Þrátt fyrir heimsfaraldur, samkomubann og frestanir keppnisdeilda á alþjóðlegum skala ákvað NFL deildin að halda sig við skipulagt fyrirkomulag leikmannagluggans. 16. mars byrjaði löglega fikt tímabil viðskiptagluggans en þá máttu lið hefja samræður við samningslausa leikmenn. Strax fengum við fréttir af samningnum sem náðst höfðu en í gær, 18. mars byrjaði nýtt NFL keppnisár og viðskiptaglugginn opnaði opinberlega.
Í ljósi aðstæðna hafa samþykktir samningar þó ekki verið opinberaðir því leikmenn þurfa að standast læknisskoðun liðanna til að samningur teljist gildur og endanlegur. Liðum er hinsvegar óheimilt að fljúga leikmönnum til höfuðstöðva sinna til að framkvæma þessa skoðun og því eru afar fáir samningar opinberir. Læknar sem staðsettir eru í grennd við leikmenn mega framkvæma þessar læknisskoðanir fyrir lið sem einskonar verktakar en lið vilja fyrst og fremst láta læknateymi sín framkvæma þessa skoðun og því er ástandið eins og það er.
Hér fyrir neðan eru sjö bestu viðskipti gluggans hingað til en enn er nóg eftir af góðum samningslausum leikmönnum. Við göngum útfrá því að allir samningar sigli í höfn á endanum en hér eru sjö bestu samningarnir til þessa að mati ritstjórnar.

Bill O’Brien, þjálfari og framkvæmdastjóri (og trúður) Houston Texans, sendi stjörnu útherjann DeAndre Hopkins frá sér í skiptum fyrir 2. umferðar valrétt, 4. umferðar valrétt og hlauparann útrunna David Johnson. DeAndre Hopkins vildi nýjan samning sem O’Brien var ekki tilbúinn að gefa honum en sagan segir að samband þeirra hafi verið ryðgað um þónokkurn tíma. Arizona Cardinals eru greinilega tilbúnir að krydda uppá samning Hopkins sem á þrjú ár eftir af núverandi samningi. Arizona tókst að losna undan þungum samningi Johnson og náði í leiðinni að fá til sín stórstjörnu.
Einkunn: 10.0

Þetta er stærsti samningur viðskiptagluggans það sem af er en útvörðurinn Byron Jones fékk að labba úr herbúðum Dallas og prófa markaðinn. Miami áttu haug af seðlum og borga Jones $16.5M að meðaltali á ári næstu fimm árin. Jones, sem er 27 ára, er einn besti útvörður deildarinnar í dag en hann stendur uppúr í maður á mann vörn og leyfði aðeins 53.1% heppnunarhlutfall í vetur. Miami Dolphins eiga nú líklega besta útvarðapar deildarinnar en Xavien Howard er á hinum helmingi vallarins. Miami eru með undankomuleið úr samningnum eftir þrjú ár en þyrftu þá að éta $6M við riftunina.
Einkunn: 9.2

Einn vanmetnasti varnarleikmaður deildarinnar síðustu ár, varnarlínumaðurinn Jurrell Casey, fór nánast gefins frá Tennessee til Denver en John Elway læt Titans hafa 7. umferðar valrétt sem hann hafði stuttu áður fengið frá Cleveland í skiptum fyrir bakherjann (fullback) Andy Janovich. Casey getur spilað allsstaðar á varnarlínunni sem gefur Vic Fangio mikið svigrúm en hann hefur verið valinn í Pro Bowl seinustu fimm tímabil. Casey er þrítugur, á þrjú ár eftir af samningi sínum og getur Denver komist útúr honum hvenær sem er án þess að éta dollara því engin trygging er eftir á samningi Casey.
Einkunn: 8.9

Hægri sóknartæklarinn Bryan Bulaga samþykkti tilboð Chargers sem hljóðaði upp á þrjú ár og $30M. Það gera $10M á ári en það er rosalega hagstætt verð fyrir góðan tæklara. Chargers höfðu stuttu áður skipt vinstri sóknartæklaranum sínum fyrir hægri sóknarvörðinn Trai Turner og eru því komnir með gífurlega nothæfan hægri helming á sóknarlínuna sína. Sumir segja það vegna þess að Tua Tagovailoa sé örvhentur og að hann sé þeirra helsta skotmark í nýliðvalinu. Hvað sem því líður er þetta rosalega sterk viðskipti en maður spyr sig hvort Bulaga hafi ekki fengið gjafmildari tilboð.
Einkunn: 8.7

San Francisco skiptu varnarlínumanninum DeForest Buckner til Indianapolis fyrir 1.umferðar valrétt í ár. Niners höfðu fyrr framlengt við Arik Armstead og því erfitt að halda Buckner einnig en hann átti aðeins eitt ár eftir af nýliðasamningi sínum. Bæði lið gerðu gott mót í þessum viðskiptum en Colts eru hér komnir með þungavigtar línumann sem mun standa vörð um ókomin ár ásamt línuverðinum Darius Leonard. Indianapolis framlengdu svo við Buckner en hann fékk 4-ára $84M samning sem gefur $21M árlega.
Einkunn: 8.6

Hér eru það Minnesota sem gerðu mjög vel þegar þeir losuðu sig við útherjann Stefon Diggs fyrir aragrúa valrétta. Diggs hefur opinberlega látið í ljós óánægju sína í herbúðum Vikings en hann kastaði hjálminum í jörðina og hreytti einhverju í átt að þjálfara sínum fyrr í vetur. Slík hegðun dregur úr vogarafli liðsins til að fiska vel komi til viðskipta. Þrátt fyrir dívustæla Diggs náðu Minnesota að landa samtals fimm valréttum frá Buffalo. Flest þeirra eru í ár en 4.umferðar valrétturinn er gildur í nýliðavalið árið 2021.
Einkunn: 8.5

Það bendir allt til þess að Tom Brady muni spila fyrir Bruce Arians undir merki Tampa Bay Buccaneers á næsta tímabili. Í Tampa bíða hans tvö afgerandi vopn í útherjunum Mike Evans og Chris Godwin. Miðað við þær upplýsingar sem við höfum fær Brady $30M+ árlega en líklega verður þetta tveggja ára samningur. Hversu mikið á Brady eftir í tankinum er óljóst en sóknarvopnin hans í vetur voru ekki að láta hann líta vel út, það er á hreinu. Þetta eru auðvitað sögulegur atburður en í ljósi þess að einn besti fótboltaleikmaður allra tíma er að skipta um lið, þó hann sé 43 ára, að þá komast þessi viðskipti á þennan lista.