Þá erum við komin í úrslitakeppnishaminn – allavega stuðningsmenn 14 liða! Ekki láta nýjasta þátt NFL Stofunnar framhjá þér fara þar sem farið er yfir leikviku 18, wildcard helgina, þjálfarabrottrekstra og umræðu um einstaklingsverðlaun NFL deildarinnar.
Þá er komið að því! Draftröðin fyrir 18 lið er klár og því er kominn tími á fyrsta platval Leikdags fyrir 2022 nýliðavalið. Markmiðið með þessu platvali er ekki að reyna að giska á hvað liðin ætla að gera þegar kemur að stóru stundinni – heldur ætla ég frekar að skoða möguleika hvers liðs fyrir sig og drafta útfrá því hvað ég myndi gera.
Valréttir 19-32 eru ákvarðaðir af því hvar í úrslitakeppnismyndinni liðin eru. Einnig valdi ég í 2. umferð fyrir þau lið sem ekki eiga valrétt í 1. umferð.
1. JACKSONVILLE JAGUARS
KAYVON THIBODEAUX, EDGE – OREGON
Stjórnandi er ekki lengur efstur á blaði í Jacksonville og myndi ég kjósa að fókusa á aðra hvora línuna með þessum valrétti. Thibodeaux er lengi búinn að vera í sviðsljósinu í háskólaboltanum eða allt frá því að hann spratt fram á sjónarsviðið á sínu fyrsta ári með Oregon. Þar bauð hann uppá 9 fellur og 14 tæklingar fyrir tapi.
Thibodeaux er frá Kaliforníu og ætti því að una vel við í Flórída fylki. Hann kemur til með að mynda skemmtilegt árásateymi með Josh Allen.
2. DETROIT LIONS
AIDAN HUTCHINSON, EDGE – MICHIGAN
Þetta pikk gengur fullkomlega upp, hvernig sem á það er litið. Dan Campbell mun eflaust slefa yfir hugmyndinni að fá skyndiliða af þessu kalíber inní liðið sitt en Hutchinson ákvað á seinustu stundu að draga nafn sitt til baka úr nýliðavalinu í fyrra. Það reyndist góð ákvörðun því skyndiliðinn hefur gjörsamlega kveikt í háskólasenunni með þreytulausri árás á stjórnendur landsins.
Ekki skemmir fyrir að Hutchinson er heimamaður, fæddur og uppalinn í Michigan fylki og parast því fullkomlega við Detroit menninguna.
3. HOUSTON TEXANS
DEREK STINGLEY, CB – LSU
Í fullkomnum heimi myndu Texans færa sig niður valröðina og selja þennan valrétt. En þar sem lítið er um sjóðheita stjórnendur í árganginum, þá er ekki víst að það myndi takast. Davis Mills hefur heldur betur minnt á sig uppá síðkastið og lýst mér því ekki nægilega vel á að taka stjórnanda hérna.
Stingley er nær ólöglegur íþróttamaður sem átti sitt besta háskólatímabil árið 2019, þegar hann var nýliði. Hann hefur glímt við meiðsli á seinustu tveimur árum ásamt því að LSU fór í gegnum miklar þjálfarabreytingar. Þetta er leikmaður sem þú verður að taka sénsinn á.
4. NEW YORK JETS
EVAN NEAL, OT – ALABAMA
Það er ekki margt heilagt í þessu Jets liði – fyrir utan Mekhi Becton í vinstri tæklaranum, Alijah Vera-Tucker í verðinum og Zach Wilson undir senter. Þeir gætu vel notað valréttinn í skyndiliða en ég held að þetta sé of snemmt fyrir George Karlaftis, David Ojabo eða Cameron Thomas. Það er aldrei slæm hugmynd að halda áfram að stafla hæfileikum á sóknarlínuna.
Evan Neal er fyrrum hægri tæklari sem færði sig yfir á vinstri kantinn fyrir seinasta tímabil. Neal myndi ég þá færa aftur yfir í hægri tæklarann og þá eru Jets komnir með eitt ógnvægilegasta tæklaradúó í deildinni og fáar afsakanir eftir í pokanum hjá Zach Wilson.
5. NEW YORK GIANTS
KENNY PICKETT, QB – PITTSBURGH
Þeir sem hlustað hafa á NFL Stofuna vita hvað mér finnst um þetta félag, eigandann, framkvæmdastjórann, aðalþjálfarann og Daniel Jones. Vissulega er Dave Gettlemen búinn að segja af sér en staðreyndin er sú að ákvörðun hans að taka Daniel Jones nr. 6 árið 2019 var slæm og félagið ætti ekki að kveljast lengur.
