Nú þegar fyrsta bylgjan á frjálsa leikmannamarkaðinum er yfirstaðin og rykið hefur að mestu sest, þá er byrjað að móta fyrir leikmannahópum liðanna og í sumum tilfellum eru veikleikar orðnir að styrkleikum. New England Patriots og Houston Texans eru búin að vera iðin við kolann og fjöldinn allur af nýjum leikmönnum búnir að semja við klúbbana.
Hægt og rólega fer að verða augljósara í hvaða átt liðin gætu farið í 1. umferð nýliðavalsins sem er aðeins 39 dögum frá okkur. Til að mynda er ólíklegra að Jacksonville Jaguars noti seinni 1. umferðar valréttinn sinn til þess að velja sóknartæklara í ljósi þess að þeir franchise tögguðu Cam Robinson og dröftuðu tæklarann Jawaan Taylor snemma í 2. umferð nýliðavalsins árið 2019.
Kíkjum á þetta.
#1: Jacksonville Jaguars
Trevor Lawrence. Leikstjórnandi frá Clemson Tigers.
Þetta er auðvitað ekkert leyndarmál og því ætla ég ekki að eyða óþarfa orðum í þetta.
#2: New York Jets
Zach Wilson. Leikstjórnandi Brigham Young Cougars.
Ég hugsa að Jets haldi kyrru fyrir og losi sig við Sam Darnold á draftdegi og endurræsi ódýra leikstjórnanda glugganum með valrétti sínum.
#3: Miami Dolphins
Penei Sewell. Sóknartæklari Oregon Ducks.
Í mínum huga er algjör þvæla að taka leikstjórnanda hér en þessi valréttur gæti þó orðið eign Houston Texans áður en að stóru stundinni kemur. Mér lýst vel á uppbygginguna í Miami en þeir gætu alveg orðið spenntir fyrir einum af útherjunum hérna en í mínum huga er nauðsynlegt að byggja hreiðrið fyrir Tua og sækja kjöt á línuna.
#4: Atlanta Falcons
Rashawn Slater. Sóknartæklari Northwestern Wildcats.
Það er erfitt að átta sig á hugarfari og áætlunum nýrra framkvæmdastjóra og á það svo sannarlega við um Terry Fontenot hjá Falcons. Þeir virðast vera hrifnir af Trey Lance, leikstjórnanda North Dakota State, en þeir eru með Matt Ryan undir samningi næstu þrjú tímabil en hann hefur tekið liðið í Ofurskálarleikinn einu sinni áður og er vanmetinn leikmaður að mati margra. Ég held að Fontenot reyni að auka gæði liðsins hérna og láti vaða í aðra úrslitakeppnisherferð. Endurbyggingin getur beðið.
#5: Cincinnati Bengals
Ja’Marr Chase. Útherji Lousiana State Tigers.
Það er sárt að sjá tvo bestu sóknarlínumennina hverfa rétt áður en verndarsvelt Bengals liðið á að velja. Augljóst er að liðið þarf að stykja línuna fyrir Joe Burrow en félagið missti af Joe Thuney til Chiefs og Trent Williams framlengdi við 49ers. Það mun ekki koma mér á óvart ef liðið reyni að færa sig neðar ef þessi staða kemur upp en ég ætla ekki að færa þá neitt til hérna. A.J. Green er farinn og Chase er besti lausi leikmaðurinn.
#6: Philadelphia Eagles
Justin Fields. Leikstjórnandi Ohio State Buckeyes.
Eagles eru í áhugaverðri stöðu. Þeir eru búnir að skipta frá sér Carson Wentz til Indianapolis Colts og eftir situr 2. umferðar valrétturinn þeirra frá því í fyrra, Jalen Hurts. Hurts átti flotta spretti í fyrra en hann þarf heldur betur að bæta sig ef hann ætlar að halda starfinu. Ég er sannfærður um að þeir taki leikstjórnanda númer sex ef einhver þeirra fellur. Þetta eru ekki sömu aðstæður og Miami Dolphins eru í vegna þess að Eagles notuðu ekki valrétt númer 5 þegar þeir völdu Jalen Hurts, líkt og Dolphins gerðu þegar þeir völdu Tua.
