Valréttaröðin eflist og styrkist með hverri viku en nokkuð ljóst er að það verða New York Jets, Jacksonville Jaguars og Cincinnati Bengals sem munu skipa efstu þrjú sæti nýliðavalsins í apríl, næstkomandi. Bengals urðu fyrir því óláni að missa Joe Burrow í skelfileg hnémeiðsli með honum hvarf öll von um samkeppnishæfan fótbolta það sem eftir er af tímabili.
Sæti 4-15 eru hinsvegar síbreytileg en liðin sem skipa þau sæti í dag eru öll með 3 eða 4 sigra. Þetta svæði er kássa sem þynnist út á næstu vikum þegar við förum að sjá olíuna aðskiljast vatninu.
1. New York Jets
Við göngum útfrá þeirri hugmynd að Adam Gase og allt hans þjálfarateymi fái reisupassann frá yfirstjórn félagsins en framkvæmdastjóri liðsins, Joe Douglas, gæti þó fengið að halda starfi sínu áfram. Douglas átti gott draft í fyrra og landaði meðal annars Mekhi Becton og Denzel Mims og kæmi eiginlega á óvart ef hann skyldi þurfa að taka pokann sinn ásamt ófögnuðinum sem þjáfarar Jets liðisins eru.
Valið hér er einfalt: Trevor Lawrence.

2. Jacksonville Jaguars
Hér er annar klúbbur sem gæti verið djúphreinsaður eftir tímabilið. Sama hvort Doug Marrone haldi starfi sínu sem aðalþjálfari Jaguars eða ekki er valið einfalt fyrir Jacksonville.
Gardner Minshew var flott tæknibrella sem vakti áhuga og umtal. Minshew er ágætis spilari sem hefur aukið verðmæti sín með frammistöðu sinni síðastliðin tvö tímabil. Hinsvegar er morgunljóst að Jaguars eru ekki að fara að sleppa því að taka glæstan leikstjórnanda með þessum valrétti og eru því dagar Gardner Minshew svo gott sem taldir í Jacksonville.

3. Cincinnati Bengals
Joe “Pro” Burrow var felldur 32 sinnum í þeim 10 leikjum sem hann spilaði í vetur. Að auki át hann 33 högg í kastferli og hlaut ein alvarleg hnémeiðsl. Cincinnati Bengals sárvantar hjálp á nokkrum stöðum. Árásateymi liðsins er ábótavant, bakverðir liðsins eru ekki nægilega góðir og sóknarlínan er brandari.
Í ljósi þeirrar pressu sem Burrow var undir í leikjum liðsins og staðsetningar liðsins í nýliðavalinu þessa stundina, er ómögulegt að hugsa sér neitt annað en að taka besta leikmanninn á borðinu og styrkja veikasta hlekk liðsins.

4. Dallas Cowboys
Jerry Jones sótti CeeDee Lamb í fyrstu umferðinni í fyrra en hér fá Cowboys mikið hærri valrétt. Helstu þarfir liðsins eru varnarmegin við boltann en forgangsatriði númer eitt ætti að vera að semja við Dak Prescott til langs tíma. Í annarri umferðinni í fyrra valdi liðið bakvörðinn Trevon Diggs sem spilaði þokkalega í vetur áður en hann fótbrotnaði.
Í ár gætu þeir freistast til þess að styrkja kastdekkningateymið sitt enn frekar en ég sé þá frekar líta til varnarlínunnar og þá sérstaklega skyndiliðastöðunnar.

5. Washington F.T.
Það er hægt að benda á allar leikstöður Washington liðsins, fyrir utan varnarlínuna, og segja “ahh, þetta er ekki gott”. Þá vantar hreinlega ALLT.
Mest af öllu vantar þá leikstjórnanda því Dwayne Haskins virðist vera kominn til að vera í hundakofa Ron Rivera. Það má reikna með að Rivera hafi hendi í ákvörðunum liðsins í næstkomandi nýliðavali og því er ekki annað hægt en að líta til Trey Lance hjá North Dakota State. Lance á margt líkt með Cam Newton sem Ron Rivera þjálfaði í mörg ár. Báðir spiluðu aðeins eitt heilt tímabil sem byrjunarliðsmenn í háskóla og báðir eru stórir og stæðilegir íþróttamenn (þó Cam sé auðvitað súpermann) sem geta sótt jarda með fótunum.
Lance er, svo það sé tekið fram, mjög umdeilt viðfang í draftheimum. Margir sjá hann sem fimmta besta leikstjórnanda árgangsins en það þarf bara einn til þess að trúa því að hérna sé einhver sem gæti fundið svipað árferði og Josh Allen hjá Buffalo Bills og þá er Trey Lance 1. umferðar valréttur.

