Lokaútgáfa platvalsins er nýbökuð, ilmandi og brakandi fersk! Ég hrærði saman tveggja umferða platval sem inniheldur sjö skipti í fyrstu umferð og nokkra óvænta valrétti.
Til að stytta lesturinn og halda boltanum rúllandi tek ég ekki fram þá 2021 valrétti sem lið senda frá sér eða taka til sín í þessu nýliðvali. Þegar þið sjáið skipti sem virðast ósanngjörn þá getiði ímyndað ykkur að einn eða fleiri 2021 valréttir séu í spilinu.
1. umferð

Cincinnati velja Joe Burrow og fá sinn mann undir senter. Framtíðar leikstjórnandi sem átti besta tímabil í sögu háskólaboltans með LSU Tigers á seinata tímabili. Böllur.

Mikið verið rætt um að Washington séu ekki hrifnir af Dwayne Haskins en þeir eru í flottri stöðu hérna til að velja nýjan leikstjórnanda en hér taka þeir besta varnarmann nýliðvalsins í Chase Young sem mun verða franchise skyndiliði í D.C.

Risa skipti! Chargers taka breiðan séns á því sem eftir er af skrokknum hans Tua Tagovailoa með því að færa sig upp um þrjá rassa í röðinni. Þeir yfirbjóða Miami menn og láta Detroit fá valréttinn sinn númer sex, 3. umferðar pikk í ár og sterkt framtíðarpikk.

Jarðýtublokkarinn Mekhi Becton frá Louisville fullkomnar hér upprisu sína rétt eftir páskana en hann var ekki inní 1. umferðar myndinni fyrir 3-4 mánuðum. Fyrsti sóknartæklarinn farinn og Gettlemen nælir sér í mannplánetu til að verja Daniel Jones.

Miami nær ekki sínum manni en kannski var það aldrei planið? Ætli Miami hafi tekist að framkalla og viðhalda stærsta reykskýi sögunnar? Stórt áfall fyrir bróðurpart höfrungasveitarinnar og óvæntur hnefi í nefið á þeim sem hafa látið sig dagdreyma um Tua. Justin Herbert er með sprengjuvörpu fasta við hægri öxlina á sér og fær hérna flottan stað til að rækta sína kosti og galla.

Lions velja hér bakvörðinn Jeffrey Okudah frá Ohio State en þeir skiptu burt sínum helsta bakverði, Darius Slay, fyrr í mánuðinum. Okudah er skotheldur varnarmaður og þessi valréttur steinliggur og tryggir Lions einnig 1. umferðar pikk á næsta ári.

Cleveland getur ekki setið á dreng sínum og hringja í Carolina og láta þá hafa tíunda valréttinn sinn í ár, 3. umferðar pikkið sitt og framtíðarpikk til að tryggja sér framtíðartæklarann sinn, Jedrick Wills frá Alabama. Wills og Conklin manna nú tæklarastöðurnar í Cleveland og veita Baker Mayfield um leið aukna öryggistilfinningu.

Hér með kafnar allt tal um útherja til Arizona í fyrstu umferð. Þeir sóttu sér DeAndre Hopkins fyrr í mars og völdu Isabella og Butler í seinasta nýliðavali og telja sitt útherja herbergi full sparslað og málað. Þeir taka hér gríðarlegan íþróttamann frá Iowa, Tristan Wirfs sem spilaði hægri sóknartæklara í háskóla en gæti vel spilað vinstra megin og jafnvel átt farsælan feril sem vörður. Bingó í sal.

Nú þegar félagið hefur náð samkomulagi við Tom Brady má alls ekki fömbla í nýliðavalinu. Mikilvægasta atriðið er að negla sóknartæklara til að þétta línuna fyrir Brady og þrír af fjórum bestu tæklurum valsins voru þegar farnir og engar líkur á að Tampa gæti beðið og vonast til að Thomas myndi falla til þeirra númer 14. Þeir skipta frá sér 1. og 2. umferðar valréttum í ár fyrir valrétt númer níu í eigu Jacksonville.