Kenny Pickett átti magnað tímabil með Pittsburgh Panthers þar sem hann varð þriðji í kosningu um Heisman verðalunin á nýafstöðnu tímabili í háskólaboltanum. Það fylgir Pickett miklu meiri kjarkur og svægi heldur en nokkurntíman Daniel Jones og er ég alveg viss um að Pickett gæti þrifist vel í New York borg. Ég sé fyrir mér leikmenn sem gæti átt svipaðan feril og Derek Carr hjá LSV.
6. CAROLINA PANTHERS
MATT CORRAL, QB – OLE MISS
Panthers gætu vel notað þennan valrétt í sóknarlínumann eins og Ikem Ekwonu eða Charles Cross – einnig væri vel þess virði að skoða varnartæklarana Jordan Davis og DeMarvin Leal hérna en staðreyndin er sú að Darnold tilraunin gekk ekki og eru Matt Rhule og félagar komnir á núll punkt með stjórnandastöðuna sína.
Corral gefur sókninni aukna vídd en hann er góður á löppunum og getur framlengt kerfi sem brotna niður, skramblað og gert góða hluti. Hann er frekar lítill, léttbyggður og kvikur en býr yfir góðri nákvæmni.
7. NEW YORK GIANTS (VIA CHI)
IKEM EKWONU, OT – NC STATE
Andrew Thomas hefur ekki staðið undir þeim væntingum sem gerðar voru til hans, en á móti kemur að fáir nýliðar á tímum Dave Gettleman hjá NY Giants hafa gert það. Ekwonu kemur til með að verða bestu hlaupablokkari liðsins um leið og hann lendir í stóra eplinu og spurningin er hvort best væri að færa Thomas yfir á hægri vænginn og leyfa Ekwonu að manna vinstri tæklarann.
Skyndiliðarnir Karlaftis og Ojabo komu sterklega til greina hérna en Giants virðast vera með ágætis strák í Azeez Ojulari sem þeir tóku í 2. umferð í fyrra.
8. ATLANTA FALCONS
KYLE HAMILTON, S – NOTRE DAME
Þetta er eins mikill no-brainer og til er. Kyle Hamilton er auðveldlega einn besti leikmaður árgangsins og kemur til með að hjálpa Falcons vörninn heilmikið, strax frá fyrstu stundu. Falcons gætu vel notað valréttinn í varnarlínuleikmann en Hamilton hefur fallið nógu langt fyrir minn smekk.
9. DENVER BRONCOS
SAM HOWELL, QB – NORTH CAROLINA
Helsta holan í Denver liðinu þessa dagana er leikstjórnandastaðan. Einnig ættu þeir að skoða EDGE og OT í fyrstu umferðinni ef þeir ná að græja stjórnanda fyrir draftið, en líklegast er að þessi valréttur verði hluti af kaupverði nái þeir að fylla í holuna fyrir nýliðavalið.
Howell átti glæsilegt 2020 tímabil en missti síðan öll vopnin sín (Javonte Williams, Michael Carter, Dazz Newsome, Dyami Brown) í nýliðavalinu og náði ekki að fylgja sterku 2020 tímabili eftir í ár. Howell er afskaplega líkur Baker Mayfield í útliti en vonandi fyrir hann ná líkindin ekki lengra.
10. NEW YORK JETS (VIA SEA)
DAVID OJABO, EDGE – MICHIGAN
Sá varnarmaður sem hefur unnið sig hvað hraðast upp drafttöflur víðsvegar um heiminn. Ojabo er tiltölulega nýbyrjaður að æfa fótbolta en á öðru árinu sínu með Michigan hlóð hann í 11 fellur í 13 leikjum.
Hann verður líklega ekki tilbúinn í NFL bolta frá fyrstu stundu en það er morgunljóst að hæfileikana og sprengjuna vantar ekki í strákinn.
11. WASHINGTON FOOTBALL TEAM
KENYON GREEN, IOL – TEXAS A&M
Hér hefði ég viljað stjórnanda fyrir Washington (sem opinberar nýtt nafn 2. febrúar) en þar sem þrír eru farnir nú þegar finnst mér erfitt að senda Strong, Ridder eða Willis til WAS.
Kenyon Green er skrímsli í verðinum fyrir Texas A&M og myndi koma til með að mynda ófrýnilegt dúó með Brandon Scherff (franchise-tag)í sóknarlínu sem er með vindinn í bakið þessa stundina.
12. MINNESOTA VIKINGS
ANDREW BOOTH, CB – CLEMSON
Vikings virðast alltaf vera að velja bakverði í nýliðavalinu en við skulum ekki gleyma því að Jeff Gladney (1. umf 2020) er ekki lengur með liðinu. Patrick Peterson er ekki eilífur í þessu og hér negla þeir framtíðar byrjunarbakvörð sem er alveg pottþéttur.