#7: Carolina Panthers (frá Detroit Lions)
Trey Lance. Leikstjórnandi North Dakota State Bison.
Það er deginum ljósara að Panthers ætla ekki að sætta sig við Teddy Bridgewater sem aðalleikstjórnanda framtíðarinnar. Þeir færa sig því upp um einn rass til að tryggja sér spaða ásinn sinn en margt bendir til þess að Denver Broncos gætu gert sig líklega til að berjast um leikstjórnanda, verði einn slíkur laus um þetta leyti. Þess vegna þora Panthers ekki að sitja kjurir númer 8.
#8: Detroit Lions (frá Carolina Panthers)
Jaylen Waddle. Útherji Alabama Crimson Tide.
Jared Goff verður að öllum líkindum undir senter hjá Detroit Lions en ég efast stórlega um að þeir líti á hann sem framtíð sína. Hann gæti þó snúið mönnum við með frábæru tímabili en það er erfitt að sjá það gerast. Engu að síður verður afar spennandi að fylgjast með honum í nýju umhverfi og ekki beintengdan við Sean McVay. Lions geta farið í milljón áttir hérna og ég tel líklegt að þeir reyni að skipta sér neðar í röðina og eins þeir gera hér til að sanka að sér fleiri valréttum. Þeir taka besta útherjann hérna en það er erfitt að ímynda sér að félagið velji ANNAN innherja innan topp 10 (T.J. Hockenson, 2019).
#9: Miami Dolphins (frá Denver Broncos)
Kyle Pitts. Innherji Florida Gators.
Höfrungarnir koma sér aftur inn í topp 10 þegar þeir sjá að einn besti sóknarleikmaður árgangsins er enn laus. Tua þarf alla þá hjálp sem Dolphins geta veitt og eftir að hafa tekið Penei Sewell til að vernda havæjann þá snúa þeir sér að einhverjum sem getur gripið sendingar frá honum.
#10: Dallas Cowboys
Patrick Surtain II. Bakvörður Alabama Crimson Tide.
Það er ekkert leyndarmál að Cowboys sárvantar gæði í dekkningateymið sitt en þeir gerðu sitt besta í nýliðavalinu í fyrra til að auka breiddina þegar þeir tóku Trevon Diggs í 2. umferð. Það er engin skrautskrift hér og því fá Dallas menn afskaplega staðlaða útkomu hér.
#11: New York Giants
Caleb Farley. Bakvörður Virginia Tech Hokies.
New York bálvantar mannskap á sóknarlínuna en liðið rifti á dögunum samningi varðarins Kevin Zeitler, sem hefur verið besti leikmaðurinn á línunni hjá þeim síðan hann kom frá Cleveland árið 2019. Þrátt fyrir holur á línunni, þá er ekki hægt að skauta yfir þá staðreynd að liðið spilar tvisvar sinnum við Amari Cooper, CeeDee Lamb og Michael Gallup hjá Dallas Cowboys. Einnig hefur Washington styrkt útherjaherbergið sitt sem samanstendur af Terry McLaurin og Curtis Samuel. Meiri mannskapur á öftustu línuna.
#12: San Francisco 49ers
DeVonta Smith. Útherji Alabama Crimson Tide.
Stærsti missir liðsins í ár hlýtur að vera Robert Saleh. Vörnin er þó enn nokkurnveginn á sínum stað. Richard Sherman gæti allt eins samið aftur við félagið en hann er enn án félags og sömu sögu er hægt að segja um miðvörðinn Jaquiski Tartt. John Lynch gaf á dögunum tæklaranum Trent Williams nýjan samning svo það verður ekki forgangsatriði að manna vinstri tæklarann hjá 49ers í nýliðvalinu. Útherjaherbergi sem samanstendur af Smith, Samuel og Aiyuk yrði rakleiðis mest spennandi herbergið í deildinni.