Matt Rhule og félagar sitja sveittir en skítaglottandi þegar í ljós kemur að fjölhæfi varnarguðinn Isaiah Simmons frá Clemson er laus hérna. Carolina eru í einskonar endurbyggingu og færa sig neðar, sanka að sér verðmætum og ná samt að taka einn besta leikmanninn í ár. Það er eins og það er.

New York Jets panikka þegar þeir sjá að fjórir bestu sóknartæklararnir eru horfnir en George Fant og Chuma Edoga þurfa því að standa vörð á næsta tímabili – Sam Darnold til mikillar ánægju. Liðið er stútfullt af götum og hér sækja þeir sér næstbesta skyndiliðann í valinu frá LSU, K’Lavon Chaisson. Mikið efni sem gæti gert það gott næstu árin.

Besti útherji árgangsins fer til Las Vegas Raiders númer 12. Jon Gruden og Mike Mayock eru hæstánægðir að sjá sitt helsta target enn laust og grípar hlaupaleiða séníið frá Alabama. Flott pikk sem mun manna ásinn í Las Vegas um ókomin tímabil.

Kyle Shanahan elskar hraða og fær hér mesta hraðann. Eftir að hafa hitt nautið í augað með Deebo Samuel valréttinum í fyrra reynir John Lynch að para þverspila snilld Samuel við djúp-ógn Ruggs sem mun koma til með að þvinga varnir andstæðinga til að verja öll svæði vallarins. Skál!

Jacksonville skiptu Calais Campbell frá sér og gætu þegið aðstoð innst á varnarlínunni en Derrick Brown er skrímsli sem getur valdið allskonar usla á bardagalínunni. Jaguars fengu 2. umferðar valrétt Tampa ásamt þessu pikki og eiga því nóg púður til að gera eitthvað óvænt.

CeeDee Lamb fellur til Denver númer 15 en þeim bráðvantar aðra ógn andspænis Courtland Sutton. Drew Lock virðist vera búinn að gera nóg til að heilla Elway og Fangio en þeir reikna með honum sem byrjunarliðsmanni á næsta tímabili. Hér gefa þeir honum eitt besta sóknarvop árgangsins.

Þar sem Chaisson var ekki í boði einfaldast val Falcons manna hérna númer 16. C.J. Henderson er stórkostlegur íþróttamaður með fullkominn bakvarðar skrokk. Hann nýtur sín best í maður á mann dekkningu og kemur til með að stíga beint inn í byrjunarliðið hjá Atlanta eftir brottför Desmond Trufant.

Búmm! Þar sem engin leið er að komast að því hvað New England er að hugsa hverju sinni þegar kemur að nýliðavalinu að þá kemur þetta pikk jafnmikið á óvart og Gylfi Ægis að troða upp á Kíkí Queer Bar. Bill Belichick sendir Dallas pikk 23, 3. umferðar valrétt í ár og framtíðarpikk til að klifra upp töfluna og velja leikstjórnanda Oklahoma, Jalen Hurts. Hurts er yfirleitt talinn líklegri til að vera draftaður í annarri umferð en það þarf bara einn framkvæmdastjóra sem er ástfanginn og svona hlutir geta gerst.

Það hefur verið mikið fyrstu umferðar suð í kringum hægri sóknartæklara Georgia, Isaiah Wilson en hann varði Jake Fromm í vetur líkt og Andrew Thomas sem fór til Tampa áðan. Suðið reynist á rökum byggt og Miami sækja sér sóknarlínu hjálp fyrir Justin Herbert.

Raiders stöðva frjálsfall Javon Kinlaw en þetta er risadólgur með mikla hæfileika Kinlaw er töluvert betri að ná til leikstjórnanda mótherjans heldur en Derrick Brown en þetta er þvílíkur fengur fyrir Las Vegas. Jeudy og Kinlaw í fyrstu umferð ætti að gleðja svartgrá hjörtu.

