Bill Belichick og New England Patriots eru heldur betur búnir að vera áberandi í mars mánuði og hafa samið við hvern leikmanninn á fætur öðrum. Helst ber að nefna skyndiliðann Matt Judon frá Baltimore Ravens, Jonnu Smith frá Tennessee Titans og Hunter Henry frá Los Angeles Chargers.
Sóknarlega virðist félagið vera í góðum málum en sóknarlínan stóð sig prýðisvel í fyrra og hefur nú bætt við sig Trent Brown í hægri tæklarann og senterinn David Andrews gerði fjögurra ára framlengingu við félagið, svo línan verður að öllum líkindum aftur í topp 10 í deildinni. Við getum búist við að sjá fjöldann allan af 12 personnel settum frá Patriots í vetur með tilkomu innherjanna tveggja, Smith og Henry og þar af leiðandi sjáum við meira af aðeins tveimur útherjum inná vellinum.
Útskýringaserían NFL stofan: Sóknarhópar (hvað er 12 personnel?)
Útherjaherbergið er skipað, eins og staðan er núna: Julian Edelman, Kendrick Bourne, Nelson Agholor, N’Keal Harry og Jakobi Meyers. Ólíklegt þykir mér að Belichick leggi ríka áherslu á leikstöðuna ofarlega í nýliðavalinu en sennilega verður útherji gripinn á þriðja degi nýliðavalsins (umferðir 4-7).
Miðað við hversu herskár Belichick hefur verið á frjálsa leikmannamarkaðinum er ekki erfitt að gera sér í hugarlund að maðurinn sé reiðubúinn til þess að gerast ágengur í 1. umferð valsins til að tryggja sér fjórða eða fimmta leikstjórnandann í árganginum – hvort sem það verður Mac Jones eða Trey Lance. Helsta spurningarmerki liðsins er klárlega leikstjórnandastaðan en Cam Newton samdi nýverið til eins árs við Patriots en það sjá allir sem augu hafa að Newton er engin framtíðarlausn.
Varnarlega eru Patriots alltaf seigir og skiptir litlu máli hvaða handahófsvöldu leikmenn hann stillir upp hverju sinni – alltaf virðist hann ná því mesta úr sínu liði, varnarmegin við boltann.
Með þetta í huga býð ég uppá 5. umferða platval fyrir New England Patriots – eins og ég myndi gera þetta.
(umferð. valréttur: nafn, leikstaða – háskóli)
1.10: Mac Jones, QB – Alabama
Embed from Getty ImagesÉg kaupi það ekki að Jones fari til 49ers númer 3 en fyrrum leikstjórnandi Alabama var laus í platvalsvélinni þegar komið var að Dallas Cowboys. Ég tók í gikkinn og færði mig ofar til að tryggja mér hinn raunverulega arftaka Tom Brady. Jones er ekki ósvipaður leikmaður og Brady en barnabarn Jerry Jones er eldsnöggur að lesa varnir og hans helsti styrkleiki er nákvæmnin hans. Hann mun ekki hreyfa sig mikið úr vasanum og hentar fullkomlega í sóknina hans Josh McDaniels sem hefur verið sniðin í kringum Brady öll þessi ár.
2.46: Tyson Campbell, CB – Georgia
Embed from Getty ImagesMeð öðrum valréttinum var annar tveggja frábærra bakvarða Georgia Bulldogs laus og stökk ég á tækifærið. Stephon Gilmore er að fara inní sitt síðasta ár á samningi og verður orðinn 31. árs áður en Patriots spila 3 leik tímabilsins. Campbell er stór og stæðilegur bakvörður sem mun henta vel í síbreytilega vörn Belichick.
3.96: Cameron McGrone, LB – Michigan
Embed from Getty ImagesMcGrone verður tvítugur í sumar og verður því með yngstu leikmönnum þessa árgangs. Kjörið tækifæri fyrir þjálfarateymi Patriots að móta leikmanninn en liðið þarf sárlega á ungum efnivið í línuvarðaherbergið. Dont’a Hightower snýr til baka eftir að hafa setið af sér síðasta tímabil en fyrir utan hann er fátt um fína drætti á öðru leveli varnarinnar.
4.120: Marvin Wilson, DT – Florida State
Embed from Getty ImagesPatriots fá hérna fyrrum fimm-stjörnu háskólanýliða sem átti flott tímabil árið 2018 og 2019 með Florida State Seminoles. Wilson er betri í sendingaárás en hlaupavörn en það er ljóst að hann fær ekki mikinn spilatíma hjá Bill nema hann hreinsi til hjá sér í hlaupavörninni.
4.122: Hamilcar Rashed Jr., EDGE – Oregon State
Embed from Getty ImagesÞað er ekki vitlaust að bæta nýliða við skyndiliðasveitina en reikna má með að Matt Judon, Chase Winovich og Kyle Van Noy fái mestan hluta sendingaárásarsnappanna í vetur. Rashed Jr. er hrár og hægt er að líta á leikmanninn sem langtíma verkefni með von um að skapa byrjunarliðsleikmann út honum.
4.139: Shi Smith, WR – South Carolina
Embed from Getty ImagesÞað sakar ekki að bæta við útherjasveit liðsins en Shi Smith verður líklega þristur (e. slot receiver) í NFL deildinni og ætti þá möguleika á að leysa Julian Edelman af hólmi þegar þar að kemur. Smith var ekki þeirrar gæfu aðnjótandi að spila með góðum leikstjórnendum á sínum háskólaferli en náði þó að komast vel frá sínu.
5.177: Tyree Gillespie, S – Missouri
Embed from Getty ImagesÞað er erfitt að finna byrjunarliðsmenn svona neðarlega í draftinu en Gillespie gæti spilað snapp hér og þar á fyrstu árunum sínum en gegnt stærra hlutverki í sérliði Patriots – guð veit að Belichick elskar það.