Ég veit, ég veit. Þetta er fullsnemmt.
Leikvika sjö er nýafstaðin og nóg eftir af NFL tímabilinu. Það eru hinsvegar nokkur lið sem að reyna að tryggja sér háa valrétti og hafa lítinn sem engan áhuga á nútíðinni. Skiljanlega. Þess vegna er kominn tími til að skoða hvað er í boði fyrir lið í komandi nýliðavali.
Í þessari æfingu ákvað ég að spila þetta útfrá því hvað ÉG myndi gera ef ég sæi um nýliðavalið fyrir liðin 29 sem eiga valrétt í fyrstu umferð. Ég læt fylgja með stuttar útskýringar á ákvörðunum mínum.
Hafa ber í huga að fáir háskólaboltaleikir hafa verið spilaðir sökum covid og því margir valréttir sem munu virðast út í hött seinna meir. Ég lifi með því.

Það bendir allt til þess að Jets muni eiga fyrsta valréttinn í næsta nýliðavali og stærstu verðlaunin eru Trevor Lawrence, leikstjórnandi Clemson. Lawrence gæti þó ákveðið að spila annað tímabil í háskóla eða jafnvel gera eins og John Elway og Eli Manning gerðu á sínum tíma: að neita að spila fyrir félagið (Jets í þessu tilfelli) sem á fyrsta valréttinn og þvinga Jets til að skipta sér í burtu.

Minshew Mania var skemmtileg. En svo virðist vera að liðið muni taka leikstjórnanda í fyrstu umferð og eftir úrslit sjöundu leikviku eiga Jaguars annan valrétt nýliðavalsins. Justin Fields er augljós kostur fyrir Jacksonville og alls ekki slæmur.

Hérna skoðaði ég möguleikann á að skipta burt Matt Ryan og taka Trey Lance en það er eiginlega ómögulegt fyrir Atlanta að skipta Ryan eins og samningur hans er uppbyggður. Þeir endurtaka því leikinn frá því í fyrra og taka aftur bakvörð. Í þetta skiptið velja þeir besta bakvörð landsins í Patrick Surtain sem spilar fyrir Alabama. Þessi gæti orðið vel góður.

Ég var ekki tilbúinn að láta Daniel Jones labba plankann heldur vill ég sjá hann fá annað tímabil. Í fyrra völdu Giants tæklarann Andrew Thomas í fyrstu umferð en hann hefur átt erfitt uppdráttar hingað til. Hinsvegar þarftu tvo tæklara í byrjunarliðið og Penei Sewell er spikuð fyrstu verðlaun. Sewell er líklega besti tæklari sem nýliðavalið hefur séð síðan Joe Thomas. Þessi er nú þegar ofurstjarna.

Með fyrri valrétti sínum taka Miami Dolphins Micah Parsons, línuvörð frá Penn State. Parsons er langbesti línuvörður árgangsins en hann byggður fyrir nútíma fótbolta. Hann er þó enginn hybrid blendingur heldur er hann stór, sterkur og skruggu fljótur. Það er ekkert sem þú getur ekki beðið hann um.

Minnesota Vikings velja sér leikstjórnanda framtíðarinnar með sjötta valrétti fyrstu umferðar. Kirk Cousins hlýtur að vera á útleið fljótlega og Lance gæti þess vegna setið á bekknum fyrsta tímabilið sitt á meðan skrifstofan reynir að losa sig við Cousins en ég vil sjá þennan spila strax. Hann átti stórfenglegt tímabil í fyrra en hefur ekki fengið færi á að sýna sig í ár vegna faraldursins.

Það er lykilatriðið fyrir Bengals að tryggja heilsu Joe Burrow og þess vegna velja þeir skyndiliðann Gregory Rousseau frá Miami. Ekki alveg. Málið er að á þessu svæði í nýliðavalinu virðist ekki vera gott verðgildi á sóknartæklurum. Ég ætla ekki að láta Bengals fá bara einhvern sóknarlínumann þegar þeir geta bætt við sig besta skyndiliða árgangsins en þeir þurfa sárlega hjálp á varnarlínuna. Vonandi finnur skrifstofan 1-2 reynda sóknarlínuleikmenn til að semja við í sumar og gæti svo valið sóknarlínumenn í næstu umferðum.

Hér gef ég mér það að Dak Prescott fái samninginn sinn en vörn Cowboys hefur verið á milli tannana á fólki undanfarið og af góðri ástæðu. Hana þarf að bæta hressilega og hér gef ég Dallas einn af topp bakvörðum þessa árgans, Caleb Farley frá Virginia Tech háskólanum. Farley er stór og stæðilegur bakvörður sem spilaði sem leikstjórnandi í high school.

