Nú þegar deildakeppnin er um það bil hálfnuð er tilvalið að horfa aðeins fram á við og skoða þá leikmenn sem eru að spila á sínu seinasta samningsári. Vissulega er helmingur deildarinnar að spá í allt öðrum hlutum (að komast í úrslitakeppnina) en það hefur myndast kjarni liða sem líklega er farinn að horfa til næsta keppnistímabils.
Á sambærilegum tíma í fyrra tók ég saman 25 leikmenn sem voru á sínu seinasta samningsári en 14 þeirra héldu kyrru fyrir hjá sínum liðum og 11 breyttu um umhverfi. Í ár tíndi ég til 10 varnarmenn og 10 sóknarmenn sem gætu vel skipt um lið en ég reikna sterklega með því að nokkrir þeirra komist aldrei út á opna markaðinn.
Varnarmenn
Von Miller (32.6 ára), EDGE – Los Angeles Rams
Miller var nýverið skipt yfir til Rams, fyrir 2. og 3. umferðar valrétti, eftir glæstan feril með Denver Broncos seinustu 10 ár. Framkvæmdastjóri LA Rams, Les Snead gaf það út eftir skiptin að hann það væri framtíðarsýn varðandi Miller og að þetta væri ekki aðeins hugsað sem skyndiuppfærsla á liðinu. Líklega heldur Miller kyrru fyrir hjá Rams eftir tímabilið.
Stephon Gilmore (31.1), CB – Carolina Panthers
Líkt og Miller, þá er Gilmore einnig á nýjum stað eftir árangursríkan tíma með New England Patriots. Gilmore spilaði sinn fyrsta leik fyrir Panthers gegn Atlanta Falcons í leikviku 8 og í þeim 17 snöppum sem bakvörðurinn spilaði, náði hann sínu fyrsta inngripi fyrir liðið. Scott Fitterer borgaði 6. umferðar valrétt fyrir leikmanninn sem er ekki mikil fjárfesting svo það er ekki alveg víst hvort hann fái framlengingu eftir tímabilið. Möguleikinn er þó klárlega fyrir hendi.
Tyrann Mathieu (29.4), SAF – Kansas City Chiefs
Á þeim tveimur heilu tímabilum sem Mathieu hefur spilað undir merkjum Chiefs, þá hefur hann tvisvar verið valinn í Pro Bowl leikinn ásamt því að vera valinn í All-Pro lið deildarinnar í fyrra. Launaþaksmál Kansas City eru frekar snúin og ljóst er að ýmsar breytingar verða gerðar á leikmannahóp liðsins eftir tímabilið og gæti Mathieu vel orðið fórnarlamb aðstæðna og þurft að sigla á ný mið.
Chandler Jones (31.7), EDGE – Arizona Cardinals
Jones byrjaði tímabilið af feykikrafti með fimm fellur í 1. umferð en síðan hefur lítið til hans spurst. Það er ekkert launungamál að það er farið að hægjast eilítið á þessum frábæra skyndiliða sem er nú kominn yfir 100 fellu múrinn og óvíst hvort hann fái þann markað sem hann sækist eftir í mars. Ég myndi setja helling af peningi á að hann verði ekki áfram í herbúðum Cardinals í byrjun næsta tímabils.
Marcus Williams (25.1), SAF – New Orleans Saints
Williams hefur flogið verulega undir radarinn síðan hann kom inní deildina árið 2017. Síðan þá hefur hann verið í hæsta gæðaflokki þegar litið er til frjálsra miðvarðra í deildinni. Williams fékk franchise-taggið í mars síðastliðnum og verður því samningslaus næsta mars og óvíst er hvort Mikey Loomis nái að galdra sig í gegnum þetta blessaða launaþak því eins og staðan er núna verða Saints $52M YFIR launaþakið á næsta ári. Mikil hreingerning þarf að eiga sér stað í bókunum þeirra og gætu þeir þurft að leyfa einum besta unga varnarbakkara deildarinnar að labba fyrir vikið.