Jacksonville nota Rams pikkið sitt til að fylla skarð Jalen Ramsey (eða A.J. Bouye) og næla sér í LSU bakvörðinn Kristian Fulton. Glæsilegt val sem ekki er hægt að setja út á. Jaguars á róli og eru komnir með Derrick Brown og Kristian Fulton. Veisla.

Philadelphia sitja rólegir og næla sér í Justin Jefferson frá LSU. Virkilega smekklegur leikmaður sem spilaði mikið í hólfinu hjá LSU í vetur en ætti ekki að eiga í erfiðleikum með að spila út við hliðarlínu hjá Eagles kjósi þeir það.

Minnesota skiptu Stefon Diggs í burtu frá sér á dögunum og finna hér galna blöndu af hæð, styrk og hraða í Denzel Mims frá Baylor háskólanum. Þetta er strákur sem er búinn að vera á mikill uppleið í njósnaheiminum síðan tímabilið kláraðist hjá honum en hann hefur minnt hressilega á sig á Senior Bowl og NFL Scouting Combine. Miklir möguleikar.

Dallas þurfa að stykja baksveitina sína og velja hér fyrsta miðvörðinn í ár, Xavier McKinney frá Alabama. McKinney getur allt og hefur allt til brunns að bera til þess að verða stórfenglegur leikmaður.

Þrátt fyrir að leikstjórnandi sé freistandi fyrir New Orlenas með þessum valrétti þá snýst allt um að vinna í ár og línuvörðurinn Patrick Queen hjálpar liðinu um leið og hann stígur inn á völlinn í fyrstu keppnisumferð NFL deildarinnar í september.

Stefon Diggs pikkið skilar Minnesota Vikings bakverðinum Jeff Gladney sem fer viðstöðulaust í byrjunarliðið en Vikings misstu Waynes, Rhodes og Alexander í viðskiptaglugganum. Bergmálið við komu Gladney er ærandi.

Höfrungarnir fullkomna sóknarmenninguna með sínum þriðja valrétti í fyrstu umferð og velja hlauparann J.K. Dobbins frá Ohio State. Öflugur hlaupari sem mun taka bróðurpartinn af hlaupatilraunum Miami í vetur. Jordan Howard fær það sem til fellur.

Lions nota púðrið frá skiptunum við Chargers til að færa sig uppúr annarri umferð og inn í lokin á fyrstu umferð þar sem þeir velja varnarlínumanninn Ross Blacklock frá TCU. Matt Patricia fær hér alvöru hólk til að þétta línuna hjá sér.

Baltimore fanga ákvaft þegar línuvörðurinn Kenneth Murray fellur í fangið á þeim en Murray þarf þónokkra fínpússun þótt hann sér flottur íþróttamaður með rosalegan sprengikraft sem er frábær niður brekkuna (e. downhill: í átt að varnarlínu/hlaupara).

Líkt og Lions skipta Jaguars sér uppí fyrstu umferð til að sækja miðvörðinn Grant Delpit frá LSU. Jacksonville senda 2. umferðar valréttinn sem þeir fengu frá Tampa, 3. umferðar valrétt og framtíðarpikk til Tennessee og tryggja sér flottan frjálsan miðvörð. Heilög varnarþrenna í fyrstu umferð hjá Jaguars.

Þetta pikk hefur að ég held ekkert breyst frá fyrsta platvali hérna á Leikdegi. Reagor hefur það sem Packers vantar og það er hraður útherji sem getur sprengt upp varnir bæði með djúpum gripum og jördum eftir grip, hvort sem það er eftir slant-leið eða ómerkilega screen sendingu.

Óvissan sem fylgir bata Ben Roethlisberger þvingar Pittsburgh hér til að skipta sér upp í fyrstu umferðina og sækja leikstjórnandann Jordan Love frá Utah State. Love fengi 1-2 ár undir Roethlisberger skildi hann ná fullum bata, annars verður honum kastað út í djúpu laugina líkt og Mason Rudolph og Duck Hodges fengu að finna fyrir í vetur. Love átti frábært 2018 tímabil en pöntaði hlutabréfunum sínum í ár. Hæfileikarnir eru þó til staðar og Steelers telja sig geta náð því besta fram í stráknum.