13. CLEVELAND BROWNS
GARRETT WILSON, WR – OHIO STATE
Þetta er þeirra helsta áhyggjuefni – gríparasveitin. Browns hafa gefið það út að Mayfield verði áfram undir senter á næsta tímabili og færist því fókusinn á vopnin hans. Garrett Wilson er besti útherji árgangsins að mínu mati og er alveg smíðaður í WR1 hlutverkið í NFL deildinni.
14. BALTIMORE RAVENS
JORDAN DAVIS, DT – GEORGIA
Stærstu spurningar Ravens liðsins snúa að bakvarðastöðunum og varnarlínunni. Hér kaus ég að taka óblokkandi mannfreskjuna Jordan Davis frá Georgia háskólanum sem viðraði eina bestu vörn sögunnar í háskólaboltanum og Davis var hjartað í vörninni.
Brandon Williams er að verða 33 ára og hefur ekki spilað nægilega vel í vetur. Fyrir utan það að Davis er á allt öðru leveli en Williams.
15. PHILADELPHIA EAGLES (MIA)
GEORGE KARLAFTIS, EDGE – PURDUE
Eagles geta farið í margar áttir með þessa þrjá valrétti sína í 1. umferð en ég ætla að nota þá alla í varnarleikmenn. Fyrstur á blað fyrir Howie Roseman og félaga er skyndiliðinn George Karlaftis. Drengurinn átti rosalegt nýliðaár með Purdue háskólanum og hefur fylgt því eftir með flottu 2021 tímabili.
Þetta er 275 punda vél sem hættir aldrei og getur farið í gegnum menn í leið sinni að stjórnanda andstæðingsins.
16. PHILADELPHIA EAGLES (IND)
DEVIN LLOYD, LB – UTAH
Næsti valréttur fer í einn af mínum uppáhalds leikmönnum þessa árgangs – Devin Lloyd. Lloyd kemur úr öflugu varnarprógrammi Utah og setti fram sýningu í vetur með frábærri frammistöðu. Líklega spilaði enginn varnarmaður jafnvel og Lloyd gerði í ár en hann bauð uppá: 22 TFL, 7 fellur, 4 inngrip, 2 SM (snertimörk) og 6 sendingum varist.
17. LOS ANGELES CHARGERS
DEMARVIN LEAL, DT – TEXAS A&M
Chargers gætu þegið hjálp í formi hægri tæklara, skyndiliða andspænis Joey Bosa en fyrst og fremst þurfa þeir að þykkja sig upp í hjarta varnarinnar til að geta stoppað hlaupið. Leal er öflugur varnarlínumaður sem getur sett pressu á stjórnendur innan frá. Fjölhæfir varnartæklarar eru sjaldgæfir og hérna landa Chargers menn einum slíkum.
18. NEW ORLEANS SAINTS
DESMOND RIDDER, QB – CINCINNATI
Fjórði stjórnandinn tekinn en þetta er helsta holan í Saints hópnum. Næsta mál er að fókusera á grípara.
19. PHILADELPHIA EAGLES
ROGER MCCREARY, CB – AUBURN
Þriðji valrétturinn fer í að efla dekkningateymið í Philadelphia. Darius Slay og Avonte Maddox eru mjög góðir bakverðir en ekki sakar að bæta gæðum ofan á gæði.
20. PITTSBURGH STEELERS
CHARLES CROSS, OT – MISSISSIPPI STATE
Steelers menn þurfa allra helst stjórnanda en hér eru allir þeir stjórnendur farnir sem ég sé fara í fyrstu umferð í fljótu bragði. Sóknarlínan hefur auðvitað verið í molum eftir að stólpar úr henni hafa hætt, meiðst eða fjarað út. Cross er framtíðar vinstri tæklari og algjör stuldur á þessum tímapunkti í draftinu.
21. NEW ENGLAND PATRIOTS
NAKOBE DEAN, LB – GEORGIA
Patriots gætu sætt sig við bakvörð eða grípara hér en Nakobe Dean er topp 15 leikmaður í þessum árgangi þrátt fyrir að vera örlítið minni en maður vill hafa línuverðina sína. Gríðarlega sprengifimur og hraður leikmaður sem er búinn að vera allt í öllu hjá bestu vörn landsins.
22. MIAMI DOLPHINS (VIA SFO)
TYLER LINDERBAUM, OC – IOWA
Senter til að koma með stöðugleika inn í slappa sóknarlínu Miami manna. Linderbaum er algjör frík og hæst grade-aði senter PFF undanfarin 4-5 ár.