Leighton Vander Esch (25.7), LB – Dallas Cowboys
Vander Esch hefur glímt við gríðarlega mikið af meiðslum eftir að hann kom inní deildina og spilaði aðeins 19 leiki af 36 seinustu tvö tímabil. Þegar hann er heill er leikur enginn vafi á hans gæðum en mér fyndist ótrúlegt ef Dallas menn ákveddu að borga markarðsverð fyrir hann. Þeir tóku tvo línuverði í seinasta nýliðavali, Micah Parsons og Jabrill Cox, svo þeir ættu ekki að svitna mikið við að missa Vander Esch frá sér í mars.
Harold Landry (25.3), EDGE – Tennessee Titans
Landry er loks að springa út í ár en við skulum heldur ekki gleyma því að hann er á samningsári. Innkoma Bud Dupree í vörnina sem og framgangur Jeffrey Simmons hafa vafalaust haft sín áhrif en Landry er að spila besta fótbolta ferils síns um þessar mundir og lítur út fyrir að vera að sækjast eftir top-dollar þegar frjálsi leikmannamarkaðurinn opnar á næsta ári.
Marcus Maye (27.6), SAF – New York Jets
Maye var franchise-taggaður seinasta mars og náðu Jets og umboðsaðilar hans ekki að komast að sætti um framlengingu og sögur segja að miðvörðurinn hafi verið lítið spenntur að leggja allt í sölurnar fyrir félagið á aðeins 1-árs samning. Það verður að teljast ansi hæpið að hann haldi kyrru fyrir í stóra eplinu en hann hefur verið frábær seinustu tvö tímabil.
J.C. Jackson (25.9), CB – New England Patriots
Jackson átti stórkostlegt tímabil í Patriots vörninni í fyrra þar sem hann skilaði 9 inngripum, varðist 14 sendingum og leyfði aðeins 59% sendingaheppnun á sitt svæði. Bill Belichick hefur aldrei verið frægur fyrir það að borga mönnum þær upphæðir sem frammistöður þeirra krefjast og því ætti engum að bregða þegar Jackson heldur á önnur mið næsta mars. Hann er bara 26 ára og ætti að vera einn eftirsóttasti bakvörðurinn á markaðinum.
Jessie Bates III (24.7), SAF – Cincinnati Bengals
Yngsti leikmaðurinn hérna. Bates kom fram á sjónvarsviðið á sínu nýliðaári, 2018, með þremur inngripum, 111 tæklingum og 7 sendingum varist. Síðan þá hefur hann haldið tempói þangað til í ár en hans frammistaða hefur tekið svolitla dýfu en engu að síður verður hann eftirsóttur á markaði ef hann kemst yfir höfuð þangað. Bengals ættu að gera allt til að halda Bates sem aftasta varnarmanni því það eru fáir eins liprir frá austur til vestur og Bates í kastleiknum.
Sóknarmenn
Davante Adams (28.8), WR – Green Bay Packers
Besti útherji seinustu 2-3 ára, Adams, virðist vera á förum frá Green Bay og gæti vel hugsast að hann og Aaron Rodgers spili undir sama merki næsta september. Adams er að verða 29 ára en ætti samt að eiga 2-3 virkilega góð ár eftir í deildinni og verður án efa launahæsti útherji deildarinnar fyrir vikið.
Terron Armstead (30.2), LT – New Orleans Saints
Meiðsli hafa alltaf fylgst Armstead sem hefur getið af sér gott orð sem einn besti vinstri tæklari landsins. Síðan hann varð byrjunarliðsmaður árið 2014 hefur hann misst af 31 deildarleik. Það er erfitt að ímynda sér að nú þegar hann er kominn röngu megin við þrítugt, að hann skyndilega verði andlit heilbrigðis en það verða bókað þónokkur lið sem verða til í að taka þann séns.
Allen Robinson (28.2), WR – Chicago Bears
Blake Bortles, Mitchell Trubisky, Nick Foles, Andy Dalton og Justin Fields. Listinn af stjórnendum sem Robinson hefur spilað með er ekki spennandi en þessi frábæri leikmaður hefur þrátt fyrir það skilað góðum frammistöðum og tölum. Hann var franchise-taggaður í mars og vill mjög augljóslega ekki vera lengur í Chicago borg. Ég horfi til samningsins sem Kenny Golladay fékk og ímynda mér að það sé byrjunarpunktur Robinson í samningaviðræðunum í mars.