Gríðarleg ósanngirni að einn öflugasti sóknarmaður háskólaboltans seinstu þriggja ára endi hjá meisturum Kansas City en raunveruleikinn getur verið fjöldamorðingi. Hérna birtist hann í formi vonleysis hjá mótherjum Chiefs næstu árin en þetta pikk fjölfaldar leiðirnar sem Andy Reid getur kramið hjarta andstæðinga sinna.
2. umferð

Bengals tóku Jonah Williams í fyrstu umferð í fyrra en hann missti af seinasta tímabili vegna aðgerðarinnar sem hann fór í stuttu eftir nýliðvalið. Cincinnati taka hér annan sóknartæklara sem, að öllum líkindum, myndi manna vinstri sóknartæklarann og Williams tæki hægri tæklarann á sig. Það þarf að verja Joe Burrow.

Philip Rivers er á aðeins eins árs samningi og Indianapolis er ekki með neinn leikstjórnanda undir samningi árið 2021 svo þetta er augljós hola í liðinu. Eason til Colts.

Fyrsti senterinn valinn fer til Seattle en þá vantar alla þá hjálp sem þeir geta fundið þessa dagana. Liðið þeirra er þokkalega í stakk búið en mikilvægt er fyrir þá að bæta við sig allavega tveimur sóknarlínumönnum í þessu nýliðavali. Ruiz er besti senterinn í þessu drafti og mun strax bæta línuna hans Wilson.

Giants missa að öllum líkindum Markus Golden og semja líklega ekki við Jadeveon Clowney en þeir fylla það skarð með skyndiliðanum Yetur Gross-Matos frá Penn State. Líkamleg skepna sem gæti orðið svakalegur af línunni með flottum bætingum næstu árin.

Chargers fylla hér skarðið sem Russell Okung skilur eftir sig en Chargers sömdu nýverið við hægri sóknartæklarann Bryan Bulaga og tryggja sér hér framtíðar vinstri tæklara í Ezra Cleveland frá Boise State. Tua þarf á allri hjálp að halda ef hann ætlar að nota mjöðmina eitthvað eftir NFL ferilinn.

Carolina Panthers velja yngri bróður Stefon Diggs, Trevon Diggs frá Alabama númer 38. Fyrrum útherji sem færði sig yfir í bakvörðinn fyrir nokkrum árum. Á ýmislegt ólært en hæfileikarnir eru til staðar.

Jatsí! Dolphins tryggja sér næstbesta senter árgangsins í Lloy Cushenberry sem stóð sig vel í vetur að snappa boltanum á Joe Burrow. Hér fær hann tækifæri á að vinna með Justin Herbert í Flórídasólinni.

Með fyrsta valrétti sínum í þessu nýliðavali taka Houston A.J. Epenesa frá Iowa. Epenesa er þyngri og hægari en þessir týpísku skyndiliðar en það er af því að hann er varnarendi í 3-4 vörn og mun ekki koma til með að sinna sendingaárásum alfarið. Epenesa fer á hægri enda varnarlínunnar með J.J. Watt vinstra megin. Whitney Mercilus mun koma til með að fá fleiri sendingaárásir en Epenesa gæti verið stórkostlegur í hlutverki þar sem hann er notaður allsstaðar á línunni.

Glæsilegur miðvörður sem mun fara beint í byrjunarliðið hjá Browns og mannar miðvarðaparið með Karl Joseph. Pabbi hans spilaði í NFL svo þetta er honum í blóð borið. Winfield er með nef fyrir boltanum og stal sjö sendingum á seinasta tímabili sínu með Minnesota Golden Gophers.

Þar sem það er engin stótkostleg hola í Titans liðinu máttu þeir vel við því að færa sig neðar í töfluna og sanka að sér valréttum. Með fyrsta valréttinum sínum í ár taka þeir varnarlínumanninn Neville Gallimore frá Oklahoma og halda áfram að bæta við ungum leikmönnum þar eftir að hafa skipt Jurrell Casey frá sér fyrr í mánuðinum.