6. Los Angeles Chargers
Með tilvonandi stjörnuleikmann undir senter mætti helst benda Chargers liðinu á að styrkja sóknarlínu sína til að halda téðum leikmanni í einu lagi og auka tíma hans og þægindi í vasanum. Það er hinsvegar ekki jafn ríkur skógur þetta árið, hvað sóknarlínumenn varðar, og í fyrra þegar við sáum aragrúa tæklara tekna í efri hluta 1. umferðar.
Það væri ekki vitlaust að bæta við sig skyndiliða þar sem Melvin Ingram er bæði orðinn gamall og samningslaus eftir tímabilið. En miðað við þá leikmenn sem eru lausir á þessum tímapunkti er alls ekki vitlaust að yngja upp í bakvarðasveitinni og taka besta bakvörð árgangsins.

7. New York Giants
Það eru milljón áttir sem Giants geta farið í 1. umferðinni. Mikið veltur á því hvort Dave Gettleman verði framkvæmastjóri félagsins eftir tímabilið. Hann valdi Christian McCaffrey til Carolina Panthers á sínum tíma og síðar Saquon Barkley til Giants fyrir tveimur árum.
Gæti Kwity Paye frá Michigan komið til greina? Já, þá vantar í árásateymið sitt. Gæti Ja’Marr Chase freistað Gettleman? Hundrað prósent. Við höfum séð Devin White gera góða hluti hjá Tampa Bay í vetur en þeir tóku hann með valrétti númer fimm í seinasta nýliðavali. Í þessu platvali fara Giants sömu leið.

8. Miami Dolphins (frá Houston)
Fyrir mér liggur þessi valréttur í augum uppi fyrir Miami Dolphins. Þeir styrktu sóknarlínuna sína í síðasta nýliðavali þegar þeir tóku Austin Jackson í 1. umferð og Solomon Kindley í þeirri fjórðu.
Það kæmi mér nákvæmlega ekkert á óvart ef höfrungarnir tækju útherja Alabama, Jaylen Waddle, með þessum valrétti til að bæta flugbeittum hraða við sig. Hinsvegar hef ég ákveðið að gefa þeim Ja’Marr Chase sem greip 84 bolta í fyrra fyrir 1780 jördum en hann var ábyrgur fyrir 20 snertimarkssendingum Joe Burrow í banvænni LSU sókninni.

9. Atlanta Falcons
Samningar og slæm launaþaksmál Atlanta Falcons koma í veg fyrir að þeir geti endurræst prógramminu sínu, skipt burt Matt Ryan, Julio Jones og Jake Matthews. Það virðist vera öruggt að þessir leikmenn spili áfram fyrir Falcons á næsta tímabili og nýr þjálfari og framkvæmdastjóri þurfi að sætta sig við það að geta ekki skapað liðið í sinni mynd alveg strax.
En þangað til er margt heimskulegra en að velja framtíðar leikstjórnandann þinn og leyfa honum að taka 1-2 ár á bekknum og læra inná NFL heiminn á bakvið Matt Ryan.

10. Carolina Panthers
Það er erfitt að segja til um þennan valrétt hjá Carolina Panthers þar sem tæklararnir Taylor Moton og Russell Okung eru samningslausir eftir árið en líklega fær Moton framlengingu frá félaginu en hann hefur verið traustur hægra megin. Það virðist enginn sóknartæklari vera 10. valréttar virði eins og staðan er núna og Panthers gætu alveg hugsað sér að bæta við bakvarðasveitina sína.
Hinsvegar er Kyle Pitts, innherji Florida, laus en hann er glæsilegur íþróttamaður og frábær grípari. Margir sérfræðingar sjá hann sem topp 5 leikmann í 2021 árganginum en hann kæmi til með að hjálpa gríðarlega í kastleik Panthers á næstu árum.

11. New England Patriots
Það er engin leikstaða í Patriots liðinu sem gæti ekki þegið liðsauka en nú er hreinlega kominn tími til að veita útherjasveit Bill Belichick almennilega athygli. Jaylen Waddle er öskufljótur leikmaður sem yrði umsvifalaust langbesti útherji liðsins.
Þrátt fyrir að hafa reynt að bæta við hæfileikum í 1. umferð nýliðavalsins 2019 (N’Keal Harry) þá er útherjaherbergið tómt, kalt og illa hannað.

