Loksins er plat vals tímabilið komið á fullt en spekingar vestanhafs hafa verið duglegir við að negla út sínum fyrstu plat völum fyrir 2020 nýliðavalið.
Eins og þið sjáið er hérna bófaleg tilraun til að íslenska hugtakið mock draft en ég er orðinn þreyttur á að nota nýliðavalsspá til að koma orðum að þessu. Ég stend og fell með þessari tilraun.
Í gær hitti leikstjórnandi Alabama Tua Tagovailoa fréttamenn og tjáði sig um meiðslin og framtíð sína. Hann ákvað sig hvorki af eða á með draftið en líklegra þykir þó að hann skrái sig í nýliðavalið en að snúa til baka fyrir lokaárið sitt hjá Alabama.
Hérna er stutt grein eftir bæklunarskurðlækni sem segir að sama hvað mun Tua á endanum þurfa að díla við gigt og gæti á endanum þurft að skipta alfarið um mjöðm. Þetta er því nokkuð yfirvofandi staða sem strákurinn er í og ljóst að hann tapar bara pening á að spila áfram fyrir Alabama í ljósi þess að líftími hans í NFL deildinni er aldrei að fara að vera svakalega langur.
Ég var að fara yfir plat völin frá því í fyrra og það er skemmtilegt að sjá hvernig útkoman var en ég sendi frá mér fjórar spár í það heila. Daniel Jones, QB frá Duke, kom heldur betur óvæntur inn sem og Clelin Ferrell, edge rusher frá Clemson. Greedy Williams og D.K. Metcalf hríðféllu og voru valdir í annarri umferðinni en þeim var oft spáð vali innan topp 10.
Hérna er fyrsta platvalið mitt (kannski er þetta betra sem eitt orð?) en það verður gaman að skoða þróunina á hlutunum því þó háskóla tímabilið sé búið, þá eru skálaleikirnir eftir og margt mun koma til með að breytast en leikmenn eiga eftir að gefa kost á sér í valið eða ákveða að taka annað ár í háskóla, þar sem það á við.