Besti útherji árgangsins endar hjá Washington. Hérna ímyndaði ég mér að Ron Rivera og félagar myndu sækja sér leikstjórnanda á borð við Sam Darnold, Matt Stafford, Matt Ryan, Kirk Cousins eða annan reyndan leikmann. Topp þrír leikstjórnendur árgangsins eru líka farnir svo ég vildi ekki teygja mig of djúpt til að fullnægja þörfum klúbbsins. Hér kvartar enginn yfir Chase-McLaurin tvennunni. Já takk.

Valið stóð á milli innherja, útherja og sóknarlínunnar. Það þarf hinsvegar að byggja upp sóknarlínuna frá senter og út til vinstri en Mike Pouncey verður samningslaus eftir tímabilið. Wyatt Davis spilar vörð fyrir Ohio State og gæti orðið þess virði að taka í topp 10. Virkilega tilkomumikill íþróttamaður sem fékk fótboltagen frá afa sínum sem er í frægðahöll NFL.

Þrátt fyrir ökklabrot um daginn mun Jaylen Waddle fara í fyrstu umferð nýliðavalsins. Waddle er með pedalann í gólfi allan leikinn. Hann er öskufljótur og akkúrat það sem Patriots þurfa, útherja.

Denver vörnin hefur verið góð það sem af er en hennar helsti veikleiki er í línuverðinum. A.J. Johnson er frábær en þarf félaga sem getur sinnt sendingadekkningu og Moses ætti að geta leyst það hlutverk. Hörku línuvörður frá Alabama.

Shaun Wade er bakvörður frá Ohio State háskólanum sem dró sig úr seinasta nýliðavali og ákvað að spila eitt ár til viðbótar fyrir Ohio State. Líklega var það gert til að efla virði sitt og hér fer hann númer 13 til Carolina Panthers sem völdu einungis varnarmenn í seinasta nýliðavali. Wade hefur verið að spila slot bakvörð undanfarin ár hjá Ohio State en ætli hann fái ekki fleiri snöpp á kantinum í ár í ljósi þess að Jeff Okudah er nú kominn í NFL deildina.

Miami eru annað árið í röð með tvo fyrstu umferðar valrétti á sínum snærum og með seinna pikkinu sínu gef ég þeim útherja Purdue, Rondale Moore. Moore kom hressilega á óvart á sínu fyrsta háskólatímabili árið 2018 þegar hann greip fyrir 1258 jarda og 12 snertimörk. Hann meiddist þó illa á sínu öðru ári og spilaði aðeins fjóra leiki. Moore er ekki ósvipuð týpa og Brandon Aiyuk og Laviska Shenault þar sem hann er öflugur að búa til jarda eftir grip. Spennandi vopn fyrir Tua.

DeVonta Smith grípur allt. Hann spilaði með Henry Ruggs og Jerry Jeudy hjá Alabama í fyrra og hætti á seinustu stundu og dró nafn sitt til baka úr nýliðavalinu í fyrra. Smith er nokkuð léttbyggður en er sterkari en útlitið segir til um. Hrikalega flott vopn.

Hér bæta Raiders við árásarteymið sitt með Kwity Paye frá Michigan. Paye er þykkur skratti en hans helsti ókostur er hve stuttur hann er. Hann er þó hraunsterkur og getur sprengt upp sóknarlínur á augabragði.

Hérna veltur allt á hvernig 49ers takast á við Trent Williams eftir tímabilið. Framlengi þeir við hann vil ég sjá þá styrkja miðjuna á sóknarlínunni sinni. Senterinn Creed Humphrey gæti verið rétti maðurinn í verkið en hann er með glímu bakgrunn.

Mér leist ekki á að teygja mig eftir leikstjórnanda með þessum valrétti fyrir Saints. Það var freistandi en ég ákvað að gefa þeim langbesta grípandi innherja árgangsins. Pitts er hrikalega öflugur í sendingaleiknum en þarf að setja vinnu í blokkeringarnar ætli hann sér að verða alhliða innherji.

Þetta varð að gerast. Útherji fyrir Carson Wentz og Eagles sóknina. Þetta var alls ekki flókið dæmi og Rashod Bateman er vel þess virði á þessum stað í fyrstu umferð. Hann spilar fyrir Minnesota og myndi skapa glæsilega tvennu með Jalen Reagor.

Hérna er á ferðinni hæfileikaríkur skyndiliði frá Penn State. Oweh þarf að springa hressilega út til að eiga séns á að verða fyrstu umferðar valréttur og hérna ætla ég að veðja á þá útkomu hjá stráknum. Oweh átti ágætis tímabil í fyrra en þarf að sýna bætingar í leik sínum í ár. Kannski full erfitt á tímum heimsfaraldurs? Colts þurfa að bæta við í árásarteymi sitt og Oweh gæti orðið sú viðbót.