12. Detroit Lions
Það eru aðeins tveir útherjar undir samning árið 2021 í herbúðum Lions: Geronimo Allison og Quintez Cephus. Marvin Jones, Danny Amendola og Kenny Golladay eru allir samningslausir eftir tímabilið og líklegt þykir að ný andlit (já, Matt Patricia verður ekki áfram) vilji hreinsa til og leyfa þessum leikmönnum að labba.
Það eru því engin geimvísindi að senda hinn silkimjúka og áreiðanlega Devonta Smith beinustu leið frá Alabama til Detroit. Smith bætti á dögunum snertimarkamet Amari Cooper í SEC deild háskólaboltans þegar hann greip sitt 32. snertimark á háskólaferlinum. Leikmaður!

13. Minnesota Vikings
Líklega fáum við að sjá Kirk Cousins í eitt ár enn í það minnsta hjá Vikings og því afskaplega ólíklegt að sjá þá teygja sig í leikstjórnanda í 1. umferð nýliðavalsins. Hinsvegar bráðvantar þá menn á varnar- og sóknarlínuna.
Danielle Hunter hefur verið meiddur allt tímabilið og um stundarsakir var Yannick Ngakoue leikmaður Minnesota áður en honum var skipt til Baltimore. Það vill nefninlega svo heppilega til fyrir Vikings að skyndiliði Michigan Wolverines, Kwity Paye, er laus og væri óvitlaust hjá Rick Spielman að nýta 13. valréttinn í kauða og byggja í leiðinni grjóthart árásateymi.

14. San Francisco 49ers
Það er hægt að færa rök fyrir því að San Francisco vanti hjálp á sóknarlínuna í ljósi þess að Trent Williams er samningslaus eftir tímabilið. Einnig hafa heyrst efasemdaraddir úr herbúðum 49ers um ágæti Jimmy Garoppolo en hér er enginn leikstjórnandi í færi fyrir félagið. Zach Wilson hefur verið valinn.
Hinsvegar er bráð nauðsyn í bakvarðaherbergi liðsins. Richard Sherman, Emmanuel Moseley, Akhello Witherspoon og Jason Verrett eru allir að renna út á samning og þá er fátt um fína drætti í sveitinni.

15. Denver Broncos
Sama hvernig fer með Drew Lock og hans frammistöðu það sem eftir er af tímabilinu, þá er erfitt að sjá John Elway velja leikstjórnanda með þessum valrétti. Lock fær að öllum líkindum annað tímabil undir senter og því leita ég annað með þessu pikki.
Garrett Bolles hefur verið að spila frábærlega í vinstri tæklaranum og hefur í raun þvingað Elway til þess að framlengja við sig en hægra megin á sóknarlínunni hefur Ja’Wuan James alls ekki gengið upp. Hann spilaði ekkert í fyrra sökum meiðsla og síðan kaus hann að spila ekki í ár vegna covid. Þá er eina vitið að seilast eftir næstbesta tæklara árgangsins og sækja Rashawn Slater frá Northwestern.

16. Chicago Bears
Helsta þörf Chicago Bears er leikstjórnandi. Mitchell Trubisky verður samningslaus eftir tímabilið og verða stjórnarformenn Bears án ef létt að sjá sín stærstu mistök yfirgefa herbúðir liðsins. Mér finnst þó góður líkur á því að Bears reyni við einhvern reyndan leikstjórnanda til að koma inn og keppast við Nick Foles um byrjunarliðssæti. Hvort sem það verður Sam Darnold, Jacoby Brissett, Cam Newton eða Gardner Minshew.
Sama hvað því líður þurfa Bears að styrkja útherjasveit sína og sóknarlínu. Það er næsta víst að Allen Robinson er á förum, annars væru Bears löngu búnir að framlengja við hann. Einu útherjar liðsins undir samning á næsta ári eru Darnell Mooney, Anthony Miller, Riley Ridley og Javon Wims. Hér er því greinileg þörf.

17. Miami Dolphins
Það sem af er vetri hefur borið á gæðasnauðum hlaupurum í herbúðum Miami Dolphins. Vissulega komu Myles Gaskin og Salvon Ahmed skemmtilega á óvart en þarna er klárlega hægt að uppfæra hæfileikana.
Þessi valréttur steinliggur fyrir Miami sem bæta við sig öðrum sprengifimum sóknarleikmanni í 1. umferð nýliðavalsins. Travis Etienne er besti hlaupari árgangsins en hann hefur átt ótrúlegan háskólaferil hjá Clemson Tigers. Yfir 5700 blandaðir jardar á fjórum árum og 74 snertimörk sem er 6. besti árangur allra tíma.

