn óháð stöðu þannig að það er ómögulegt að spá fyrir hverja liðið mun velja. Ef maður ætti að horfa frekar í hvaða stöður þyrfti að styrkja myndi ég segja að sóknarlínan sé fyrsta forgangsatriðið, aðallega vegna þess hversu mikilvægt er að gefa Lawrence góða vernd. Næst þar á eftir er það varnarlínan og að lokum bakverðirnir. Liðið hefur einnig ekki átt spennandi innherja svo árum skiptir en það er ólíklegt að sá besti þar, Kyle Pitts frá Florida, verði laus þegar Jaguars velja nr. 25 og þeir líta kannski frekar á leikmann eins og Hunter Henry sem er með lausan samning ef þeir vilja bæta þá stöðu.
Embed from Getty ImagesHeilt yfir þá munu þessir tveir viðburðir snúast um að gera sem mest fyrir Trevor Lawrence og að hann geti náð árangri, helst sem fyrst. Styrkja sóknarlínuna og vera með alvöru útherja eru svona no-brainers eins og ég horfi á þetta. Það er hægt að gera það bæði með reyndum leikmönnum og í nýliðavalinu. Ef að Jaguars fara inn í maí mánuð með nýjan sóknarlínutæklara, sama hvort hann sé reyndur á stórum samning eða tekinn ofarlega í nýliðavalinu, alvöru WR1 leikmann, frekari styrkingar á sóknarlínunni og 1-2 varnarmenn sem eiga að geta bætt liðið verulega þá get ég ekki verið neitt annað en sáttur með útkomuna og útlitið fyrir framtíðina væri gott.