#13: Los Angeles Chargers
Christian Darrisaw. Sóknartæklari Virginia Tech Hokies.
Tom Telesco hefur verið að vinna í því að byggja hreiðrið í kringum Justin Herbert en hann gaf senternum Corey Linsely á dögunum stærsta senter samning sögunnar þegar fyrrum Packers leikmaðurinn skrifaði undir 5-ára $62.5M samning. Félagið losaði sig við vörðinn Trai Turner eftir misheppnað ár en hann kom í skiptum frá Carolina fyrir seinasta tímabil. Það er því deginum ljósara að hjálp óskast á línuna í LA.
#14: Minnesota Vikings
Alijah Ver-Tucker. Sóknartæklari/vörður Southern California Trojans.
Riley Reiff og Pat Elflein eru horfnir á braut og sóknarlína liðsins lítur út fyrir að vera andskoti þunn. Vikings sóknin var ein sú besta á síðasta tímabili og því er mikilvægt að sóknarlínan veikist ekki á milli ára, sérstaklega ef þú vilt gefa Dalvin Cook séns á að spila jafn vel og hann gerði í fyrra.
#15: New England Patriots
Mac Jones. Leikstjórnandi Alabama Crimson Tide.
Ég er bálskotinn í þessari pörun. Mac Jones er ekki verri íþróttamaður en Tom Brady þegar leikstjórnandinn kom inn í deildina árið 2000. Jones er með góðan leikskilning og myndi henta vel í sókn Josh McDaniels. Jones gæti þó þurft að bíða svolítið eftir sínum séns. Meiðsli gætu hrint honum í sviðsljósið, líkt og þegar Drew Bledsoe meiddist og Brady þurfti að stökkva á svið. Cam Newton þarf að gjöra svo vel að spila eins og maður.
#16: Arizona Cardinals
Jaycee Horn. Bakvörður South Carolina Gamecocks.
Fyrir A.J. Green samningin hefði ég talið bakvörð og útherja líklegustu niðurstöðuna í 1. umferðinni hjá Cardinals. Nú er ég nánast handviss um að rétta skrefið sé að styrkja sendingadekkningu liðsins. Í mínum huga er Horn besti bakvörður árgangsins.
#17: Las Vegas Raiders
Azeez Ojulari. Skyndiliði Georgia Bulldogs.
Vörnin var aðalvandamál liðsins í fyrra en undanfarið hafa Jon Gruden og Mike Mayock verið að losa sig við eldri sóknarlínumenn liðsins. Þetta eru leikmenn á borð við Rodney Hudson og Gabe Jackson. Þá virðist forgangurinn færast yfir á sóknarlínuna í 1. umferðinni hjá Raiders. Ég trúi að þeir reyni að styrkja línuna í draftinu en ekki í 1. umferðinni. Liðið sárvantar leikmann sem getur reglulega sett pressu á leikstjórnanda mótherjans.
#18: Denver Broncos (frá Miami Dolphins)
Jeremiah Owusu-Koramoah. Línuvörður/miðvörður Notre Dame Fighting Irish.
George Paton, framkvæmdastjóri liðsins, hefur farið á kostum á frjálsa leikmannamarkaðinum og haldið Von Miller, Justin Simmons og Shelby Harris innan raða liðsins. Hann sótti einnig tvo sterka bakverði, þá Ronald Darby og Kyle Fuller. Þessar aðgerðir gera það að verkum að ekkert áberandi gat er á leikmannaskipan liðsins. Owusu-Koramoah yrði spennandi púsluspil í vörn Fangio sem gæti notað hann sem línu- eða miðvörð.