18. Baltimore Ravens
Það þarf heldur betur að hrista upp á sóknarleik Baltimore Ravens. Nú þegar varnir eru farnar að spila maður á mann vörn í meiri mæli en í fyrra gegn liðinu koma vankantar sóknarinnar í ljós þar sem útherjarnir þeirra eiga erfitt með að opna sig gegn maður á mann vörn.
Þá er um að gera að finna stóran, sterkan og fljótan útherja sem er góður gegn maður á mann vörn.

19. Philadelphia Eagles
Eagles gætu glaðir boðið útherja, bakverði og miðverði velkomna til liðs við sig úr 1. umferðinni. Það er hinsvegar ein leikstaða sem hefur verið í molum í allan vetur. Það er línuvarðastaða liðsins. Nathan Gerry, Duke Reily, Alex Singleton og T.J. Edwards hafa verið mjög slappir og því hefur annað level varnarinnar verið þeirra helsti veikleiki varnarmegin.
Jeremiah Owusu-Koramoah hefur risið hratt og örugglega upp drafttöflur það sem af er ári og er einn af 3-4 línuvörðum sem eru að fá 1. umferðar umtal sérfræðinga. Owusu-Koramoah ætti að uppfæra gæði línuvarðasveitar Philadelphia samstundis.

20. Arizona Cardinals
Það gæti farið svo að tímamótapunkti verði náð eftir þetta tímabil hjá Arizona Cardinals. Báðar Cardinals goðsagnirnar eru samningslausar, Larry Fitzgerald og Patrick Peterson.
Arizona gætu vel bætt við sig bakverði eða skyndiliða þar sem Dre Kirkpatrick (CB), De’Vondre Campbell (EDGE) og Markus Golden (EDGE) eru einnig samningslausir. Skyndiliðastaðan fær að bíða betri tíma því hér fá þeir bakvörð South Carolina Gamecocks, Jaycee Horn, son fyrrum NFL útherjans Joe Horn.

21. Las Vegas Raiders
Jon Gruden vill augljóslega spila fótbolta af gamla skólanum. Kraftmikla hlaupsóknin sem Gruden sækist eftir þarfnast hörku, stærðar, og frábærrar hlaupablokkeringar, sérstaklega frá innri sóknarlínunni. Sóknarlínan þeirra er öll undir samningi árið 2021 en Richie Incognito er orðinn gamall og lúinn en hann hefur aðeins spilað tvo leiki í vetur vegna meiðsla á hásin.
Raiders fá því hér rosalega jarðýtu sem þrífst í aggresífum blokkeringum. Afi hans, Willie Davis er í frægðahöll NFL en hann spilaði fyrir bæði Vince Lombardi og Paul Brown á sínum tíma svo afastrákurinn á ekki langt að sækja hæfileikana. Þetta er alveg ekta Jon Gruden/Mike Mayock pikk.

22. Tampa Bay Buccaneers
Það verður í mörg horn að líta fyrir Jason Licht eftir tímabilið. Leikmenn á borð við Chris Godwin, Shaquil Barrett, Lavonte David, Ndamukong Suh, Antonio Brown og Steve McLendon eru allir að verða samningslausir.
Það fer því svolítið eftir því hvernig Licht forgangsraðar peningnunum en ljóst er að hjálp vantar á varnarlínuna, þó Suh framlengi við félagið.

23. Indianapolis Colts
Philip Rivers er aðeins á eins árs samning og því þar að huga að framtíð leikstöðunnar. Varnarlega eru Colts í góðum málum en kjósi þeir að leysa leikstjórnandamál sín á annan hátt en í nýliðvalinu væri ákjósanlegt fyrir þá að beina athygli sinni að sóknartæklarastöðunni eða útherjanum.
Hinsvegar læt ég þá hafa leikstjórnanda með þessum valrétti. Kyle Trask er leikmaður sem myndi passa flott fyrir aftan þessa sóknarlínu þar sem hann er ekki hreyfanlegasti leikstjórnandinn á markaðinum. Hann er þó fínn íþróttamaður og ljóst að þú færð meiri hreyfingu frá honum en nokkurn tíman Rivers. Trask er kominn með 31 snertimark í 7 leikjum fyrir Florida og er með 70% sendingaheppnun.