Meiðslasaga Muti er ævintýralega sorgleg en þessi stóri og þungi maður hefur slitið báðar hásinar sem hefur heft hans möguleika á að skara fram úr í háskólaboltanum. Þegar hann er heill þá er hann asnalega ógnvekjandi en Chicago taka hérna stóran séns og geta bara vonað það besta eftir að Kyle Long lagði skóna á hilluna fyrr á árinu.

Hér fylla Colts nokkuð nauðsynlega stöðu en þá vantar einmitt útherja sem passar vel með T.Y. Hilton sem er bestur í hólfinu. Higgins fer beint á kantinn þar sem hann spilaði fyrir Clemson en þetta er stór og stæðilegur strákur sem lendir hér í flottu umhverfi en framkvæmdastjórinn Chris Ballard hefur verið að gera gott mót síðan hann tók við stjórnartaumunum.

Arizona State útherjinn Brandon Aiyuk heldur til Flórída en útherjaherbergi Jaguars væri virkilega spennandi færi svo að Aiyuk endaði hér. Eftir varnarsinnaða valrétti í fyrstu umferð sækja þeir sér leikmann sem virðist ætla að skora snertimark í hverri snertingu sinni. Frábær eftir grip.

Clemson bakvörðurinn A.J. Terrell til Broncos númer 46. Chris Harris er horfinn á braut og vöntun er á góðum bakvörðum í Denver. Terrell mun koma til með að passa flott inn í svæðisvarnar afbrigði Vic Fangio og Ed Donatell.

Þjófnaður. D’Andre Swift er af mörgum talinn besti hlauparinn í ár en hann fellur til Atlanta sem taka glaðir á móti honum. Todd Gurley skrifaði á dögunum undir samning við Falcons en Atlanta væru vitlausir að vera ekki með annan öflugan hlaupara á reiðum höndum þegar Gurley hellist úr lestinni.

Jets misstu af sóknartæklara númer 11 en grípa hérna Lucas Niang frá TCU sem keppir við Chuma Edoga um hægri sóknartæklarann í New York.

Annað homerun pikk fyrir John Lynch og félaga frá San Francisco. Jaylon Johnson hefur átt við nokkur axlarmeiðsl að stríða en er alveg skruddu góður bakvörður í frábæru varnarliði Utah. Johnson kláraði háskólagráðuna sína á tveimur og hálfu ári og er með hausinn rétt skrúfaðan á. Borgiði manninum.

Öflugur bakvörður til Chicago, keppir við Buster Skrine um mínútúr. Áfram gakk.

Dallas halda áfram að efla baksveit sína en þeir tóku miðvörðinn Xavier McKinney í fyrstu umferð. Hér bæta þeir Bryce Hall við hópinn en hann var einn besti bakvörðurinn árið 2018 en lenti í slæmum meiðslum í ár sem heftu hans frammistöðu mikið.

Fyrsti valréttur Rams í ár fer í línuvörðinn vafasama Willie Gay. Gay hefur verið að glíma við nokkur utan vallar atriði en fótboltaleikmaðurinn er virkilega spennandi og fá Rams menn hér séns á að móta þennan unga mann og gera úr honum mann.

Philly sækja sér bakvörð með öðrum valrétti sínum í þessu platvali. Damon Arnette kemur frá sama skóla og Jeff Okudah og var hluti af gríðarlega sterkri Ohio State vörninni. Arnette hefur séns á að keppa um CB2 hjá Eagles en Nickell Robey-Coleman verður í hólfinu og Darius Slay er CB1.

Fjölhæfi línuvörðurinn Zack Baun endar hjá Buffalo númer 54 en hann gengdi nokkrum hlutverkum hjá Wisconsin í vetur. Yfirleitt var það í sendingaárásum af endanum en þess á milli var hann settur í dekkningu á augljósum sendingakerfum.

Jonah Jackson er oft talinn besti hreini sóknarvörðurinn í árganginum en nokkrir af bestu senterunum gætu vel skipt yfir í vörðinn og átt farsælan feril. Marshal Yanda lagði skóna á hilluna eftir tímabilið og er því stórt skarð í sóknarlínu Ravens sem Jackson kemur til með að reyna að fylla.