#19: Washington Football Team
Teven Jenkins. Sóknartæklari Oklahoma State Cowboys.
Washington ætlaði sér aldrei að sleppa Brandon Scherff, hægri verði, og tögguðu hann í annað skiptið á jöfnmörgum árum. Það þýðir að haugur af peningi er bundinn í hægri verðinum og þá er ekki vitlaust að finna sér ódýra lausn næstu fimm árin í annarri hvorri tæklarastöðunni.
#20: Chicago Bears
Trevon Moehrig. Miðvörður Texas Christian Horned Frogs.
Liðinu sárvantar hjálp í öftustu línu en samningi bakvarðarins Kyle Fuller var á dögunum rift. Þar fyrir utan er engin sjáanlegur frambærilegur miðvörður fyrir utan Eddie Jackson. Moehrig er fjölhæfur og getur getur spilað miðvörð eða fimmuna (e. nickel back).
#21: Indianapolis Colts
Samuel Cosmi. Sóknartæklari Texas Longhorns.
Anthony Castonzo lagði skóna á hilluna eftir seinasta tímabil og skilur eftir sig auða stöðu vinstri tæklara. Chris Ballard hefur ekki reynt að stoppa í gatið á frjálsa leikmannamarkaðinum (ennþá) en líklega var hann að vonast til að ná að landa Trent Williams, sem framlengdi við 49ers. Cosmi verður fleygt út í djúpu laugina og verður byrjunarliðsmaður í þessu Colts liði.
#22: Tennessee Titans
Gregory Rousseau. Skyndiliði Miami Hurricanes.
Jon Robinson kastaði fúlgu fjár í fyrrum skyndiliða Pittsburgh Steelers, Bud Dupree, á opnunardegi frjálsa leikmannamarkaðsins. Koma Dupree ætti að hjálpa liðinu við að setja pressu á leikstjórnendur andstæðinganna en á móti honum er Harold Landry. Landry er aðeins 25 ára gamall og gæti vel tekið skrefið en Rousseau bætist þá bara við pressuteymið því það er aldrei hægt að eiga of spikaða varnarlínu.
#23: New York Jets
Micah Parsons. Línuvörður Penn State Nittany Lions.
Parsons er að upplagi skyndiliði sem var færður niður á annað level varnarinnar hjá Penn State en það er nokkuð ljós að hann glímir við erfiðleika að spila stöðuna. Íþróttahæfileikar hans eru hinsvegar á öðru plani og nær hann oft að fela veikleika sína þannig. Ástæðan fyrir því að hann virðist vera að tapa virði þessa dagana er vegna þess að hann hefur alls ekki verið til friðs utan vallar og telja þeir sem þekkja til að strákurinn sé helst til óþroskaður. Hversu reiðubúin eru lið til að stíga inn í og rétta drenginn af?
#24: Pittsburgh Steelers
Najee Harris. Hlaupari Alabama Crimson Tide.
Ekkert hefur frést af vinstri tæklaranum Alejandro Villanueva sem hefur mannað stöðuna fyrir Steelers síðan 2015 en samningur hans rann út á dögunum. Möguleiki er á að hann semji aftur við Pittsburgh og þá er trúlegt að þeir láti vaða á hlaupara til þess að reyna að vekja hlaupaleik liðsins sem hefur varla verið samkeppnishæfur síðan 2016.
#25: Jacksonville Jaguars
Christian Barmore. Varnartæklari Alabama Crimson Tide
Urban Meyer sagði á dögunum að liðssköpun byrji alltaf á varnarlínunni. Hvert sem hann hefur farið hefur hann sett varnarlínuna í forgang. Hér sækir hann besta tæklara nýliðavalsins í tilraun til að kjöta upp nokkuð efnilega línu.
#26: Cleveland Browns
Kwity Paye. Skyndiliði Michigan Wolverines.