24. Cleveland Browns
Helst má nefna leikstöður varnarmegin við boltann sem Browns gætu freistast til að styrkja í 1. umferð næsta nýliðavals. Hægt er að færa rök fyrir uppfærslum í línuvarða-, bakvarða- og skyndiliðasveitum liðsins.
Ég sé Browns fyrir mér taka þá ákvörðun að finna varnarmann á móti Myles Garrett en Olivier Vernon verður samningslaus eftir tímabilið. Garrett fær mikla athygli sóknarlínu andstæðingsins og því er virkilega verðmætt að geta sett pressu á veikari svæði varnarveggsins og því tilvalið að velja Jayson Oweh frá Penn State. Oweh hefur alla líkamlega burði sem þú vilt hafa í skyndiliða en þarfnast meiri reynslu og gæti lært helling frá Garrett.

25. New York Jets (frá Seattle)
Með öðrum valrétti Jets er hrikalega freistandi að gefa þeim tæklara eða aðra hjálp á sóknarlínuna til að vernda Trevor Lawrence. Það er hinsvegar ekki hægt að líta framhjá depurðini sem skyndiliðasveit liðsins er. Liðið er í 30. sæti þegar kemur að pressu á leikstjórnendur andstæðinga með 70 talsins.
Skyndiliði Texas Longhorns, Joseph Ossai, hefur verið algjör pest í bakvelli mótherjanna það sem af er vetri en hann hefur einnig reynslu af því að spila á öðru leveli varnarinnar.

26. Green Bay Packers
Þrátt fyrir gæðahalla í gríparasveit Green Bay hefur sóknin verið öflug í ár og vörnin um leið verið akkilesarhæll liðsins. Jaire Alexander er súperstjarna í bakverðinum en það er hlaupavörn Packers sem er áhyggjuefni félagsins. Það er ábyggilega freistandi að nýta valréttinn í bakvörð eða sóknartæklara en hér læt ég Green Bay fá varnarlínumann til að hjálpa Kenny Clark að stoppa hlaupið.

27. Tennessee Titans
Jadeveon Clowney er á förum en sú tilraun hefur ekki gengið neitt svakalega vel. Titans þurfa nauðsynlega að finna sér áhrifavalda í þessa vörn sem hefur verið glötuð í vetur og er í 26. sæti varnar DVOA stuðuls Football Outsiders.

28. Buffalo Bills
Eins og Titans vörnin hefur vörn Buffalo Bills ekki náð að fylgja eftir frammistöðu síðasta veturs. Það er því gáfulegt að grípa bakvörð Georgia Bulldogs, Eric Stokes, sem enn er á borðinu og skoða svo línuverði og skyndiliða í næstu umferðum.

29. Jacksonville Jaguars (frá Los Angeles)
Laviska Shenault, D.J. Chark og James Robinson verða til staðar næstu árin fyrir Justin Fields og sóknarlínan er í fínu standi fyrir utan vöntun í vinstri tæklarann. Það er einmitt sú átt sem ég fer með seinni valrétt Jaguars í 1. umferðinni.
Varnarlega vantar auðvitað helling í þetta lið en þeir ættu að geta lokkað til sín spilara á opna leikmannamarkaðinum í mars eða hreinlega notað restina af valréttunum sínum í varnarmenn.

30. Kansas City Chiefs
Kansas City Chiefs þurfa hjálp á sóknarlínuna og geta slegið tvær flugur í einu höggi með Alijah Vera-Tucker. AVT er sóknarvörður sem hefur verið að leysa af sem vinstri tæklari í sóknarlínu USC vegna meiðsla. Hvort Brett Veach sjái AVT sem vörð eða tæklara verður að koma í ljós.

31. New Orleans Saints
Saints gætu uppfært innherjastöðuna í ljósi þess að Jared Cook er samningslaus eftir tímabilið og gæti Pat Freiermuth komið til greina. Leikstjórnandastaðan er einnig stórt spurningamerki og Mac Jones myndi henta frábærlega inn í sóknarstíl liðsins en Zaven Collins hefur verið að rísa hratt og örugglega upp drafttöflur um allan heim.
Collins er stór og stæðilegur en umfram allt virkilega hreyfanlegur varnarmaður sem getur leyst allskonar hlutverk í vörninni. Hvort sem þú vilt blitza honum, hafa hann í sendingadekkun eða hreinlega í stöðu skyndiliða, þá getur hann gert það.

32. Pittsburgh Steelers
Alejandro Villanueva er samningslaus en hann er vinstri tæklari Steelers og ég get séð Pittsburgh leita leiða til að finna arftaka hans í nýliðavalinu. Það koma 3-4 tæklarar til greina hérna en ég tippa á þann yngsta af þeim, Jalen Mayfield, tæklara Michigan Wolverines.