23. LAS VEGAS RAIDERS
JAMESON WILLIAMS, WR – ALABAMA
Raiders sóknin saknar gríðarlega hraðans sem fylgdi Henry Ruggs og hér taka þeir mestu djúpógn árgangsins. Williams sleit krossbönd gegn Georgia í úrslitaleik háskólaúrslitakeppninnar á dögunum en ætti að vera byrjaður að æfa af einhverju viti í byrjun september.
24. ARIZONA CARDINALS
AHMAD GARDNER, CB – CINCINNATI
Cardinals menn þurfa svo sannarlega á styrkingu að halda í dekkningateyminu sínu og sækja hér langan “Sauce” Gardner sem hefur spilað vel í vetur fyrir mjög sterka Bearcats vörnina.
25. CINCINNATI BENGALS
TREVOR PENNING, OT – NORTHERN IOWA
Byggja hreiðrið fyrir Joe Burrow. Annaðhvort fer Penning í RT eða Jonah Williams er sendur þangað.
26. BUFFALO BILLS
TREYLON BURKS, WR – ARKANSAS
Burks gefur Allen og Bills sókninni öðruvísi target í kastleiknum sem þarf nauðsynlega á annarri vídd að halda.
27. DETROIT LIONS (VIA LAR)
CHRIS OLAVE, WR – OHIO STATE
Stærsta spurningamerki Detroit er auðvitað stjórnandinn en hér er ekki úr miklu að moða og spurning hvort Jared Goff verði ekki bara áfram undir senter á næsta ári. Chris Olave er heilsteyptur grípari sem er silkimjúkur og hleypur góðar leggi (e. routes).
28. DALLAS COWBOYS
TREVON WALKER, EDGE – GEORGIA
Randy Gregory er samningslaus eftir tímabilið og Demarcus Lawrence er á risasamningi nú þegar. Cowboys gætu alveg sætt sig við ungan, sprækan og ódýran skyndiliða á brúnina – jafnvel þótt þeir séu mögulega að fara að horfa á Gallup, Wilson, Brown og Turner leita á önnur mið.
29. KANSAS CITY CHIEFS
JAHAN DOTSON, WR – PENN STATE
Tyreek Hill og Mecole Hardman eru einu tveir útherjar liðsins sem eru undir samningi á næsta ári. Það þarf að passa að Mahomes hafi einhvern til að kasta á.
30. TAMPA BAY BUCCANEERS
TRENT MCDUFFIE, CB – WASHINGTON
Bucs menn hafa heldur betur fundið fyrir því hvað það er erfitt að missa fleiri en einn góðan bakvörð út í meiðsli. Hér sækja þeir einn góðan til að auka breiddina í hópnum fyrir næsta tímabil.
31. TENNESSEE TITANS
CAMERON THOMAS, EDGE – SAN DIEGO STATE
Draft-crush alert! Cam Thomas er, ásamt Devin Lloyd, einn af mínum uppáhalds leikmönnum í þessum árgangi. Hann minnir svolítið á JJ Watt en þetta er algjört naut og krafturinn, gæðin og mótorinn á þessum gaur er unaður að fylgjast með.
32. GREEN BAY PACKERS
NICHOLAS PETIT-FRERE, OT – OHIO STATE
Packers gætu vel notað valréttinn í að negla hægri tæklarastöðuna til næstu 10 ára og sækja hér Ohio State tæklarann Petit-Frere, sem hefur reynslu af bæði LT og RT.
39. CHICAGO BEARS
DARIAN KINNARD, OL – KENTUCKY
Bears þurfa að gera eitthvað í sóknarlínunni sinni en þeir tóku Teven Jenkins í síðasta nýliðavali. Hér sækja þeir tæklara frá Kentucky sem reiknað er með að verði færður innar á línuna á næsta leveli en hver veit hvar Bears myndu vilja nota hann.
41. SEATTLE SEAHAWKS
BERNHARD RAIMANN, OT – CENTRAL MICHIGAN
Seahawks eru mögulega að fara að horfa á Duane Brown hverfa á braut og þá er lítið um góða tæklara á rosternum.
47. INDIANAPOLIS COLTS
CARSON STRONG, QB – NEVADA
Hversu gott væri það ef Colts tækju annan Carson? Hvað sem því líður, að þá geta þeir ekki verið sáttir með Wentz eftir endann á tímabilinu. Strong er óhreyfanlegur í vasanum en hann er með alvöru sleggju og hefur verið frábær í háskólaboltanum.
53. SAN FRANCISCO 49ERS
KINGSLEY ENGABARE, EDGE – SOUTH CAROLINA
Bakverðir og skyndiliði hljóta að vera efst á óskalista 49ers. Dee Ford hlýtur að vera á útleið en þeir hafa lítið getað stólað á hann síðan hann kom frá Chiefs. Það er aldrei slæm hugmynd að eiga eitthvað til af skyndiliðum!