Brandon Scherff (29.8), OG – Washington Football Team
Vörðurinn sterki er að spila á franchise-tagginu og þykir mér líklegt að Washington muni reyna að halda honum en hann hefur spilað þar síðan fótboltaliðið tóku hann í 1. umferð árið 2015. Scherff er á hæstu meðallaunum allra varða í deildinni þetta tímabilið og verður það líkast til áfram eftir að hann fær framlenginguna sína en Wyatt Teller (sem er líka á þessum lista) gæti haft eitthvað um það að segja.
Chris Godwin (25.7), WR – Tampa Bay Buccaneers
Einn besti þristur (slot receiver) deildarinnar var franchise-taggaður í mars þegar Jason Licht náði eftirminnilega að halda Ofurskálarliði sínu saman. Nú fer hinsvegar að líða að skuldadögum og ljóst er að Godwin mun heimta ágætis skilding. Hvort hann sé reiðubúinn til að gefa smá afslátt til að geta haldið ferli sínum áfram samhlið Tom Brady verður að koma í ljós, en mér finnst nokkuð líklegt að hann haldi kyrru fyrir og semji til langstíma við Tampa Bay.
Wyatt Teller (26.9), OG – Cleveland Browns
Wyatt Teller skaust fram á sjónarsviðið í fyrra með svakalegri frammistöðu í hægri verði sóknarlínu Cleveland Browns. Hann var að öllum ólöstuðum besti vörður landsins í fyrra og hefur haldið uppteknum hætti í ár. Teller verður án efa einn launahæsti vörður deildarinnar þegar hann fær framlenginguna sína í mars. Það yrði algjört klúður að missa hann ef svo verður raunin.
Mike Gesicki (26.1), TE – Miami Dolphins
Gesicki fær ekki mikla athygli á landsvísu en hann hefur hljóðlega komið sér þægilega fyrir sem einn besti innherji deildarinnar þegar kemur að kastleiknum. Það hefur ekki verið honum til happs að spila með Dolphins og hægt er að ímynda sér meiri framleiðslu í öðru kerfi og annarri borg með annan stjórnanda undir senter. Ég reikna ekki með að sjá hann í búningi höfrunganna á næsta ári.
Orlando Brown Jr. (25.5), LT – Kansas City Chiefs
Brown kom eftirminnilega yfir til Kansas City í skiptum frá Baltimore þar sem hann vildi elta æskudraum sinn um að vera vinstri tæklari í NFL en hann var fastur hægra megin á sóknarlínu Ravens vegan Ronnie Stanley. Chiefs borguðu dágott nýliðvalspúður fyrir drenginn sem er á samningsári og eru þeir eiginlega knúnir til að framlengja við hann í ljósi fjárfestingarinnar (sokkinn kostnaður). Reikna með að hann verði um kyrrt.
Courtland Sutton (26.0), WR – Denver Broncos
Það verður áhugavert að sjá nýjan framkvæmdastjóra Broncos, George Paton, sinna leikmannamarkaðsmálum Denver í mars. Sutton og Tim Patrick eru báðir samningslausir í mars og reikna má með því að annar þeirra leiti á önnur mið. Sutton er fyrrum 2. umferðar valréttur John Elway sem missti af öllu seinasta tímabili vegna meiðsla. Líklegt þykir mér þó að Sutton fái borgað og Patrick haldi á vit ævintýranna.
D.J. Chark (25.1), WR – Jacksonville Jaguars
Chark hefur ekki spilað síðan í leikviku 4 þegar hann braut á sér ökklann og kemur ekki meira við sögu í vetur. Skelfileg tímasetning fyrir útherjann sem er búinn að setja saman tvö ágætistímabil (2019 & 2020) og lofaði mjög góðu, sér í lagi með Trevor Lawrence undir senter, þar sem Chark er stór og stæðilegur strákur. Chark er frá Los Angeles og er að öllum líkindum hitabeltisstrákur og því gæti vel verið að hann haldi kyrru fyrir í Jacksonville eða skoði það að semja við lið eins og Chargers eða 49ers.