Miami gætu notað restina af valréttum sínum til að stoppa lekann í sóknarlínu sinni en hér brjóta þeir upp mynstrið og velja varnarmann. Jeremy Chinn er frændi Steve Atwater og spilar sömu stöðu í þokkabót. Chinn spilaði háskóla í neðri deild háskólaboltans og verður því erfitt að ímynda sér hans vegferð í NFL en hann hefur allt til brunns að bera til þess að verða miðvöður í deildinni.

Valréttur tvö í annarri umferð hjá Rams fer í skyndiliðann frá Alabama, Terrell Lewis. Lewis er stór og stæðilegur íþróttamaður sem myndi ekki hata að spila í sömu vörn og Aaron Donald en Donald gæti hjálpað heilmikið til með framfararkúrvu Lewis. Solid pikk.

Vikings misstu Everson Griffen og Linval Joseph en Marlon Davidson gæti nýst vel á línunni en hlutabréfin hafa verið á hraðri uppleið hjá honum seinustu mánuði. Davidson spilaði með Derrick Brown hjá Auburn en saman mynduðu þeir rosalegt teymi.

Framleiðsla Curtis Weaver í háskóla var rosaleg. Hann spilaði þrjú hjá fyrir Boise State Broncos en hann skilaði 47,5 TFL og 34 sacks yfir ferilinn. Mountain West deildin er þó langt frá því að vera sú sterkasta og því geta Seattle valið hann hér númer 59 en Clowney er á öllum líkindum á förum frá félaginu.

Baltimore dansa af gleði þegar þeir sjá Edwards-Helaire frá LSU lausan númer 60. Mark Ingram endist ekki að eilífu og hérna fær Lamar Jackson snyrtilegan hlauara með góðar hendur. Ósanngjarnt.

Titans velja sóknartæklarann Austin Jackson sem þarf líklegast 1-2 ár á æfingavellinum áður en hann gerir tilkall til byrjunarliðsins. Menn tala um að þetta sé stórt verkefni en verkfærin séu algjörlega galin. Tennessee kastar teningunum.

Green Bay tryggir sér Jordan Elliott númer 62 og um leið stuld nýliðavalsins 2020. Elliott hefur flogið undir ratsjánni allt tímabilið en á sér nokkra mjög dygga aðdáendur sem sjá hann sem betri leikmann en Derrick Brown og Javon Kinlaw. Öflugur mótor sem slökknar aldrei á. Kjöt á varnarlínuna.

Með öðrum valrétti sínum í draftinu taka Chiefs senterinn Matt Hennessy. Það var mikil togstreita í fyrstu umferðinni en Kanas City gætu vel þegið hjálp á sóknarlínuna, í bakverðinum og línuverðinum. Hér finna þeir sinn framtíðar senter og geta hakað það af listanum.

Tvöföld sóknarlínutrygging í annarri umferð hjá Seahawks. Fyrst tóku þeir senterinn Cesar Ruiz og hér taka þeir sóknartæklaranna Matt Peart sem gæti allt eins fært sig yfir í sóknarvörð og gert gott mót. Öflugur strákur úr minni skóla.
Lokaorð
Það fóru færri útherjar í annarri umferð en ég bjóst við að ég myndu fara. Flestum þessum liðum vantar frekar bakverði og hjálp á sóknarlínuna en það kæmi mér persónulega ekkert á óvart ef önnur umferð væri sneisafull af þessum leikstöðum. Nú er akkurat vika í nýliðvalið og þá hefst andlegur og líkamlegur undirbúningur fyrir mesta spennandi viðburð ársins. Nýliðavalið er einstakt en verður með öðru sniði í ár en önnur ár vegna faraldursins. Ég ætla að spá því að þessi innilokun og sóttkví setji mark sitt á valið og margt stórfurðulegt og hjartbrjótandi hlutir komi fram í dagsljósið.
Sólgleraugun á því framtíðin er björt.