Patrick Peterson lifir ekki að eilífu og Cardinals vörnin gæti vel þegið hjálp á þriðja leveli varnarinnar. Tyson Campbell spilar úti á kanti sem bakvörður í vörn Georgia Bulldogs. Arftaki Peterson?

Annar leikmaður sem hætti við fyrir nýliðavalið í fyrra og ákvað að taka annað háskólaár er Alex Leatherwood, vinstri tæklari Alabama Crimson Tide. Það þarf að efla línuna fyrir framan Justin Fields og því steinliggur þetta val.

Það þarf að taka til sóknarmegin í Chicago. Hvort sem Matt Nagy er vandamálið eða ekki, þá ákvað ég að velja nýjan leikstjórnanda fyrir félagið. Nick Foles og Mitch Trubisky verða ekki mikið lengur í herbúðum liðsins og Trask átti fínt ár í fyrra með Florida en hefur farið gríðarlega vel af stað í ár og hlutabréfin hans rísa hratt með hverjum leiknum. Zach Wilson og Brock Purdy komu líka til greina hérna.

Trent Murphy er að verða samningslaus og Bills sárvantar stöðugt árásarteymi. Carlos Basham yngri býr yfir öflugum mótor sem stoppar ekki. Bills vörnin hefur verið grunsamlega slæm í vetur og passar þetta púsl því glæsilega.

Þessi línuvörður hefur allt til brunns að bera til að veita Micah Parsons samkeppni um besta línuvörð deildarinnar eftir nokkur ár. Þó McGrone sé ekki kominn á sama stall og Parsons átti McGrone glæsilegt annað ár með Michigan í fyrra. Nú fær hann tækifæri til að feta í fótspor Devin Bush sem fór númer 10 til Steelers árið 2019.

Mekhi Becton hvað? Faalele er ástralskur strákur sem er tiltölulega nýbyjaður í amerískum fótbolta en er með rúgbí bakgrunn. Hann er rúmir tveir metrar á hæð og vegur um 180 kíló! Ofan á það er hann rosalegur íþróttamaður og væri virkilega spennandi að sjá hann taka við vinstri tæklaranum og mynda eitt mest spennandi tæklaraparið í deildinni með Tristan Wirfs.

Hér gef ég Jets sóknartæklara frá Northwestern til að para með Mekhi Becton fyrir framan Trevor Lawrence. Næsta mál á dagskrá er að sækja grípara fyrir Lawrence, hvort sem það er innherji eða útherji.

Þetta þarf að gerast. Packers verða að sækja sér annan almennilegan útherja eftir að þeir framlengja samningi David Bakhtiari. Marshall spilar fyrir LSU prógrammið og hefur alla burði til verða fyrstu umferðar leikmaður.

Tennessee sárvantar varnarenda sem getur skapað pressu en Jadeveon Clowney og Vic Beasley eru báðir samningslausir eftir tímabilið. Hutchinson hefur litla reynslu en hann spilaði 13 leiki í fyrra með Michigan en hérna er ég að gera ráð fyrir að hann eigi gott tímabil í árásarteymi Michigan ásamt Kwity Paye.

Christian Barmore er varnartæklari sem spilar fyrir Nick Saban hjá Alabama. Hann er næstur í langri röð varnartæklara sem eru valdir inn í NFL deildina. Í ár sáum við Raekwon Davis komast inn í deildina, Quinnen Williams þar áður og Daron Payne og Dalvin Tomlinson á undan því. Nokkrir öflugir varnarlínumenn verða samningslausir hjá Ravens eftir tímabilið og því kjörið tækifæri að sækja sér einn framtíðarsleða á línuna.

Chiefs vantar hjálp á sóknarlínuna og taka hérna Samuel Cosmi, vinstri tæklara Texas Longhorns. Það styttist í að skipta þurfi Eric Fisher út en hann verður samningslaus eftir næsta tímabil. Líklega hefðu Chiefs sætt sig við senter eða vörð hérna en Cosmi er of verðmætur hérna í lok fyrstu umferðar.

Hérna gef ég Pittsburgh Steelers arftaka Tua Tagovailoa hjá Alabama. Mac Jones er búinn að vera rosalegur í vetur og eins og hjá Kyle Trask hækkar verðmat Jones með hverjum leiknum. Alabama eru auðvitað með glæsilegt sóknarlið að venju svo ef fólk ætlar að stinga gat á Jones blöðruna útaf þeirri ástæðu, þá verður að gera það sama með Tua. Eftir fimm leiki er Jones kominn með rétt tæpa 2000 kastjarda, 78,8% sendingaheppnun, 12 snertimörk og 2 tapaðar sendingar.