Andrew Berry hefur unnið gott starf við að setja saman óárennilegt lið en hann hefur styrkt öftustu línu varnarinnar töluvert á undanförnum dögum. Fyrrum Rams leikmennirnir John Johnson og Troy Hill eru mættir á svæðið og mynda flottan hóp varnarbakkara ásamt Denzel Ward, Greedy Williams og Ronnie Harrison. Paye mun spila gegnt Myles Garrett en ég held að Berry muni leggja áherslu á varnarlínuna í valinu.
#27: Baltimore Ravens
Jayson Oweh. Skyndiliði Penn State Nittany Lions.
Er Jayson Oweh mesti íþróttamaður árgangsins? Jafnvel öflugri en liðsfélagi hans, Micah Parsons? Mögulega. Myndband af Oweh hlaupa 40 jardana, í undirbúningi fyrir pro day Penn State skólans sem verður haldinn á fimmtudaginn, vakti athygli í byrjun mánaðarins en skyndiliðinn var mældur hlaupa vegalengdina á 4,38 sek sem er tími sem aðeins útherjar og bakverðir eru vanir að ná. Jayson Oweh vegur í kringum 115 kg sem gerir þetta afskaplega tilkomumikið. Hann fær séns á að staðfesta hraðann á fimmtudaginn.
#28: New Orleans Saints
Rashod Bateman. Útherji Minnesota Golden Gophers.
Þrátt fyrir spekúleringar um að Saints þyrftu að rifta samningum hægri vinstri og liðið þeirra yrði mögulega óþekkjanlegt í ár þá er staðreyndin sú að Sean Payton er enn með gríðarlega gott lið í höndunum. Að mínu viti er nauðsynlegt að efla grípararkjarna liðsins sem samanstendur af Michael Thomas, skilaranum Deonte Harris og Tre’Quan Smith. Bateman er kannski ekki ósvipaður útherji og Thomas en hann er frábær í að komast af línunni gegn pressu og er flinkur leiðahlaupari.
#29: Green Bay Packers
Dillon Radunz. Sóknartæklari North Dakota State Bison.
Það eru holur út um allt Packers liðið. Sóknarlínumenn óskast, línuverðir einnig og ég tala nú ekki um bakverði eða varnartæklara. Dillon Radunz fer beint í hægri tæklarann eftir að liðið rifti samningi Ricky Wagner. Það kæmi mér ekkert á óvart ef Brian Gutekunst skipti sér úr 1. umferðinni til að auka breiddina af valréttum í ár.
#30: Buffalo Bills
Jaelan Phillips. Skyndiliði Miami Hurricanes.
Þrátt fyrir rauð flögg vegna fjölda heilahristinga, þá geta Bills ekki litið framhjá hæfileikunum. Phillips kom inn í háskólasenuna á sama tíma og Chase Young og þá var þeim tveimur alltaf stillt upp saman sem bestu skyndiliðum nýliðaárganginsins. Buffalo gætu vel þegið að styrkja varnarlínuna.
#31: Kansas City Chiefs
Jalen Mayfield. Sóknartæklari Michigan Wolverines.
Það er algjör vöntun á tæklurum í Kanas City. Lucas Niang hlýtur að fá tækifæri á að fylla aðra stöðuna en það gæti vel farið svo að Chiefs tefli fram yngsta tæklaratvennu deildarinnar. Mayfield spilaði hægri tæklara fyrir Wolverines liðið og hefur fengið góða æfingu undanfarin ár að blokka Chase Winovich og Kwity Paye.
#32: Tampa Bay Buccaneers
Travis Etienne. Hlaupari Clemson Tigers.
Það eru ekki margar holur í liði Jason Licht. Leonard Fournette er með lausan samning og óvíst hvort hann spili aftur fyrir meistarana. Ronald Jones átti gott tímabil í fyrra en samningur hans rennur út á næsta ári svo það gæti verið sniðugt að grípa gæðahlaupara með þessum valrétti. Og það vita allir að Etienne er hlaðinn gæðum.